Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Þessar umræður hafa farið á víð og dreif og mörg spekin verið sögð. Þó gat ég ekki að mér gert að hugsa til Biblíunnar þegar hv. 14. þm. Reykv. kom hér upp, barði sér á brjóst og sagði óbeinum orðum: ,,Ó, guð, þakka þér fyrir að ég skuli ekki vera svo vondur maður sem hinir hér.`` ( GHG: Hver gerði það?) Deildi mönnum niður í jarðbundna menn og ójarðbundna og sagði að aðrir væru óverðugir. (Gripið fram í.) En þetta var allt mjög athyglisvert og vert að minnast þess.
    Þetta litla frv., sem fjallar um garðyrkjuáhöld, hefur orðið tilefni þessarar umræðu. Ég tel út af fyrir sig ekki ástæðu til að amast við þessu frv. Það er í samræmingarátt, eins og sagt hefur verið, en ég hef bent á það líka að það væri ástæða til þess fyrir sjávarútveg að samræming ætti sér stað þar einnig. Ég minni á að söluskattur er aðeins endurgreiddur af frystingu og saltfiski og er þá ærið mikið eftir. Mér heyrðist svona eggjahljóð í hæstv. fjmrh. þegar minnst var á frv. um garðyrkjuáhöldin og datt þá í hug að nú væru allir taumar lausir, hægt væri að fella þetta allt niður og leita samræmingar út um víðan völl. Mjög fannst mér það athyglisvert. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að tekjur ríkisins verði ekki nógu miklar fyrir skólahald og sjúkrastofnanir og annað slíkt og þess vegna hef ég haldið í það að það þyrfti tekjustofna til að greiða það. En fyrst þessi gósentími er kominn að það megi leita samræmingar út í hið óendanlega er ástæða til þess að kætast hér á hv. Alþingi.
    En inn í þessa umræðu hefur einnig blandast söluskattur af öðru tagi og það sem hefur orðið mér til mestrar undrunar í þeim umræðum er það að sjálfstæðismenn sem með glöðu geði samþykktu skatta á alla þessa þætti í síðustu ríkisstjórn ( GHG: Það er ekki rétt.) hafa allt í einu aðra skoðun á málinu. ( GHG: Það er þetta sem er ekki rétt.) Og svo virðist sem árstíðaskipti séu á þessum skoðunum. Það kemur önnur árstíð innan tíðar og þá hlýtur skoðunin að verða önnur. Það er því ekkert að marka hver niðurstaðan verður í vor. ( Gripið fram í: Það er komið vor.) Já, eða sumar, svo kemur haust, þá kemur önnur skoðun, og svona heldur þetta áfram ef að líkum lætur. Ástæðan fyrir því að Sjálfstfl. fór úr ríkisstjórn var ekki söluskatturinn. Það er bara sýndarmennska. Ástæðan fyrir því að Sjálfstfl. fór úr ríkisstjórn var átakanlegt kjarkleysi til að leysa efnahagsmál þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Það var eina ástæðan. Síðan fundu menn upp alls konar tylliástæður eftir að þeir sáu að þeir höfðu enga stöðu vegna þess að atvinnulífið krafðist þess að menn hefðu skoðanir á því hvernig ætti að leysa vanda þess. ( SalÞ: Nú er kjarkurinn fyrir hendi eða hvað?) Kjarkurinn er fyrir hendi og ég bendi t.d. á það að Sjálfstfl. og Vinnuveitendasambandið spáðu því að um þetta leyti yrði 10--20 þús. manna atvinnuleysi. ( GHG: Það voru 5000.) Og allt niður í 5000 var spáin, allt niður í 5000. Sem betur fer, og ég met það mikils, hefur tekist að koma í veg fyrir það og sjálfsagt vegna þess

að það eru aðrir sem hafa tekið til starfa í ríkisstjórn, önnur ríkisstjórn.
    En ég segi það aftur að menn skyldu ekki treysta mikið á svona yfirlýsingar um það að menn vilji fella niður skatta út og suður þegar þeir eru komnir í stjórnarandstöðu. Það breytist allt. Það er reynslan með Sjálfstfl. Það breytist allt þegar þeir komast í ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Þá fara þeir ofan í buddu láglaunamannsins og samþykkja nýja og nýja skatta með glöðu geði.