Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Til þess að engin hætta sé nú á því að hv. 3. þm. Vestf. haldi að hann sé orðinn eitthvað ruglaður, þá held ég að það sé rétt að það komi fram af hálfu Framsfl. hér, fyrst hv. þm. eru farnir að tala nokkuð í flokkum, að Framsfl. samþykkti þennan matarskatt hér um árið. Það er rétt. En það var gert af einni ástæðu kannski sérstaklega og með einu skilyrði.
    Ástæðan var sú að með því var talið að næðist fyrir skattsvik, söluskattssvik, eða okkur var talin trú um það. Þetta var ein ástæðan fyrir því að við samþykktum matarskattinn. Nú hefur það hins vegar sýnt sig að skil á söluskatti hafa svo til ekkert breyst við þetta. Skilyrðið var aftur á móti það að íslensk matvæli eða landbúnaðarvörur hækkuðu ekki í verði við þetta, þ.e. söluskatturinn yrði niðurgreiddur hvað því næmi og það er vegna þess hversu mikla áherslu við leggjum á að matvara sé framleidd í landinu eins og hv. 14. þm. Reykv. kom inn á áðan og reyndar tengist því frv. sem hér er á dagskrá. En umræður eru orðnar nokkuð almennar. Þetta vildi ég að kæmi fram því að þannig er í stjórnarsamstarfi margra flokka að þá er ýmislegt sem þarf að láta yfir sig ganga og út úr því kemur sjaldnast stefna eins flokks og það er beinlínis hættulegt þegar stjórnarsinnar fara að tala um það sem út úr slíku samstarfi kemur sem stefnu síns flokks. Stefna Framsfl. hefur verið tvö stig í virðisaukaskatti ef hv. þm. skyldu ekki vita það og þess vegna leyfi ég mér nú að vona að af því verði þegar þessi margumtalaði virðisaukaskattur verður tekinn upp.
    Ég vil svo segja það vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram áðan um að verð væri hærra hér á matvælum en í nágrannalöndum okkar að ekki er hægt að neita því að svo er, en á því getur líka verið sú skýring að íslenska krónan sé ekki rétt skráð.
    Eins verð ég, vegna þess að hér er verið að tala um undanþágur frá söluskatti og að búgreinar eigi helst allar að njóta sama réttar af hálfu stjórnvalda, að minnast á búgrein eina sem er nokkuð í umræðunni og nefnist loðdýrarækt. Þar á að heita að söluskattur sé endurgreiddur en það hefur þó ekki verið að fullu og síðast þegar það var gert er ég hrædd um að staðið hafi verið það illa við þá endurgreiðslu að ekki hafi lengur verið talað um hana sem endurgreiðslu á söluskatti, heldur einhvers konar stuðning við loðdýraræktina sem síðan er svo fjallað um í fjölmiðlum sem einhvern stórkostlegan peningaaustur í þá búgrein sem er ekki annað en endurgreiðsla á söluskatti og þar illa fram fylgt því sem um hafði verið samið, að loðdýraræktin skyldi njóta, þ.e. að fá söluskatt endurgreiddan sem samkeppnisgrein.