Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er lagt fram til laga um breytingu á lögum nr. 73 frá 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands, felur í sér nokkrar breytingar sem hafa ekki verið áður og hæstv. forsrh. hefur talið upp að stórum hluta. Það er staðfesting á því að starfslið og skipting ráðuneytanna er með miklu víðtækari hætti en áður hefur verið og í rauninni ekkert nema staðfesting á orðnum hlut, en við vitum að síðan lög um stjórnarráðið voru sett, allt frá 1904 þegar fyrstu ráðherrarnir tóku hér til starfa, hefur lagasetning um stjórnarráð verið næsta óbreytt.
    Það er líka ljóst að ráðuneytin hafa verið misjafnlega mörg í gegnum árin og ýmiss konar verkaskipting hefur verið við lýði. Þó hafa heiti ráðuneytanna yfirleitt gefið nokkra vísbendingu um hver málefni heyra undir hvert og eitt þeirra. Vegna ummæla hæstv. forsrh. áðan má minna á að verkaskipting milli ráðuneyta hefur byggst að nokkru leyti á lögum en að nokkru leyti á eðli máls og hefur starfsskipting á milli ráðherra stundum verið eftir venju. En líka er ljóst að það hefur stundum verið svo að sama ráðuneyti hefur getað heyrt undir fleiri ráðherra, en það er ekki nýtt og hefur æðioft gerst þannig að sama ráðuneyti heyri undir fleiri ráðherra.
    Ég vil hins vegar gera að umræðuefni þá breytingu að forseti Íslands skuli veita embætti ráðuneytisstjóra og aðstoðarráðuneytisstjóra til sex ára í senn. Ég veit ekki hvort er til bóta að skipa embættismenn með þessum hætti þó ég viti ekki hvort það eigi endilega að æviráða menn. Hitt er annað mál að það getur skapað nokkra óvissu við ráðningu manna ef þeir eiga von á að fá pokann sinn eftir sex ár. Í litlu þjóðfélagi eins og á Íslandi er, þar sem atvinnumöguleikar eru takmarkaðir þrátt fyrir allt, getur þetta skapað ákveðið vandamál fyrir þá menn sem taka slík störf að sér og ekki víst að þeir eigi möguleika á því að fá önnur störf sem eru sambærileg, hvorki innan stjórnkerfisins né hjá einkaaðilum. Það er því spurning hvort þetta er til bóta eða ekki. Hitt er annað mál að það getur skapast visst vandamál þegar menn eru æviráðnir og eru búnir að starfa í geysilangan tíma í sama ráðuneytinu. Hér er vandmeðfarið mál. Ég vildi skjóta því til hæstv. forsrh. hvort ekki væri rétt að breyta orðalagi með þeim hætti að embættin séu veitt til sex ára í senn og séu þá endurnýjuð að þeim tíma loknum ef svo ber undir. Ég veit ekki hvað er hægt að gera í þessu, en ég sé vissar takmarkanir á þessu máli og viss vandamál geta skapast við framkvæmd laganna.