Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að nota tækifærið og koma hér upp þegar söluskattsmálin eru almennt til umræðu. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. 6. þm. Vesturl. og styðja það frv. sem hér er til umræðu, einmitt taka undir það að hér er um að ræða búgrein sem e.t.v. er að verða hefðbundin búgrein hér á Íslandi.
    Ég hlýt einnig að ítreka fyrirspurn til hæstv. fjmrh. og biðja hæstv. forseta um að reyna nú að draga hann í salinn. Hann hefur tilhneigingu til þess að draga sig til hliðar, í hlé. ( SkA: Hann getur notað annað eyrað.) Kannski er honum hvimleitt að ræða þessi mál. Það væri mjög gott ef hv. þingflokksformaður Alþb. gæti haft áhrif á hann til að taka þátt í umræðum.
    Hæstv. forseti. Ég vona bara að hæstv. forseti Sþ. frétti ekki af því að hæstv. fjmrh. hafi einhverjum öðrum mikilvægari hnöppum að hneppa en að taka þátt í skyldustörfum sínum á þingi. En ég hlýt að ítreka ósk um það að hæstv. ráðherra birtist hér fljótlega svo hann tefji ekki þessa umræðu úr hófi. ( Forseti: Það er velkomið að fresta fundi á meðan á þessu stendur. Ég hef gert ráðstafanir til þess að ná í fjmrh. Það hefur ekki tekist.) Ég er nú þolinmóð, hæstv. forseti. Ég hlýt að doka aðeins við.
    Ég held að hæstv. ráðherra þurfi að gera sér grein fyrir því að söluskattsmálið, hvort sem um er að ræða einstakar undanþágur við það sem maður mundi kalla smáliði eða undanþágur fyrir matvæli sem er meginefni og aðalatriði fyrir launþega þessa lands --- og ég hlýt að fara fram á það að hæstv. ráðherra taki þátt í þessari umræðu því að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða.
    Í fyrsta lagi vil ég byrja á því að fagna því að hann er genginn í salinn og má vera að því að taka þátt í þessum skyldustörfum sem hér fara fram. Í öðru lagi vil ég ítreka þá fyrirspurn sem hv. 6. þm. Vesturl. bar fram um það hvern hug hæstv. ráðherra bæri til þess máls sem hún flutti hér, þ.e. að afnema söluskatt af námsbókum.
    En ég vil nota tækifærið og þá fyrst og fremst vegna þess að hæstv. ráðherra er viðstaddur og vegna þess að matarskatturinn illræmdi hefur borist í tal. Sl. fimmtudag gerði ég fyrirspurnir til hæstv. viðskrh. um verð á matvælum. Fyrirspurnirnar voru svohljóðandi:
    1. Er það rétt að verð á matvælum sé mun hærra hér á landi en í helstu nágrannalöndum okkar? Þessu svaraði hæstv. ráðherra játandi.
    2. Ef svo er, hve mikill er sá munur og hverjar eru helstu ástæður fyrir slíkum verðmismun á lífsnauðsynjum? Hyggst viðskrh. grípa til ráðstafana til þess að eyða eða draga úr honum? Hæstv. ráðherra lagði fram, ja bráðabirgðakönnun mundi ég vilja nefna hana, þar sem var verðsamanburður á matvælum í Glasgow, Reykjavík og Osló. Glasgow var tekin sem ódýr borg, Osló var tekin sem dýr borg og það kom í ljós að það var verulegur verðmunur á sumum tegundum matvæla. Nú hef ég ekki þessar niðurstöður hér við höndina og get því ekki vísað til þeirra. En munurinn var það mikill að það skipti verulegu máli.

    Þó var verra að hæstv. ráðherra var í raun ekki með neinar uppástungur eða ráðagerðir um að draga úr þessum kostnaði. Ég þarf ekkert að segja hæstv. fjmrh. um það hversu íþyngjandi fyrir pyngju heimilanna söluskattur á matvæli er. Ég þarf heldur ekki að minna hæstv. ráðherra á það, að í Bretlandi þar sem hæstv. ráðherra þekkir vel til er enginn söluskattur á matvæli sem keypt eru út úr búð. Hvað sem segja má um stjórnarfar í því landi að öðru leyti, þá hafa stjórnvöld þar haft rænu á því að virða þessa grundvallarþörf, að setja ekki söluskatt eða virðisaukaskatt á matvæli. Síðan eru önnur Evrópulönd sem hafa annaðhvort söluskatt eða virðisaukaskatt og þau hafa tvö þrep a.m.k., sum fleiri og þá sérstaklega hvað varðar undanþágur eða lægri skatt á matvæli.
    Því heyrðist fleygt hér á dögunum fyrir nokkrum vikum, áður en kjarasamningar fóru í hönd, að e.t.v. yrði lækkun matarskatts notuð sem einhvers konar ráðstöfun, einhvers konar tilraun til þess að koma til móts við launafólk. ( Gripið fram í: Skiptimynt?) Skiptimynt, já, e.t.v. skiptimynt. Síðan hefur ekkert heyrst um þetta frekar. Ég vil því taka undir með öðrum sem hér hafa talað á undan mér og spyrja hæstv. fjmrh., því að málið hlýtur að vera ekki síst í hans höndum: Hyggst hann gera ráðstafanir til þess að lækka eða fella niður matarskattinn? Þessi skattur er íþyngjandi og óþolandi fyrir launþega í þessu landi.