Endurbætur forsetasetursins á Bessastöðum
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég tel ástæðu til að lýsa yfir sérstökum áhuga fyrir því að þetta mál fái framgang á þessu þingi. Það er búið að vera undanfarin ár mjög leiðigjarnt hvað það hefur lent í undandrætti að gera nauðsynlegar aðgerðir á byggingum að Bessastöðum og það kemur kannski til af því að þessu hefur verið blandað saman og er miðað við núverandi aðstæður blandað saman við embættisrekstur forseta Íslands, sem er óeðlilegt því að þarna er um að ræða hús sem allir viðurkenna að eiga mikla sögu og sjálfsagt fáir Íslendingar sem eru þess sinnis að það eigi að hætta við þá uppbyggingu sem þarna þarf að fara fram. Þess vegna finnst mér eðlilegt að aðskilja uppbyggingu Bessastaðabústaðar frá rekstri á embætti forseta Íslands. Því á alls ekki að blanda saman í fjárfestingum.
    Ég tel, miðað við það sem hefur komið fram í meðferð fjvn. á undanförnum árum og allt til þessa dags, að það hafi þurft að taka endanlega ákvörðun um það hver stefnan ætti að vera í uppbyggingu staðarins. Og ég tel að miðað við það sem kom fram í ferð fjvn. til Bessastaða núna í síðasta mánuði hafi fjárveitinganefndarmenn áttað sig á því að það verður ekki undan því vikist að taka ákvörðun um það hér á hv. Alþingi hvernig með málið verður farið því að það er greinilegt að hér er ekki um neinar smáaðgerðir að ræða. Það liggur alveg fyrir. Við sáum það með eigin augum hvernig ástand þessa húsnæðis sem á að hýsa æðsta embætti þjóðarinnar er í raun og veru þegar farið er að skoða það. Það er hörmulegt. Það er í raun og veru vansi fyrir þjóðina að horfa á það að æðstu þjóðhöfðingjar heimsins, fyrir utan alla aðra virðulega gesti sem þarna koma, þurfi að bera augun á ástand þessara mannvirkja. Það er alls ekki verjandi, það er til vansa fyrir þjóðina.
    Þess vegna finnst mér einmitt þetta frv. sem hér liggur fyrir tímabært og tel það skyldu Alþingis að afgreiða það á þann veg að þarna verði tekin ákvörðun um að hefjast handa sem ekki verði látin drabbast niður í meðferðinni á næstu árum. Það verður að gera það þannig að sú fjárhagsáætlun, sem gerð verður fyrir verkið í heild, verði marktakandi og Alþingi um leið tilbúið að fjármagna það á eðlilegan máta.