Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Eins og glögglega hefur komið fram í þessum umræðum og raunar í greinargerð með frv. á þetta mál sér langan aðdraganda. Þetta hefur verið flókið mál og býsna erfitt viðskiptis eins og þessi langi aðdragandi sýnir. Ég held að það sé óhætt að taka undir það með síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Suðurl., að þaulreyndir sveitarstjórnarmenn hafa lagt í það mikla vinnu og alúð að ná saman um það málefni sem hér er nú á dagskrá. Það hefur að sjálfsögðu ekki verið vandalaust verk vegna þess hve staða sveitarfélaganna er misjöfn í landinu og þá um leið hagsmunir þeirra.
    Ég ætla ekki að ræða þetta mál mikið efnislega, en þó segja almennt um það að ég tek undir það, sem hefur komið fram í þessum umræðum, að þetta mál á orðið svo langan undirbúningstíma að það væri ákjósanlegt að fá það afgreitt á þessu þingi. Ég sé ekki betur en eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. í hv. Ed. sé það í því horfi að um það ætti að geta tekist sæmileg samstaða.
    Auðvitað er það svo með mál af þessu tagi að þar er alltaf eitthvað sem einstökum þingmönnum og einstökum sveitarstjórnarmönnum sýnist að mætti betur fara og verður svo lengi, en það er þó ekki hægt að segja slíkt án þess að leggja á það áherslu að hvað sem lagasetningu líður er það þó framkvæmdin sem ekki minnstu máli skiptir og svo er um ýmsa þætti þessa máls.
    Með tilliti til þessara orða minna ætla ég ekki að teygja tímann með því að telja upp hvað mér hefði þótt betur fara um þennan eða hinn þátt málsins, hvort þessi atriði eða hin ættu frekar að vera í höndum ríkis eða sveitarfélaga eða hjá þessum aðilum sameiginlega, en aðeins ítreka það, sem ég hef sagt, að ég held að þetta mál sé búið að vefjast það lengi fyrir að það væri ákjósanlegt að ná því fram.
    Mig langaði aðeins að víkja örlítið að einum til tveimur þáttum málsins, en það er í sambandi við frv. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þ.e. um XIV. kafla frv., um kostnaðaruppgjör milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Ég vil taka fram að ég hefði vitaskuld kosið að þessi þýðingarmikli kafli frv. væri skýrari og þar væri fastar að orði komist en hér kemur fram. Það kemur fram að ríkissjóður skuli greiða sveitarfélögum og félagasamtökum framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs við byggingu þeirra mannvirkja sem nú færast yfir til sveitarfélaganna, þ.e. mannvirkja eins og grunnskóla, íþróttamannvirkja, félagsheimila, vatnsveitna o.s.frv. miðað við stöðu framkvæmda í árslok 1989. Skal þó þátttaka ríkissjóðs í framkvæmdum sem unnar eru á árinu 1989 ekki fara fram úr því sem nemur framlögum þeirra á fjárlögum þessa árs. Þetta uppgjör ríkisins á að fara fram á árunum 1990--1993.
    Ýmislegt er auðvitað óljóst miðað við þessa grein, 74. gr., um þetta uppgjör. Það er til að mynda óljóst hvernig þetta uppgjör á að taka til framkvæmda sem unnar hafa verið, þ.e. bygginga sem reistar hafa verið og fé hefur ekki verið veitt til á fjárlögum, en vel

stæð sveitarfélög hafa eigi að síður reist byggingar í krafti sinnar aðstöðu og að sjálfsögðu vegna þess að þeirra hefur oftast verið full þörf. Ég vek á því athygli að fyrir mér a.m.k. er nokkuð óljóst hvort gera á upp af hálfu ríkissjóðs meinta skuld ríkisins í slíkum mannvirkjum. Enn fremur kemur ekki fram hvort í öllum þessum framkvæmdaþáttum á að gilda verðtrygging á meintum skuldum ríkissjóðs eða ekki. Væri kannski ástæða til vegna þess hve hér er um þýðingarmikið atriði að ræða í slíku uppgjöri að það væri tekið fram í lögunum sjálfum. Það er svo að sumar greiðslur vegna mannvirkja eru samkvæmt gildandi reglum verðtryggðar en aðrar ekki og ég fæ ekki betur séð en að þegar sett eru almenn lög eins og þessi um nýja verkaskiptingu og uppgjör vegna meintra skulda ríkissjóðs í framkvæmdum væri eðlilegt að sama regla gilti um uppgjör vegna allra þátta, þ.e. að um verðtryggingu væri að ræða. Þetta sýnist mér hins vegar óljóst miðað við það hvernig frv. lítur út eftir afgreiðslu hv. Ed.
    Ég held að það séu ekki nein tvímæli á því að það er rétt einnig, sem fram kom í máli hv. 1. þm. Vesturl., að í sumum greinum greinir sveitarfélögin og ríkið á um hvað skuld ríkisins sé mikil og þau mál þarf vitaskuld að leysa. Hér er gert ráð fyrir nefnd sem hefur það verkefni að fjalla um ágreiningsefni sem varða þessi uppgjörsmál og er það vitaskuld vel.
