Umhverfismál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Umhverfismálin eiga langa sögu. Viðleitni til að skipa þeim í ákveðinn farveg hefur í raun staðið allan þennan áratug. Ég held að langflestar ríkisstjórnir ef ekki allar hafi ætlað sér að koma þeim málum þannig fyrir að sómi sé sýndur. Fjölmargar nefndir hafa starfað, fjölmörg frumvörp hafa verið samin og tillögur gerðar, drög hafa verið gerð á vegum ríkisstjórna að þáltill. þar sem stefnu hefur átt að marka að þessum málum og þannig mætti lengi telja. Frumvörp hafa verið lögð fram hér á hinu háa Alþingi, bæði af stjórnarliðum og sömuleiðis af stjórnarandstöðu, en hafa ekki náð fram að ganga.
    Ég lít svo á að þetta sé alls ekki merki um áhugaleysi af hálfu alþm. heldur er þetta fyrst og fremst merki um það að þarna er um að ræða viðkvæm mál sem koma við næstum því alla þætti í þjóðlífinu. Hitt er svo staðreynd að með hverju ári hefur orðið mikilvægara að skipa þessum málum þannig að viðunandi sé. Þessi ríkisstjórn ákvað því og setti í sinn stjórnarsáttmála eins og þar segir, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin mun fela einu ráðuneyti að samræma starfsemi hins opinbera að umhverfismálum og komi það til framkvæmda innan árs.`` Jafnframt eru í stjórnarsáttmála talin upp ýmis verkefni sem nauðsynlegt er talið að falli undir slíkt ráðuneyti eða samræmda stjórn þessara mála.
    Það kom í hlut minn sem forsrh. að vinna að framkvæmd þessarar samþykktar stjórnarflokkanna og ákvað ég að gera það með því að setja menn í að skoða öll þau frv. eða a.m.k. sem flest þeirra frumvarpa sem hafa verið samin og þær greinargerðir sem hafa verið samdar, þingsályktunartillögur og það sem flutt hefur verið hér á Alþingi, og ég leitaði ásamt þeim mönnum leiða til þess að rata meðalveginn sem vissulega er oft erfitt, en ég hygg að sé þó hvað erfiðast í þessu mjög viðkvæma máli af mörgum sem ég hef fengist við.
    Þetta frv. sem hér liggur fyrir er niðurstaða af þessari vinnu, samkomulagsmál meðal stjórnarflokkanna og þó vil ég leggja á það ríka áherslu að það eru ýmsir sem vilja annaðhvort ganga lengra, leggja fleira undir eitt ráðuneyti heldur en hér er gert ráð fyrir og hins vegar eru aðrir sem telja að hér sé viðkvæmum málum hreyft og m.a. fært frá ákveðnum fagráðuneytum til þessa fyrirhugaða umhverfisráðuneytis.
    Meginatriði þessa máls eru þau að gert er ráð fyrir því að eitt ákveðið ráðuneyti annist yfirstjórn umhverfismála eins og getið er um í 2. gr. þessa frv. Meginsviðin verði varnir gegn mengun á landi, í lofti, í ferskvatni og sjó, verndun náttúru, þar með talið eftirlit með ástandi gróðurs, útivistarmál og friðun og verndun villtra dýra og fugla. Hér er því skapaður sá rammi að umhverfisráðuneytið eigi að fjalla um hið ytra umhverfi, en t.d. ekki áhrif á manninn af spillingu umhverfis eða af eiturefnum sem þar kunna að finnast svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er að hafa þetta í huga. Til að gera ráðuneytinu kleift að annast þetta verkefni er í síðari greinum, einkum í II. kafla,

tekið fram hvað skuli annars vegar færa til þessa ráðuneytis. Eins og segir í 8. gr. skal færa þangað mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins, mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar, Náttúruverndarráð og embætti veiðistjóra.
    Hér er hreyft ýmsum málum sem orka tvímælis, eins og t.d. að kljúfa Hollustuvernd ríkisins þannig að færa mengunarvarnadeild, og þeir eru allmargir sem telja að skynsamlegra sé að flytja Hollustuverndina alla. Þá er að sjálfsögðu komið inn á það svið sem í þessu frv. er ekki falið umhverfisráðuneytinu, þ.e. áhrif á hollustu mannsins.
