Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Herra forseti. Með frv. því sem hér liggur fyrir óskar ríkisstjórnin heimildar hins háa Alþingis til staðfestingar tveggja norrænna samninga. Annars vegar er um að ræða samning um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda í Kaupmannahöfn og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs í Stokkhólmi sem undirritaður var í Osló 13. maí 1987.
    Með þessum samningi er skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs veitt sjálfstæð réttaraðild með sömu lögaðild og aðrir lögaðilar. Í samningnum er einnig kveðið nánar á um friðhelgi og sérréttindi skrifstofanna. Réttarstaða starfsliðs skrifstofanna er einnig skilgreind.
    Við gildistöku þessa samnings falla úr gildi lög nr. 92/1973, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda samning milli Norðurlanda um skrifstofur ráðherranefndar Norðurlanda og réttarstöðu þeirra, ásamt viðbótarbókun um skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og réttarstöðu hennar. Hins vegar er um að ræða samning milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um réttarstöðu norrænna stofnana og starfsfólks þeirra sem undirritaður var í Stokkhólmi 9. des. 1988.
    Samningurinn nær til 43 norrænna stofnana, þar af eru tvær staðsettar á Íslandi, þ.e. Norræna húsið og Norræna eldfjallastöðin. Markmið samningsins er að setja samning um réttarstöðu þessara stofnana og laun og starfsskilyrði starfsfólks þeirra. Sérhverri norrænni stofnun sem norræna ráðherranefndin hefur komið á fót er veitt sjálfstæð réttaraðild með sömu lögaðild og aðrir lögaðilar í landinu þar sem hún hefur aðsetur. Í samningnum er auk þess fjallað um ráðningu, starfstíma, leyfi fastra útistarfsmanna frá störfum og lífeyrisréttindi starfsfólks norrænna stofnana. Nánar verður kveðið á um launa- og starfsskilyrði starfsfólks í erindisbréfi og starfsreglum sem norræna réttarnefndin eða sá sem hún tilnefnir ákveður.
    Þessi samningur leysir af hólmi Norðurlandasamning um réttarstöðu starfsfólks við norrænar stofnanir sem undirritaður var í Reykjavík 31. jan. 1977.
    Herra forseti. Ég legg til að loknum umræðum að þessu frv. verði vísað til allshn.