Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Það er skiljanlegt að hæstv. fjmrh. sé í nokkrum vanda, enda kom það skýrt í ljós þegar hv. 9. þm. Reykn. Karl Steinar Guðnason stóð upp. Ég held að það væri ágætt að hv. þm. Skúli Alexandersson hlýddi á það sem ég ætla að segja hér á eftir vegna ummæla hæstv. fjmrh. En ég skil vel að honum líði ekki vel, hæstv. ráðherra, þegar hann situr undir ræðu hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar eftir að hafa gefið þá yfirlýsingu að Alþb. sé reiðubúið til að ganga inn á stefnu Sjálfstfl. í sambandi við tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi þegar það verður upp tekið 1. janúar 1990. Það vill nefnilega svo til að hæstv. ráðherra sat ekki hér í Ed. þegar þetta mál var til umræðu þannig að hann veit ekki gjörla hvað þar gerðist þegar verið var að afgreiða þetta frv. á þinginu. Það sem gerðist er einfaldlega það að upp kom mjög alvarlegur ágreiningur einmitt um þetta atriði sem menn hafa flokkað undir matarskattinn en er raunverulega miklu stærra mál. Þegar virðisaukaskattsfrv. var hér til afgreiðslu í deildinni kom fram mjög sterk skoðun ýmissa hv. þm. og þar á meðal þingmanna Sjálfstfl. um að það væri algjör krafa af þeirra hálfu að þegar virðisaukaskattsfrv. eða lögin kæmu til framkvæmda, þá væri búið að breyta þeim þannig að það yrði tveggja þrepa kerfi.
    Niðurstaða þess máls varð sú, eins og hv. þm. vita og kunna sem hér voru viðstaddir, að það var ákveðið að vísa því til nefndar sem skyldi gera tillögu m.a. um þessa breytingu ásamt fleiri atriðum sem hv. þm. vildu láta athuga í sambandi við framkvæmd þessara laga. Ég bið aðra hv. þm. um að standa upp og leiðrétta mig ef þetta reynist rangt. Það var fyrir frumkvæði sjálfstæðismanna að þetta atriði var tekið inn sérstaklega og það var yfirlýst stefna okkar sjálfstæðismanna að við ætluðum að koma því í kring að virðisaukaskatturinn skyldi verða tveggja þrepa skattur, þar sem væri lægra skattþrep á matvörum. Við töluðum hér um 10--12%. Það gerðu líka aðrir hv. þm. Það er því algjör misskilningur hjá hæstv. ráðherra að Sjálfstfl. hafi misst nokkuð af forustunni. Það sem hefur gerst er það að Alþb., þegar það komst til valda, gefur núna yfirlýsingu þegar það er við völd að þetta skuli gert. En þá kemur náttúrlega stóra spurningin og það kom greinilega fram í ræðu hv. þm. Karls Steinars: Hæstv. ráðherra hefur ekki enn þá talað við hæstv. utanrrh. og enn síður við hæstv. viðskrh. þannig að þetta mál er alls ekki í höfn þótt Alþb. vildi nú styðja þessa stefnu Sjálfstfl. og hv. þm. Skúla Alexanderssonar, ef ég man rétt. Hér er því öruggur meiri hluti fyrir þessu. Nú hvet ég hæstv. ráðherra til að tryggja það að þessi stefnuyfirlýsing hans verði að raunveruleika með því að hæstv. ríkisstjórn samþykki það að hér skuli koma tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi til framkvæmda 1. janúar 1990. Þar með er það staðfest að sú stefna sjálfstæðismanna, sem m.a. varð stjórn Þorsteins Pálssonar að falli, kemur til framkvæmda, þ.e. að það verður lægri skattur á matvælum. Það er einnar stjórnar virði að koma slíku máli í höfn, segi ég,

þannig að ég fagna þessum ummælum hæstv. ráðherra og ég treysti því að hann verði þá jafnskeleggur og við sjálfstæðismenn vorum, við létum m.a. brotna á þessu sl. haust þegar stjórn Þorsteins Pálssonar fór frá. En nú reynir á höfðingja Alþb. Ég segi höfðingja. Nú reynir á ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju. Nú reynir á það að hún sýni það í verki að hún ætli að lækka kostnað matvæla, þ.e. lækka það sem launafólk þarf að greiða fyrir rándýr matvæli.
