Endurbætur forsetasetursins á Bessastöðum
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur frammi, um endurbætur og framtíðaruppbyggingu forsetasetursins á Bessastöðum, er að sjálfsögðu gott mál á sinn hátt. En það er ýmislegt sem verður að staldra við í þessu máli. Það er í fyrsta lagi svo að ég tel að það ætti ekki að veita fé til þessara framkvæmda fyrr en þá með fjárlögum fyrir árið 1990 því að það má nú sjá þegar að fjárlög fyrir árið 1989 eru brennd því marki að þar ná endar tæpast saman og ekki á það bætandi að enn einn liðurinn verði settur í gang sem sér ekki fyrir. Í öðru lagi er það mikilsvert að slíkar framkvæmdir verði boðnar út ef til kæmi. Ég held að það væri ekki fjarri lagi að það mætti gera með álíka hætti og hér er lýst í framkvæmdaáætlun að öðru leyti en því að ég tel að ekki ætti að byrja á þeirri framkvæmdaáætlun fyrr en árið 1990, ef þingið samþykkir.
    Ég vil vekja athygli á því að þarna eru e.t.v. framkvæmdir fyrir 250--300 millj. Hér í þinginu hefur verið rætt um að kaupa Hótel Borg fyrir aðrar litlar 300 millj. og endurbætur með því. Þetta eru auðvitað miklir peningar, þetta er mikið fé. Ég held að fólkið í landinu vilji gjarnan að það sé aðeins staldrað við áður en lagt verður út í hverja framkvæmdina á fætur annarri. Við erum hér með ókláruð verkefni eins og Þjóðarbókhlöðu. Við erum með ýmis önnur verkefni sem ekki hefur verið lokið við og ég tel að það ætti að fara mjög hægt í þessar framkvæmdir. Það er ljóst að við verðum að huga að forsetaembættinu og því setri sem þar er. En þessi áætlun, sem hér liggur fyrir, er þó gríðarmikil og þar er verið að taka ákvörðun um nýbyggingar og miklu víðfeðmari uppbyggingu heldur en áður hefur verið talið nauðsynlegt, auk þess að endurbyggja gömlu húsin. Því tel ég að það verði að fara varlega í þetta og skoða mjög náið hvort þörf sé á að fara fyrst og fremst svona hratt í þessar framkvæmdir, í öðru lagi hvort endilega þarf að fara í þessar nýframkvæmdir sem hér eru boðaðar. Ég vil benda á að það má vel vera að við þurfum að búa vel að forsetaembættinu, en hitt er að þessi hús hafa þjónað okkur býsna vel lengi og þrátt fyrir það að bæta megi viðhald á þeim, þá sé það minna mál en fara að hefja nýbyggingar á miklum byggingum þarna, sem er alveg ljóst að á að fara út í, og að fara að gera það með þessum hætti.
    Það að fara að leggja út í enn einar miklar framkvæmdir vildi ég nú staldra við eins og við sögðum hér áðan. Ég held að við ættum að huga að því að við séum ekki að setja hér af stað hvert verkefnið á fætur öðru án þess að það séu fjármunir til fyrir því. Ég vil bara spyrja að því hvort leggja eigi á nýjan skatt, kannski sérstakan eignarskatt í viðbót við þann sem er fyrir til þess að ljúka þessum framkvæmdum. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. forsrh. ætlar að leggja á sérstakan skatt eða hvort hann ætlar að taka það af einhverjum öðrum framkvæmdum. Ég held að það sé full ástæða til þess að við spyrjum okkur þeirrar spurningar, þegar verið er að fara út í dýrar og miklar framkvæmdir við þetta

eins og annað, hvort við höfum í rauninni ráð á því að leggja út í slíkar framkvæmdir.
    Með það að leiðarljósi að fjárlög og eyðsla ríkissjóðs hafa vaxið gífurlega á undanförnum árum, þá verður að staldra við. Og jafnvel þó að um sé að ræða forsetaembættið og Bessastaði, þá verðum við líka að staldra við þar. Það er kominn tími til að þingmenn geri sér grein fyrir því að það er komið að mörkum þess sem fólkið í landinu þolir og þetta verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að auka skattana. En ef menn hafa það í huga að skera niður eitthvert annað verkefni þá vildi ég gjarnan fá að heyra það.