Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti, aðeins örfá orð. Það má segja, eins og komið hefur fram hér, að þetta litla að því er virðist saklausa frv. um garðyrkjumál sé orðið að þessari litlu þúfu sem velti þunga hlassinu, en auðvitað er það í samhengi við skattlagningu almennt. Þess vegna hefur þessi umræða vaknað og hún hefur vaknað ekki síst vegna þess að það eru margir sem hafa miklar áhyggjur af því og sumir a.m.k. hafa ekki vonda samvisku og samþykktu ekki matarskattinn á sínum tíma og vilja gjarnan breyta. Og ég verð að segja það að mér finnst það heldur aumingjaleg afsökun fyrir því að leggja hann ekki niður að það þurfi að fjölga starfsmönnum á skattstofunni eða í fjmrn. til þess arna. Ég held ekki að þessir starfsmenn, þessir embættismenn sem ég hygg að séu margir hverjir háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn, séu svo hátt launaðir að það verði nein byrði fyrir ríkissjóð miðað við það hver ávinningur það er fyrir launþega að vera án þessa skatts. Ég held að það sé til þess vinnandi. Hins vegar þekki ég röksemdafærsluna í því máli, nefnilega að starfsfólki ríkisskattstjóra var íþyngt með breytingum sem voru keyrðar yfir þá starfsmenn eins og þjóðina á allt of stuttum tíma með allt of litlum undirbúningi. Það kann að vera að það þurfi þess vegna að verða einhver frestur á þannig að hægt sé að ná höndum utan um málið og vinna almennilega að því þannig að úr því verði ekki einhver óskapnaður sem enginn fær ráðið við. Ég get fallist á það og skilið það, en þó að þurfi að fjölga um nokkra starfsmenn finnst mér það vera heldur aumingjaleg rök, ég verð nú að segja eins og er, og ég vil fá að heyra eitthvað metnaðarfyllra frá þessum fjmrh. en að hann ætli kannski að dúlla sér við þetta í haust. Hvað sagði ekki hæstv. ráðherra hér á dögunum? Ekki man ég það svo að ég geti vitnað í það orðrétt sem hann sagði um þáv. fjmrh. en hann átti víst ekki að geta sýnt þjóðinni andlit sitt vegna þess glæps sem hann hafði drýgt að draga þennan skatt yfir þjóðina. Ég vil fá að heyra eitthvað metnaðarfyllra frá hæstv. ráðherra og ég veit að það þarf að ná meira fé í ríkissjóð eins og hv. 9. þm. Reykn. sagði. Það þarf fé til þess að reka skólakerfið eins og hæstv. núv. forseti deildarinnar sagði. Auðvitað þarf fé til að reka skólakerfið. Ég hef sjálf ásamt Danfríði Skarphéðinsdóttur borið inn metnaðarfullar tillögur um grunnskólann eða frv. sem eru dýr. Ég geri mér grein fyrir því. Það skiptir hins vegar meginmáli hvernig maður skattleggur og hverja maður skattleggur, hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson. Það skiptir meginmáli og ég þarf ekkert að segja þessum ráðherra stjórnar félagshyggju og jafnréttis neitt um það. Hann hlýtur að vita það og ef hann ekki veit það á hann ekkert að sitja þar sem hann situr.