Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Þetta litla og góða frv. hefur komið til leiðar heilmikilli umræðu í deildinni. Það sýnir hverju góð þingmannafrv. geta áorkað. Kannski ég eigi að segja bæði þessi frv. Ég vil ekki draga úr því að frv. hv. þingkonu Danfríðar Skarphéðinsdóttur hafi haft svolítil áhrif á þetta líka. Umræðan hefur hins vegar farið dálítið vítt og breitt og meira að segja er kominn inn í umræðuna nýgerður launasamningur við BSRB, tímamótasamningur, sérstaklega þó í sambandi við kvenfólk, sem ég geri ráð fyrir að verði frekari umræða um hér á eftir og ýmislegt fleira. Ég tek svo sem undir með hv. 3. þm. Vestf. að maður má vera svolítið hissa að heyra ýmsar skoðanir sem hér koma upp og ýmsar fullyrðingar. Það var hér t.d. í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnar Agnarsdóttur. Hún var með ýmsar upplýsingar um söluskatt á matvælum hingað og þangað í heiminum eins og það væri eitthvert undur og furður að það væri ekki söluskattur á matvælum í Englandi. Það er nú ekki nema rúmt ár síðan var enginn söluskattur á matvælum á Íslandi og þá var það stefna Alþb. sem kom því til leiðar. Var það ekki 1978 að afnuminn var söluskattur á matvælum? Og það stóð allar götur þar til um áramót í fyrra að matarskatturinn var tekinn upp með stuðningi hv. framsóknar- og alþýðuflokksþingmanna hér í deildinni nema hv. þm. Karvels Pálmasonar. Þá var það skoðun þessara hv. þm. að það ætti að vera matarskattur og nú eru þeir komnir með þá skoðun að hann sé af hinu vonda og ég hef ekki heyrt fyrr en núna á síðustu dögum að þessir sem sátu að fyrri stjórn hafi verið alveg ákveðnir í því að það ættu að vera tvö þrep í virðisaukaskatti. Það er ekki fyrr en núna alveg á síðustu dögum að sú skoðun kemur fram.
    Við í Alþb. höfum aftur á móti verið að lemja á þessu og talið þetta sjálfsagðan og nauðsynlegan hlut og jafnvel að það ætti enginn virðisaukaskattur að vera á matvælum. ( SalÞ: En ætluðuð þið ekki inn í ríkisstjórn?) Við ætluðum inn í ríkisstjórn og við fórum inn í ríkisstjórn og felldum niður söluskatt á matvælum, fórum með pomp og pragt inn í ríkisstjórnina 1978 og felldum niður söluskatt --- ( GHG: 1978?) 1978. ( GHG: Já, ekki 1988.) 1978. --- og felldum niður söluskatt af matvælum. ( GHG: En hvað um 1988?) Við tókum náttúrlega við hroðalegu búi 1988 og því miður hefur ekki verið hægt að koma því til leiðar enn að fella niður eða minnka matarskattinn. En það bíður síns tíma og þegar við erum komin út úr þeim vandræðum sem fyrri ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir höfðu skapað okkar þjóðfélagi má vera að það takist að lenda á þann veg að matarskatturinn verði felldur niður. Eitt tel ég nokkurn veginn alveg víst að núverandi ríkisstjórn mun ekki fara af stað með virðisaukaskatt nema í tveimur þrepum.
    Það má lengi halda áfram að ræða um þessa hluti, viðskilnað fyrri ríkisstjórna og stöðuna í dag, en það er kannski ekki alveg rétt að fara beinlínis út í það. En þó að fyrrv. ríkisstjórn talaði um það að það þyrfti

að hreinsa til og það mætti ekki vera mikið af undanþágum frá söluskatti, þá er þetta enn ótrúlega mikið og ótrúlega miklar undanþágur. Þess vegna er frv. sem hér er til umræðu, frv. um það að undanþiggja garðyrkjuáhöld ýmiss konar söluskatti vitaskuld réttlætismál. Og vonandi fær það góða leið hér í gegnum þingið, fyrst hér í gegnum hv. deild, síðan í gegnum Nd. og verður að lögum áður en þingið fer heim í vor.