    Ég vil hins vegar taka það fram að ég tel vel koma til greina ef sú yrði niðurstaða í nefnd eftir að hafa athugað þetta mál, að ekki sé rétt að kljúfa þarna í sundur þannig að eiturefnadeild eða varnir gegn eiturefnum, sem eru einnig í Hollustuverndinni, féllu þarna einnig undir, ef mönnum sýnist svo.
    Í 7. gr. frv. er jafnframt talin upp framkvæmd ýmissa laga sem mundu við samþykkt þessa frv. falin umhverfisráðuneyti. Það er í fyrsta lagi lög um náttúruvernd, lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, lög um dýravernd, lög um fuglaveiðar og fuglafriðun, lög um eyðingu svartbaks, lög um eyðingu refa og minka, lög um friðun hreindýra og eftirlit með þeim, lög um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi og lög um landgræðslu, að því leyti sem tekur til eftirlits með ástandi gróðurs.
    Hér er fyrst og fremst um að ræða ýmis friðunarlög sem falla undir menntmrn. og það gerir að sjálfsögðu eins og nú er Náttúruverndarráð, þannig að mjög mikið er frá menntmrn. fært yfir til þessa umhverfisráðuneytis sem hér er lagt til að sett verði á fót.
    Í þessari upptalningu er, eins og ég las áðan, um að ræða eftirlit með ástandi gróðurs. Í því felst m.a. að ákveða beitarþol. Hér er enn um það að ræða að skilið er á milli að ákveða beit og hins vegar að lagfæra gróður lands, þ.e. uppgræðsla lands er í þessu tilfelli ekki flutt yfir til umhverfisráðuneytis. Um þetta hefur oft verið rætt og í ýmsum þeim tillögum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir því að færa landgræðsluna alla eins og hún er til umhverfisráðuneytis og jafnvel skógrækt. Hér er tekin sú afstaða að
eðlilegt sé að viðkomandi fagráðuneyti, sem hefur þarna mjög stórra hagsmuna að gæta, annist nauðsynlega uppgræðslu og stuðli þannig að því að land, sem kann að vera takmarkað fyrir beit af ákvörðun umhverfisráðuneytisins, verði á ný opnað fyrir umferð bústofns og beit.
    Ég fyrir mitt leyti, eftir að hafa rætt um þetta við fjölmarga aðila, tel að hér sé farin skynsamleg meðalbraut að þessu leyti, að mörgu leyti eðlilegt, þar sem hagsmunir eru stórir eins og ég sagði, í þessu tilfelli hjá landbúnaðinum, að það ráðuneyti sem fjallar um landbúnaðarmál sjái sér hag í því að bæta gróður vegna landbúnaðarins sem er þar að sjálfsögðu meginnotandi.
    Einnig hafa heyrst þau sjónarmið að umhverfisráðuneyti hefði ekkert með gróðurvernd að

gera. Það tel ég satt að segja hinar öfgarnar í þessum málum því að í umhverfismálum okkar er gróðurvernd að öllum líkindum stærsta vandamálið. Sá gífurlegi uppblástur sem hér hefur orðið fer vitanlega ekki fram hjá neinum manni, enda hef ég og eflaust allir orðið var við mjög aukinn skilning á einmitt nauðsyn þess að taka gróðurmálin og gróðurverndina mjög föstum tökum.
    En auk þeirra mála sem þannig eru beinlínis falin þessu umhverfisráðuneyti, þá er í 9. gr. gert ráð fyrir því að stofna til samstarfsnefndar með þeim ýmsu ráðuneytum sem þarna eiga hagsmuna að gæta og þar eru talin upp iðnrn., sjútvrn., félmrn., landbrn. og samgrn. Menn hafa nefnt að þarna ætti heilbrrn. að vera með og það má vel vera. Ég hef ekkert við það að athuga. Það sem réði því að það er ekki með þarna var fyrst og fremst það að gert er ráð fyrir því að frá heilbrrn. flytjist mengunarstarfsemi þess. En ég tel alveg sérstaklega ástæðu til þess að heilbrrn. verði með ef Hollustuverndin öll flyttist þarna yfir. En það er út af fyrir sig smáatriði í þessu og hlutur sem sú nefnd sem þetta fær þarf að athuga.
