Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Nú er runninn upp nýr dagur og við þingmenn höfum þurft að búa við það að vera á löngum fundum bæði í dag og í gær. Hér er orðið fátt hv. þm. þó að það sé einvalalið sem er inni þessa stundina og hæstv. ráðherrar horfnir á braut. Reyndar hafa ekki margir látið sjá sig í deildinni í dag.
    Hér liggur fyrir til umræðu frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum. Flm. er auk mín Ingi Björn Albertsson hv. 5. þm. Vesturl.
    Breytingarnar eru þær að í 1. gr. í þessu frv. segir:
    ,,Við lögin bætist ný grein er verður 85. gr. og orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 83. gr. og 84. gr. skal íbúðarhúsnæði til eigin nota vera undanþegið álagningu eignarskatta.
    2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda um álagningu eignarskatts á árinu 1989 á eignir í árslok 1988.
    Ákvæði til bráðabirgða: Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 2. gr. laga nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, með síðari breytingum, skal sérstakur eignarskattur við álagningu á árinu 1989 ekki taka til íbúðarhúsnæðis til eigin nota.``
    Þetta frv. skýrir sig sjálft. Hér er verið að leggja til í fyrsta lagi að íbúðarhúsnæði til eigin nota verði undanþegið álagningu eignarskatts. Á þessu þingi hafa komið fram ein þrjú frumvörp sem ganga í þessa veru. Tvö hafa verið frá hv. fyrrv. þm. Albert Guðmundssyni um ákvæði til að minnka eignarskatta á eldra fólki og öryrkjum og eitt er frá hv. þm. Kvennalistans þar sem er rætt um að ef annað hjóna falli frá greiði eftirlifandi maki eignarskatt eftir sömu reglum og ef um hjón væri að ræða meðan hann situr í óskiptu búi. Þessi frumvörp eru mjög takmörkuð og ná raunverulega ekki þeim tilgangi að koma sem flestum til góða. Þetta frv. nær hins vegar til allra.
    Ég vil drepa á að ég hef komist að þeirri frumlegu niðurstöðu að einhleypingar eru líka fólk. Á þá leggst sami skattur og á ekkjur og ekkjumenn og ef litið er til þess að hjón greiða samkvæmt núgildandi lögum verulega minni skatta lítur dæmið þannig út: Ekkjumaður sem býr á svæði 1, ef maður lítur á greinargerð, og hefur verið í hjónabandi í 25 ár og einhleypingur sem hefur haft sama gjaldstofn til eignarskatts í dæmi 1, ef við lítum í
greinargerð sem fylgir, hefur á sama tíma greitt 3 millj. 340 þús. 750 kr. í eignarskatt umfram hjónin. Þessi hjón sem voru barnlaus hafa alltaf unnið úti, ákváðu því að leggja mismuninn á eignarskattinum fyrir. Þau keyptu ríkisskuldabréf sem hafa borið 7% vexti þar sem ekki er gert ráð fyrir verðbólgu. Þar sem á þau leggjast ekki skattar áttu hjónin því í varasjóði 8 millj. 451 þús. 672 kr. þegar konan féll frá.
    Ef tekin eru dæmi af þingmönnum mætti spyrja: Hvaða rök mæla með öðrum sköttum á menn sem eru einhleypir, fráskildir eða ekkjumenn þegar sú staðreynd blasir við að það fer einkanlega eftir

landsvæðum, hvar húseignir standa, hvernig eignarskattar eru lagðir á menn? Ég hef undir höndum töflur yfir hver mismunurinn er og sannleikurinn er sá að það er geysilegur munur á því hvar á landinu fólk býr hvernig eignarskattar leggjast á.
    Í umræðum í dag kom fram að í stjórnarfrv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er lagt til að það verði jafnaður aðstöðumunur á milli dreifbýlis og höfuðborgarsvæðisins með þeim hætti að fasteignagjöld verði hækkuð úti á landi. Og þá má spyrja: Væri ekki rétt að eignarskattar væru lækkaðir á þessu svæði eða felldir niður eins og hér er lagt til þannig að þessi aðstöðumunur hverfi?
    Það viðurkenna allir þörfina á að eignast þak yfir höfuðið. Hér á Íslandi er þörfin brýn og brýnni en hvar annars staðar. Húsnæði hér er oft haft rýmra en í löndum þar sem hægt er að vera úti við stóran hluta ársins. Þá hefur aukinn frítími og fleiri tómstundir almennings kallað í æ ríkara mæli á stærra húsnæði til að sinna þessum þörfum. Sú breytta húsagerð sem við stöndum frammi fyrir er orðin staðreynd, er afleiðing víðtækra þjóðfélagsbreytinga sem eru einn þeirra þátta sem gera nútímafólki kleift að búa hér á landi. Sú stefna að háskatta íbúðarhúsnæði er stórt skref aftur á bak. Fólk sem byggir hús leggur allt sitt undir og er oft í áratugi að basla við þessa erfiðu fjárfestingu. Hér er ekki um eignir að ræða sem gefa ávöxtun eins og t.d. ríkisskuldabréf sem þó eru skattlaus. Íbúðaskatturinn er þó fyrst og fremst árás á venjulegt fólk sem hefur með ráðdeild borgað skuldir sínar með skilum og hefur hug á að búa vel eftir að hafa lagt á sig ómælt erfiði við að eignast eigið húsnæði. Sú stefnubreyting að háskatta íbúðarhúsnæði með sérstökum íbúðaskatti er óréttlætanleg og því er lagt til í þessu frv. að hann verði af lagður.
