Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Mér þykir hlýða að segja örfá orð í sambandi við þetta mál, frv. til l. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, ekki af því að ég ætli að ræða það efnislega, enda er það óþarfi af minni hálfu. Þetta hefur verið eitt af baráttumálum sveitarfélaga í áratugi og það vill svo einkennilega til að ég hef tengst þessum umræðum og meðferð málsins á vegum sveitarfélaga allt frá árinu 1966. Ég fór að rifja upp fyrir stuttu að það ár byrjuðu afskipti mín af þessu máli, enda verið í nærfellt öllum þeim nefndum sem skipaðar hafa verið til að fjalla um verkaskiptamál ríkis og sveitarfélaga alveg frá fyrstu tíð. Það vill einnig þannig til að ég var í nefndum sem sömdu lögin um tekjustofna sveitarfélaga 1972 og aftur 1980 þannig að ég þekki baráttuna í kringum þetta mál. Það hefur verið mín meining frá fyrstu tíð og í gegnum þá reynslu sem ég hef öðlast um áratugina að breyta þyrfti þessum málum þannig að þessi skipting milli ríkis og sveitarfélaga að því er varðar fjármögnun og verkefni væri skýr og einföld, en eigi að síður hefur reynslan orðið sú að það hefur ekki tekist eins vel og menn vonuðu á þessum áratugum að koma þessu máli í höfn þrátt fyrir að það má ekki vanmeta að mörgum stórum og góðum áföngum hefur verið náð til að reyna að skýra þessi mál á undanförnum árum.
    Allir vita hvernig hefur gengið til síðari árin og öllum hv. þm. er það kunnugt. Það var gerð tilraun til að koma hluta af þessu máli í höfn á síðasta þingi, en það mistókst af þeirri eðlilegu ástæðu að það var slitið úr tengslum við aðalmálið þannig að það var eðlilegt að kasta því í bréfakörfuna og byrja upp á nýtt með þeim heildarverkatilflutningi sem er lagður til í þessu frv. Ég þarf ekki að rekja það, það byggir fyrst og fremst á nál. um samstarf ríkis og sveitarfélaga sem kom í apríl 1987 frá þeirri ríkisstjórn sem ég átti sæti í sem félmrh. og var sent öllum sveitarstjórnarmönnum landsins og ýmsum aðilum, öllum þingmönnum og öðrum sem höfðu áhuga á að kynna sér þessi mál. Þar voru lagðar fram tillögur bæði í sambandi við verkatilflutning og eins tekjustofna sem frv. sem hér liggur fyrir byggir á í öllum aðalatriðum.
    Ég vil segja fyrir hönd Framsfl. að þingflokkurinn samþykkti frv. á sínum tíma og leggur áherslu á að það verði örugglega afgreitt sem lög á þessu þingi. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að taka undir gagnrýni sem hér hefur komið fram um að það er ákaflega óeðlilegt og óheppilegt í meðferð málsins að leggja þetta stóra og fyrirferðarmikla mál fram í Ed. Án þess að draga í efa hæfni hv. þm. í Ed. var það ákaflega óheppilegt að láta *y1/3*y af þingmönnum Alþingis hafa svona stór og viðamikil mál allan þingtímann, en síðan á þingdeildin þar sem eiga sæti *y2/3*y hlutar þingmanna að afgreiða slíkt mál á einni viku. Þetta var óheppilegt. Hins vegar má það ekki verða til þess að tefja þetta mál eða gera tilraun til að breyta því frá því sem Ed. gekk frá því því það væri sama og gera tilraun til að koma í veg fyrir að málið fái lokaafgreiðslu á þessu þingi. Þess vegna

vara ég mjög við því, þó að menn geti rökstutt ýmis atriði sem hefði verið kannski æskilegt að gera öðruvísi en frv. með breytingum í hv. Ed. gerir ráð fyrir, að þingmenn ætlist til þess að verði hægt að gera breytingar á þessum mikla lagabálki og raunar tekjustofnalögunum einnig á þeim örfáu dögum sem við eigum eftir að vera að þingstörfum. Ég vil segja þetta í upphafi til þess að láta koma fram hver okkar afstaða er og við munum reyna að tryggja að þetta mál verði afgreitt sem lög á þessu þingi. Annað má ekki koma fyrir. Það er búið að ræða þessi mál svo mikið á undanförnum árum og ekki síst á 2--3 síðustu mánuðum að við megum ekki láta okkur henda það að þrátt fyrir ýmis ákvæði sem mætti rökstyðja að væri hægt að gera á annan hátt sé komið í veg fyrir að þetta þing afgreiði þetta mál.
    Ég skil vel afstöðu margra sveitarfélaga sem komu að máli við þingmenn og sendu okkur ályktanir o.s.frv. og hafa vissan kvíða fyrir framvindu málsins. Þar á ég sérstaklega við sveitarfélög í dreifbýli sem eðlilega kvíða fyrir því að þau ákvæði sem eru í tekjustofnafrv. tryggi ekki nægjanlega að þær sveitarstjórnir lendi ekki í vandræðum í sambandi við rekstur á skóla og ekki síst við byggingu skólamannvirkja o.s.frv. og að aðstaða þeirra sem er miklu verri en í þéttbýlinu verði, ekki síst til lögbundinna verkefna, ekki að fullu bætt í gegnum Jöfnunarsjóð. Þetta verður löggjafinn að tryggja með því að ef það kemur í ljós að þau ákvæði sem eru í þessum báðum frumvörpum nægja ekki til þess að veita þessa tryggingu verður að bregðast við því hratt og eðlilega á næsta þingi sem verður eftir að slík umræða kæmi fram sem ég sé ekki enn að þurfi að óttast en vissulega getur þetta alltaf komið upp.