    Í þessari 9. gr. eru talin upp fjölmörg lög sem mundu falla undir samstarf það sem hér er stofnað til eða með öðrum orðum, eins og fram kemur í þessum II. kafla, þá er hér farin þessi leið sem báðar hafa verið til umræðu: annars vegar að fela umhverfisráðuneytinu mjög víðtækt vald yfir fjölmörgum verkefnum fjölmargra ráðuneyta og hins vegar að hafa það laust í reipum og meira samstarfsvettvang. Hér er farin sú millileið að fela ráðuneytinu nauðsynleg grundvallarmál, en síðan að hafa samstarf um fjölmörg önnur verkefni. Ráðuneytinu er einnig ætlað að annast rannsóknir og fræðslu. Vil ég þar sérstaklega geta 13. gr. þar sem segir:
    ,,Umhverfisráðuneytið skal reglubundið afla vitneskju um ástand lífrænna auðlinda og gera tillögur um skynsamlega nýtingu þeirra með tilliti til langtímahagsmuna þjóðarinnar.``
    Ég veit það að sumir hafa spurt og kannski óttast að þarna sé verið að grípa á óeðlilegan hátt inn í nýtingu náttúruauðæfa landsins sem eru að sjálfsögðu falin ákveðnum ráðuneytum, eins og t.d. nýting auðlinda sjávar sjávarútvegsráðuneytinu og nýting orkulinda landsins iðnaðarráðuneytinu. Hér er alls ekki um það að ræða, eins og greinilega kemur fram í grg. með frv., heldur eingöngu að ráðuneytið veki athygli á þróun þessara auðlinda reglubundið og það getur varla verið nokkrum til skaða að svo sé gert, heldur náttúrlega sjálfsagt að hlutlaus aðili sem fjallar um umhverfismál birti reglulega skýrslur um þróun þessara mála.
    Ég vil síðan vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir að lög þessi verði endurskoðuð innan tveggja ára frá gildistöku. Það er tvímælalaust óhjákvæmilegt því hér er um svo mikið og stórt mál að ræða sem reynsla verður að nokkru að skera úr hvernig best er fyrir komið hér hjá okkur Íslendingum. Sömuleiðis er hér ákvæði sem skyldar

umhverfisráðuneyti að beita sér fyrir breytingu á ýmsum lögum sem eru gildandi, t.d. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, um eiturefni og hættuleg efni, um varnir gegn mengun sjávar, um landgræðslu og kemur þá að því sem ég nefndi áðan um skiptingu þeirra verkefna sem þessi lög í dag fela ákveðnum ráðuneytum.
    Með frv. fylgir allítarleg grg. þar sem saga þessa máls er að nokkru rakin og einnig drepið á ýmsa andstöðu sem hefur komið fram við meðferð málsins hér á Alþingi eða í nefndum við fyrri hugmyndir um skipan þessara mála. Ætla ég ekki að lengja þessa framsögu með því að fara í það.
    Ég vil hins vegar að lokum segja að umhverfismálin eru e.t.v. mikilvægasta mál þessarar þjóðar þegar til lengri tíma er litið. Reyndar á það við miklu fleiri þjóðir en þessa þjóð. Þau eru augljóslega að verða eitt mikilvægasta mál mannkyns. Mjög kemur fram í stöðugt vaxandi meðferð þessara mála að við Íslendingar sitjum þar hreinlega eftir. Við erum ætíð í erfiðleikum með að ákveða hvaða fulltrúar skuli sækja hina fjölmörgu fundi um umhverfismál og um svið umhverfismála sem varðar okkur mjög. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að minna hér á þau hættumerki sem blasa við mannkyni almennt, eins og t.d. eyðingu ósonlagsins eða gróðurhúsaáhrifin eða kjarnorkuna og kjarnorkumengun sem við Íslendingar höfum m.a. nú nýfarið verið mjög minntir á.