    Með núverandi íbúðaskatti er höggvið til rótar að sjálfseignarstefnu í íbúðarhúsnæði á Íslandi. Það hefur verið aðaleinkenni varðandi íbúðarhúsnæði hér að fólk eigi húsnæðið sjálft. Nú er horfið frá þessari stefnu og eignaupptaka hafin með sérstökum íbúðaskatti sem er einstakur fyrir vestrænt ríki. Hvergi í vesturheimi er lagður sérstakur háskattur á íbúðarhúsnæði eins og hér er gert. Á hitt má og minna að þetta er sama aðferð og kommúnistar notuðu m.a. í Tékkóslóvakíu og Búlgaríu til að leggja eignir fólks undir ríkið.
    Ég lagði fram fyrirspurn á þinginu nýlega til hæstv. viðskrh. um skatt á íbúðarhúsnæði í löndum OECD. Í svari hæstv. viðskrh. kemur ekkert fram um þennan skatt vegna þess að hæstv. viðskrh., sem ekki er hér nú, hefur ekki talið sér fært að svara þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hann. Því hef ég ekki þær tölur á hraðbergi sem ég hugðist hafa með hér um álagningu á sköttum á íbúðarhúsnæði í vestrænum heimi, en það er ljóst að skattar á íbúðarhúsnæði eru hvergi hærri en hér. Má vera að hæstv. viðskrh. hafi ekki þorað að svara fyrirspurninni með þeim hætti sem spurningarnar voru lagðar fyrir hann vegna þess að hann hafi ekki viljað láta sjást hve geysilega háir skattar eru hér á ferðinni.
    Það er því ljóst að núverandi skattakerfi gengur

mjög á svig við þá stefnu sem hefur ríkt hér varðandi íbúðarhúsnæði á undanförnum áratugum og er verið að taka upp eignir fólks með mjög hörðum aðgerðum sem bitna fyrst og fremst á fólki í Reykjavík og á Reykjanesi.
    Með samþykktum á lögum um tekju- og eignarskatt á Alþingi rétt fyrir jólin var þessi stefnubreyting ákveðin --- og það er verst að stuðningsforeldrar ríkisstjórnarinnar skuli ekki vera hér í þinginu lengur. Þeir hefðu getað sagt kjósendum frá því af hverju þau studdu þessa skatta og kjósendur hefðu ábyggilega viljað fá svör við því af hverju svo var.
    Ég hef nokkrum sinnum í ræðum á hv. þingi komið inn á þessi mál, en með þessu frv. liggur frammi mjög ítarleg greinargerð um þetta og það er mjög athyglisvert að eignarskattar á húsum eru nánast fyrst og fremst lagðir á nokkur byggðarlög sem eru hér í nágrenninu, Seltjarnarnes, Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Þessi svæði bera hæstu eignarskattana á íbúðarhúsnæði og mun hærri en á öðrum stöðum. Það væri til mikilla bóta að fella þessa skatta niður því að það er fyrst og fremst verið að skattleggja þetta svæði. Væri fróðlegt að sjá upplitið á hv. landsbyggðarþingmönnum ef þeir þyrftu að bera sömu skatta og þingmenn sem eiga eignir á þessu svæði og sérstaklega á það við um einhleypinga sem bera gífurlega háa skatta sem taka engu tali. Ég get nefnt að það munar þúsundfaldri upphæð t.d. hvort ég mundi búa á þessu svæði eða hvort ég byggi t.d. í sveit með hv. formanni þingflokks Framsfl. Ef ég ætti eign sem væri í kringum 10 millj. yrðu skattar mínir í kringum 170
þús. kr. hér, en hjá hv. formanni þingflokks Framsfl. 17 þús. kr. af sambærilegri eign. Menn sjá að það er þúsundfaldur munur þarna. Þetta eru miklir peningar þegar maður lítur til þess að það eru sömu tekjur sem liggja á bak við sömu vinnu. Hér er verið að mismuna gífurlega fólki og skattar sem hér hafa verið lagðir á eru með þeim hætti að það hlýtur að verða hitamál í næstu kosningum. Ég tel að fólkið á því svæði sem fær hæstu skattana hljóta að gera uppreisn gegn þessu.
