Endurbætur forsetasetursins á Bessastöðum
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Þann 15. mars sl. fór fjvn. að Bessastöðum í þeim tilgangi að skoða ástand húsa staðarins. Og ég held að það sé ekki of mælt að við urðum öll undrun slegin að sjá hversu illa þessi hús eru komin og augljóst að nú verður að hafa hraðar hendur til að koma í veg fyrir frekari hrörnun og hefjast handa um endurbætur.
    Við Íslendingar eigum ekki margar gamlar byggingar og ef notaður væri mælikvarði þeirra þjóða þar sem byggingarlist hefur staðið með blóma um aldir, þá eigum við engar. Við þróuðum að vísu sérstaka byggingarlist miðaða við innlend aðföng og aðstæður, en þau efni voru forgengileg svo sem allir vita og þau fáu hús sem við eigum frá fyrri tíð ættum við að kappkosta að varðveita. Við getum ekki leyft okkur þann kotungshugsunarhátt að telja að þjóðin hafi ekki efni á því og ég neita því ekki að endurbygging Bessastaðastofu er kostnaðarsöm, a.m.k. eins og hún liggur fyrir í þeirri skýrslu sem fylgir frv., en það er nú kannski álitamál hvort þær tölur standast allar. En hins er líka að geta að tölur hafa tilhneigingu til að hækka í meðförum hjá okkur svona yfirleitt.
    Þó að endurbygging Bessastaðastofu kunni að verða dýr og kostnaðarsöm, þá verðum við að hafa þann metnað að sjá til þess að aðsetur æðsta embættismanns þjóðarinnar sé með þeirri reisn sem hæfir. Og núverandi ástand Bessastaða er langt frá því að vera við hæfi. Á þessu höfuðsetri íslensku þjóðarinnar verður allt að vera með þeim hætti, allur húsakostur, umgengni og skipulag, að það sé landi og þjóð til sóma svo lengi sem æðsti maður þjóðarinnar situr þar.
    Saga Bessastaða, þar sem um langt skeið var ein af menntastofnunum þjóðarinnar, gefur einnig fullkomlega tilefni til þess að þar sé hlúð að minjum og haldið uppi reisn staðarins.
    Sú áætlun um uppbyggingu sem hér liggur fyrir kann að vaxa mönnum í augum vegna kostnaðar og því hefur verið talið rétt að fara þá leið að fjallað yrði um hana á Alþingi og þar en ekki annars staðar yrði ákvarðað hvernig að þessari uppbyggingu yrði staðið. Það er skoðun mín að þannig eigi að standa að þessu máli en ekki gefa framkvæmdarvaldinu sjálfdæmi og ekki að standa þannig að að veita aukafjárveitingar í þetta verk, á þann veg sem hefur nú mjög verið gagnrýnt í seinni tíð. En eins og ég sagði áðan, þá er ástand húsa á Bessastöðum nú með þeim hætti að það verður að bregðast við ef á að afstýra frekari skemmdum en orðnar eru og að eyðileggist þá í leiðinni kostnaðarsamar viðgerðir sem unnar hafa verið.
    Ég tel bæði rétt og nauðsynlegt að uppbygging og viðhald fasteignarinnar á Bessastöðum sé aðskilin frá fjárhag skrifstofu forseta Íslands. Þær nauðsynlegu og kostnaðarsömu framkvæmdir sem verða þar á næstu árum ef af samþykkt þessara laga verður, og trúlega hvort sem er, það er óeðlilegt að þær séu tengdar daglegum rekstri embættisins. Það verður einnig að

teljast mikilvægt að gerð sé heildaráætlun um hvernig nýta skuli Bessastaðajörðina í framtíðinni og hvaða mannvirkjum skuli ætlaður staður þar og hvaða starfsemi. Þar getur margt komið til greina svo sem rannsóknaraðstaða fyrir fræðimenn og þá er höfð í huga nýting á bókasafni Bessastaða í leiðinni.
    Það er skoðun mín að með því að setja lög um endurbætur og uppbyggingu á Bessastöðum vinnist fyrst og fremst tvennt: Í fyrsta lagi það að gengið verði að þessu verki með skipulegum hætti, árlega lagt fé til framkvæmda og viðhalds og í öðru lagi það að friður verði um þetta mál og það unnið eftir áætlun. Mér virðist að frv. taki til þeirra þátta sem huga þarf að og það væri unnið gott verk ef takast mætti að afgreiða það á þessu þingi.