    En það sem ég tel að sé mestur vandinn í meðferð þessa máls, sem er náttúrlega ærinn því eftir að þessi lög eru samþykkt er framkvæmdin aðalatriðið, og uppgjörsmálin. Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Austurl. að auðvitað eru þær upphæðir sem eru lagðar til grundvallar sem fskj. með frv. kannski ekki alveg 100%. Það væri til mikils ætlast ef svo væri. En alla vega eru þarna, tel ég, viss atriði sem löggjafinn þarf að vera á verði um að verði ekki til þess að hlunnfara sveitarfélögin, ekki síst þau sem minna mega sín vegna þess að það er komið í ljós í meðferð fjárlagaafgreiðslu að sveitarfélög
telja sig í mörgum tilfellum eiga jafnvel meira inni hjá ríkissjóði t.d. í sambandi við uppgjör á skólamannvirkjum og ýmsum sameiginlegum verkefnum en viðkomandi ráðuneyti telja. Þetta á ekki hvað síst við í sambandi við menntmrn. Þetta er mjög viðkvæmur þáttur í þessu verkaskiptamáli sem þarf að fylgjast gaumgæfilega með og vera á verði um að þarna sé ekki verið að fremja óréttlæti því að auðvitað ætlumst við til þess að með þessari breytingu sé öryggi allra sveitarfélaga tryggt í sambandi við ákvæðin um Jöfnunarsjóðinn. Þessu verður virkilega að fylgjast vel með og ég tel alveg sjálfsagt að við fáum í hendur drög að reglugerð um framkvæmd þeirra mála og ekki síst þennan þátt sem mest hefur

verið deilt um og sveitarstjórnir víða í landinu kvíða mest fyrir í framkvæmd.
    Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara út í efnislega umræðu um þetta, en það verður sjálfsagt tækifæri til að ræða þetta vel í félmn. Nd. sem þarf að hraða þessu máli í gegn. Ég hef samúð með tónlistarmönnum, en ég held samt að áhyggjur þeirra séu óþarfar ef --- ég segi ef --- framkvæmd þessa ákvæðis sem er í verkaskiptafrv. verður fylgt eftir með eðlilegum hætti. Það er ekkert vafaatriði, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv., að víða um landið hafa menn rekið tónlistarskóla og reka tónlistarskóla og reyna að nýta það fjármagn sem er fólgið í grunnskólalögunum til reksturs slíkra skóla. Þar af leiðandi kemur í opinberri umsýslu ekki fram kannski hið rétta í sambandi við hvernig þetta er miðað við gildandi lög því menn reyna að nota sér grunnskólalögin til að reka tónlistarskóla. Það eru víða dæmi um þetta. En ég held samt sem áður að það verði að treysta sveitarfélögunum, sem um áraraðir hafa verið að berjast fyrir þessu máli, og samtökum þeirra til þess að standa þannig að málum að vera fullfær um að taka við þeim rekstri sem hér er lagt til í sambandi við frv. Komi hins vegar í ljós að svo verði ekki eru tónlistarfræðslan og tónlistarskólarnir svo mikilvægur hlekkur í menningu okkar þjóðar að við hljótum að snúast til varnar fyrir þann málaflokk ef annað kemur í ljós í sambandi við þá tillögu sem hér er verið að gera. Ég vek athygli á því að samkvæmt núgildandi lögum hefur alls ekki verið þannig haldið á þessu máli að það væri beinlínis hægt að hrópa húrra fyrir framvindu tónlistarfræðslunnar í landinu almennt þó að þar hafi verið ágætt starf unnið.
    En ég legg aðaláherslu á það í þessum fáu orðum mínum að ég held að við getum ekki séð aðra leið færa, þrátt fyrir þann ágalla í meðferð þingsins að láta *y2/3*y þingmanna ekki fá þetta mál nema í örfáa daga, en hlutast þannig til um þessi mál í sameiningu að þetta verði afgreitt án þess að gera á því miklar breytingar því að breytingar héðan af á þessu þingi eru óraunhæfar að því leyti til að þá er málinu stefnt í beina hættu og það má ekki ske. Við björguðum því fyrir horn í fyrra með því að taka ekki hluta af því sem hafði í raun og veru enga fótfestu, en nú erum við með allt málið eða aðalþætti þessara samskiptamála og þess vegna tel ég lífsnauðsyn fyrir sveitarfélögin í heild að það verði afgreitt sem lög á þessu þingi því það mun auka sjálfstæði sveitarfélaga, fjárhagslegt öryggi þeirra og byggðarlaganna um leið ef rétt er á haldið og því verður að fylgjast með að svo verði gert.