    Það er einnig svo mikill mismunur á öðrum sviðum í sambandi við eignarskatta. Ég minni á að skuldabréf ríkissjóðs eru bæði tekju- og eignarskattsfrjáls. Ég minni á dæmið sem ég nefni í greinargerð þar sem maðurinn sem á 140 millj. í ríkisskuldabréfum greiðir enga skatta, hvorki eignarskatta né tekjuskatta, en maðurinn sem á 14 millj. í einbýlishúsi skuldlaust borgar 325 þús. í eignarskatta aðeins. Það er því ljóst að mismunurinn er gífurlega mikill og þennan mismun verður að bæta með einhverjum hætti og laga. Ég tel því að það verði að leggja til að þessir skattar verði felldir niður af íbúðarhúsnæði.
    Eins og ég sagði hér áður hafa komið fram frumvörp um takmörkun á eignarsköttum fyrir sérstaka hópa. Það nær ekki nægilega langt og tekur ekki til ýmissa aðila sem eiga þó ekkert minni rétt á því að eiga einhverjar eignir en aðrir.

    Þegar eignarskattar eru lagðir á með þessum hætti er komin ný staða upp á Íslandi. Það er verið að koma í veg fyrir að nokkur maður geti átt íbúðarhúsnæði en stuðla að því að menn geti fjárfest í tapi ríkissjóðs með því að kaupa ríkisskuldabréf sem eru skattfrjáls. Þetta er alröng stefna. Annars vegar er verið að hegna fólki fyrir að eiga skuldlausar íbúðareignir og hins vegar er verið að verðlauna menn fyrir að fjárfesta í tapi ríkissjóðs.
    Þá má minna á að með þessu mun leiga á íbúðum hækka verulega á komandi árum og komandi ári vegna þess að fjárrenta íbúðarhúsnæðis sem er í leigu þarf að vera gífurlega há til að ná svipaðri útkomu og fjárfesting í skuldabréfum. Leigan hlýtur að hækka allverulega. Þetta er ekki til bóta. Eins og við vitum er leigan þegar orðin töluvert há og það er ekki til bóta að hún skuli hækka með þessum hætti.
    Menn hljóta að koma sínum eignum í eitthvað annað en fasteignir í framtíðinni. Á landi eins og Íslandi er það ekki til bóta. Það hefði verið nær að fella niður eignarskatt af íbúðarhúsnæði þannig að menn fjárfestu þá frekar í því og það væri til ódýrt leiguhúsnæði. Það verður ekki með þeim hætti sem hér hefur verið lagt á og er ósvinna að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið með stuðningsforeldrum sínum að leggja á þennan skatt og sem nánast eignaupptaka, svo háir eru þeir orðnir.
    Það er fróðlegt að sjá að þegar einhleypingur borgar 255 þús. í skatta á Stór-Reykjavíkursvæðinu borgar sami einstaklingur af sömu eign í dreifbýli 12 þús. kr. Hér er um svo mikla margföldun að ræða að það er alveg ótrúlegt. Það er umhugsunarefni hvort fólkið hér, einstaklingarnir á þessu svæði eiga að leggja til samfélagsins með þessum hætti gífurlegar fjárhæðir fram yfir það sem eðlilegt getur talist með skattlagningu.
    Það er leiðinlegt til þess að vita að hæstv. ráðherrar skuli hafa flúið þingsali og raunverulega til háborinnar skammar að þingmönnum skuli boðið upp á það að flytja mál sitt þegar er langt liðið á næsta dag. Það má segja að slík frumvörp hefðu kannski átt það skilið að menn ræddu þessi mál af alvöru. En stjórnarliðar hafa greinilega tekið þá stefnu að það sé best að láta þingmenn stjórnarandstöðunnar flytja sín mál, sérstaklega ef þau koma eitthvað við kaunin á þeim, á þeim tíma þegar bæði fréttamenn og þingmenn sem flestir eru ekki viðstaddir og ráðherrarnir víðs fjarri. Ég held að það ætti að taka það til athugunar hvort ætti ekki frekar að hafa það þannig að fyrir stjórnarfrumvörpum væri mælt á þessum tíma og ráðherrarnir fengju að kynnast því hvernig væri að vera allan daginn hér og flytja svo sín frumvörp á nóttunni. Það væri tilbreyting að við þingmennirnir fengjum að flytja okkar frumvörp á eðlilegum tímum, en hæstv. ráðherrar fengju að flytja þau þegar væri farið að líða á nóttina.
    Ég vil í þessu sambandi sérstaklega undirstrika að það væri hægt að halda miklu lengri ræðu hér um þessi mál því nægar eru tölurnar og nægar eru upplýsingarnar um þetta. En það hlýtur að vera komið

að þeim mörkum að almenningur geti ekki sætt sig við að það sé verið að taka upp eignir með þessum hætti og sérstaklega það misvægi eftir því hvar menn búa sem er orðið ógnvænlegt.