    Ég skal ekki fjölyrða um þetta atriði, en þó er þetta mjög þýðingarmikið vegna þess að það er alveg rétt, sem fram hefur komið hér í ræðum manna, að þessar undanþágur --- það mátti ekki tala um undanþágur hér sl. vetur, það er alveg rétt, eins og kom hér fram í ræðum þingmanna áðan. Það var bannorð þegar verið var að fjalla um virðisaukaskattsfrv. Algert bannorð. Þetta var allt svo einfalt og skýrt, bara ein skattprósenta. Búið. Afgreitt. Engar undanþágur. Engin spilling. Hvað er nú það, hv. þm. Karl Steinar Guðnason? Var einhver að tala um utanríkisþjónustuna? Ég var ekki að því, þannig að ef menn vilja fara að tala hér um klíkuskap og spillingu, þá er allt í lagi að bjóða upp í dans. Jú, það er sjálfsagt að bjóða upp í dans, vegna þess, hv. þm. Karl Steinar, þó að hér komi fram frv. eins og frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur um undanþágur m.a. í þeim tilgangi sem þetta frv. felur í sér, þá þarf ekki að felast í því nein spilling. Það getur verið heilbrigt sjónarmið um það sem er raunsætt og nauðsynlegt til þess að menn geti stundað sína atvinnustarfsemi í þessu landi. Það vill oft gleymast þegar menn eru að einfalda það og flytja hér inn nýjar kenningar, sérstaklega frá Norðurlöndum þar sem alþýðuflokksmenn hafa ráðið miklu, þá vilja menn gleyma því hvar þeir búa. Það getur verið að Ísland þurfi eins og önnur ríki að skoða sína stöðu gagnvart sínu atvinnulífi og þeim störfum sem fólk stundar hérlendis eins og gerist úti í hinum stóra heimi. Ef menn halda það enn þá eftir alla þá umræðu sem hér hefur farið fram og ég segi, eftir öll þau gögn sem hafa verið lögð á borð þingmanna um það hvernig þessum málum er háttað, m.a. í Evrópubandalaginu sem er orðið sáluhjálparatriði hjá sumum hv. þm. að einblína á þegar þeir eru að fjalla hér um skattamál og atvinnumál í þinginu, ef menn halda það að þar séu ekki
undanþágur, þar séu ekki greiddir styrkir eða niðurgreitt vöruverð, þá er það hinn mesti misskilningur.
    En það er hægt að einfalda mál þannig og segja að vegna þess að þetta þyki gott í Danmörku, þar skilst mér að sé ein prósenta í virðisaukaskatti, þá þurfi Íslendingar að gera það einnig. En þá skulum við víkja til Englands sem er nú innan Evrópubandalagsins. Þar er enginn virðisaukaskattur á matvörum. Er það ekki rétt, hæstv. fjmrh.? ( Fjmrh.: Það er tveggja þrepa virðisaukaskattur í Englandi.) Það er enginn virðisaukaskattur á sumum tegundum matvæla. Ég upplýsi þá hæstv. fjmrh. um það. Þetta er mjög þýðingarmikið, að hæstv. fjmrh. hafi í huga

þannig að við getum kannski farið í svipað og tíðkast í Bretlandi að sleppa allri skattlagningu á ákveðnum tegundum matvæla. Ég er reiðubúinn til að ræða það. Ég er reiðubúinn til þess að ræða það, ef það t.d. gæti komið þannig út að íslenskur landbúnaður yrði betur samkeppnisfær við aðrar greinar sem keppa í sölu á matvælum. Ég tel að það eigi að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Ég legg áherslu á að það verði skoðað mjög gaumgæfilega af því að landbúnaðarvara er mjög þýðingarmikil fyrir okkur Íslendinga, sérstaklega sú sem framleidd er í landinu með tilliti til byggðajafnvægis og allrar uppbyggingar í landinu í heild. Ég veit að hv. framsóknarmenn eru sammála mér um þetta atriði. ( StG: Við munum líka eftir ...) Að sjálfsögðu, hv. þm. Stefán Guðmundsson. Það munum við einmitt. Við erum jarðfastir, gerum okkur grein fyrir þessu.
    En ég var satt að segja að vona það að hv. þm. Karl Steinar væri búinn að átta sig á því að það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir er að gera, sem er nú ekki stórt mál út af fyrir sig, og þó, það kemur þarna inn á þetta prinsippatriði sem menn voru búnir að binda sig við illu heilli á síðasta þingi að menn viðurkenna það sem stenst ekki. Þess vegna segi ég fyrir mitt leyti að ég vil mjög gjarnan skoða þetta frv. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur í því ljósi sem það er hér fram lagt og mun auðvitað taka afstöðu til þess hér síðar í atkvæðagreiðslu eftir því hvernig meðferð það fær í nefnd. En mér finnst alveg sjálfsagt að við höfum það hugfast og ég vil undirstrika það og ég vona að það sé hægt að treysta því að hæstv. fjmrh. standi nú við þau orð, verði hann í ríkisstjórn --- það er aftur annað mál --- en verði hann í ríkisstjórn, þá standi hann við það að leggja hér fram frv. til l. sem felur í sér breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem kemur til framkvæmda 1. janúar 1990 sem felur það í sér að það verður mun lægri skattur á matvælum. Við sjálfstæðismenn munum auðvitað skoða það frv. og það fer náttúrlega eftir því hvort prósentan verður há eða lág hvaða afstöðu við tökum, en í prinsippinu getum við stutt þetta vegna þess að þetta var okkar tillaga sem hæstv. ráðherra vill núna tileinka sér og Alþb. ætlar að standa að.
    En það kemur í ljós hvort hæstv. ráðherra hefur þrek til þess að standa við þessi orð, en hugsanlega reynir ekki á það. Ég er nú ekki svo viss um það að þessi hæstv. ríkisstjórn lifi það að koma þessum lögum í framkvæmd 1. jan. ( Gripið fram í: Það geturðu bókað.) og þá kemur það væntanlega í hlut okkar hinna, sem verðum þá væntanlega hér, að tryggja það og ég veit að hv. þm. Karvel Pálmason mun styðja þetta dyggilega. Þetta kemur sér vel einmitt núna ( KP: Ertu viss um að ég verði hér?) þegar verkalýðshreyfingin er að gera sína samninga að tryggja það að verkalýðurinn fái þessa lækkun á vöruverði sem fælist í því að lækka þennan umdeilda skatt.