    Við Íslendingar eigum hins vegar því láni að fagna að hin almenna mengun umhverfisins, nema þá helst gróðureyðingin, hefur ekki enn þá sótt okkur mjög
heim. Við getum enn þá talað um hreinan sjó og hreint land, hreint vatn, hreint loft þó að allt sé þetta að vísu mjög miklum takmörkunum háð. Það sér t.d. hver maður sem á góðum degi lítur hér í kringum sig í Reykjavík á þá gulu slæðu sem hér liggur yfir. Hún er hér þrátt fyrir það að búið er að ráðast í kostnaðarsamar aðgerðir til að hreinsa úrgang frá Áburðarverksmiðju ríkisins, og vitnar fyrst og fremst um stóraukna umferðarmengun hér á þessu svæði. Og þó að við státum af hreinum sjó og hreinu vatni þá eru þar sannarlega mengunarhættur.
    Ég er þeirrar skoðunar að ef við höldum rétt á þessum málum og getum með sanni sagt að hér sé hreint umhverfi, hér sé hreinn sjór, hreint vatn og hreint loft og haldið á gróðurmálum þannig að til fyrirmyndar sé, þá geti það orðið eitt mikilvægasta einkenni þessa lands og í fjölmörgu tilliti. Ég er sannfærður um það að eins og umhverfismálin og heilsurækt og þau mál fara sem eldur í sinu um heiminn þá selur ekkert betur okkar afurðir en að geta auglýst þær frá hreinu landi. Í því sambandi þurfum við Íslendingar að sjálfsögðu að hafa sýnt að við erum að taka á þeim málum af fullri ábyrgð og fullri festu. Og í þeirri viðleitni er þetta frumvarp lagt fram.
    Ég tel að við Íslendingar eigum að taka forustu á fjölmörgum sviðum umhverfismála á Norður-Atlantshafinu. Ég tel t.d. mjög viðeigandi að við stofnum til ráðstefnu hér á landi, og það fyrr en seinna, um hafið sem við byggjum á okkar afkomu,

um hreint haf og tökum þar ekki aðeins fyrir, þó að afar mikilvæg sé, t.d. hugsanleg mengun frá kjarnorkukafbátaslysum, einnig frá kjarnorku sem streymir út í hafið í nágrannalöndum okkar og berst hingað, heldur einnig hvers konar önnur óhreinindi sem því miður er varpað í hafið í dag og reynum að ná samstöðu með löndunum hér í kringum okkur um að halda Norður-Atlantshafinu hreinu. Ég nefni þetta sem mjög verðugt verkefni fyrir íslenska þjóð og sem mikilvægt skref í þá átt að gera umhverfismálin að aðalsmerki þessarar þjóðar. Við eigum að geta kynnt okkur á alþjóðavettvangi sem umhverfisverndunarmenn. Það er áreiðanlega eitthvert það allra mikilvægasta sem við Íslendingar getum gert þegar til framtíðar er litið og líklega ómælanlegt hvað slík viðleitni og slíkt viðhorf getur haft í för með sér fyrir þessa þjóð bæði efnahagslega og mannlega.
    Þetta frv. er lagt fram í þeirri viðleitni og þeirri von að höggva megi á hnútinn, menn sætti sig við að fara hér meðalleið og ákveði þá heldur að skoða þegar að endurskoðun málsins kemur hvort lengra eða skemmra á að ganga. Grunur minn er nú sá að þá verði frekar um það fjallað hvort lengra eigi að ganga.
    Ég vil, herra forseti, ekki lengja þessa umræðu, það eru svo mörg mál á dagskrá og þó að mjög hefði verið ánægjulegt að flytja um þetta miklu lengra mál og geta um þær fjölmörgu hættur sem að okkur steðja, þá vona ég að ég hafi komið að meginþáttum þessa máls og mér hafi tekist að leggja áherslu á að hér er af hálfu ríkisstjórnarinnar lögð fram málamiðlun í málinu í þeirri von að samstaða geti tekist hér á hinu háa Alþingi um mál sem ég veit að allir hv. alþm. eru sammála um að er mjög mikilvægt.
    Ég vil svo, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.