    Mér sýnist að það skipti sem sagt mjög miklu hvernig á þessum lagaákvæðum er haldið í framkvæmd og hvernig reglugerð verður varðandi þennan kafla sem sett verður. Bæði skiptir það miklu fyrir sveitarfélögin og einnig fyrir ríkissjóð sem þarna á greiðslur að inna af hendi.
    Í fylgifrumvarpi um tekjustofna sveitarfélaga er gert ráð fyrir verulegum breytingum, þar á meðal miklum breytingum á ákvæðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég sé ástæðu til að fagna þeim breytingum og bera enn lof á fulltrúa sveitarfélaganna fyrir það að um þessar breytingar virðist hafa náðst samkomulag og vera nokkur friður. Ég vek hins vegar á því athygli að þessi þáttur málsins er ekkert síður mikilvægur af ýmsum orsökum. Í fyrsta lagi vegna þess að sveitarfélögin, einkanlega hin smærri þeirra, eru afar
misjafnlega á vegi stödd með fjárfestingu í þeim framkvæmdum sem hafa verið kostaðar sameiginlega af ríki og sveitarfélögum en færast nú algjörlega yfir til sveitarfélaga. Sum minni þéttbýlissveitarfélög eru jafnvel þannig í stakk búin að þar eru ekki til dagvistarheimili eða leikskóli og slíkar framkvæmdir standa e.t.v. fyrir dyrum. Miðað við þá stöðu er ljóst að þau þurfa áfram að njóta sérstakrar aðstoðar til að koma slíkum þáttum áfram og getur það gerst samkvæmt þeim ákvæðum sem hér er ráðgert að lögfesta varðandi Jöfnunarsjóðinn. Á þessu er mikil þörf því að ef allt í einu væri skorið á slíka samfélagslega aðstoð liggur ljóst fyrir að sum sveitarfélög væru þar með beitt ranglæti sem vonandi tekst að koma í veg fyrir með þeim ákvæðum sem er að finna í tekjustofnafrumvarpinu.
    Enn fremur, eins og fram kom í ágætri ræðu hv.

3. þm. Suðurl., er rekstrarstaða og fjárhagsleg staða almennt séð sveitarfélaganna afar misjöfn og þar á meðal ýmissa hinna smærri, t.d. strjálbýlissveitarfélaga, og miðað við núgildandi kerfi í þessum málum er það svo að sum strjálbýlissveitarfélög verja jafnvel upp undir 90% af tekjum sínum til skólareksturs og er þá lítið eftir til annarra hluta. Við það að grunnskóli, bæði fjárfesting og rekstur að mestu leyti, þ.e. allt annað en laun starfsmanna, færist yfir til sveitarfélaganna mætti ætla að hlutur þeirra sveitarfélaga þyngdist ákaflega mikið sem svo eru í stakk búin fyrir og nauðsynlegt að hafa gát á því að þeirra hlutur sé ekki skilinn eftir þannig að þau fái aðstoð til að rísa undir þessum nýju skyldum sínum.
    Ég held að það sé einnig varðandi fjárfestingarliðina í þessu frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga afskaplega glöggt hvað getur komið út fyrir einstök sveitarfélög er fara t.a.m. allt í einu í óhjákvæmilegar framkvæmdir við nýja vatnsveitu og nú falla niður styrkir hins opinbera sem hafa verið á vegum félmrn., 50% styrkur til þeirra framkvæmda. Ef ekki væri um sérstaka aðstoð á vegum Jöfnunarsjóðsins til slíkra verka að ræða má búast við að slíkar framkvæmdir yrðu einstökum sveitarfélögum beinlínis ofviða vegna þess að vatnsveituframkvæmdir í litlu sveitarfélagi geta verið mjög dýrar, jafnvel svo að þar sé um að ræða meiri kostnað en sem nemur öllum tekjum sveitarfélagsins í eitt til tvö ár. Það er óhjákvæmilegt að þessa sé gætt.
    En þó að bæði uppgjörskaflinn og eins sá kafli tekjustofnafrumvarpsins sem fjallar um hvernig hagsmunum hinna smærri sveitarfélaga verði mætt séu ekki ákaflega skýrir verður að treysta því að á málum verði þann veg haldið að það fari svo í raun að sveitarfélögin standi ekki lakar eftir en áður eins og segir í 16. gr. tekjustofnafrumvarpins sem hv. þm. Eggert Haukdal hefur vitnað til á undan mér.
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu, vildi aðeins láta örfá orð falla varðandi uppgjörskafla þessa frumvarps og þá misjöfnu stöðu sem við blasir hjá sveitarfélögunum, einkanlega hinum smærri, að þessu frumvarpi lögfestu og lýsa því yfir að ég tel rétt að lögfesta þessi frumvörp í trausti þess að framkvæmdin megi takast svo að hin litlu sveitarfélög, bæði hin minnstu og eins þau sem eru fyrir neðan meðalstærð, verði ekki lakar sett en áður. Þó að það taki sig ekki beint út í lagatexta hvernig því verði náð verður að ætla að framkvæmd laganna hljóti að taka mið af þessu markmiði.