Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir undirtektir við þetta frumvarp og veit að ég mun eiga stuðning sjálfstæðismanna í því að taka til hendinni á þessum vettvangi og reyna að lagfæra þau mál sem eru augljóslega komin í blindgötu. Það verður ekki lengur unað við með þessum hætti. Þá vil ég einnig taka undir það sem hv. þm. sagði um hvernig málum er komið hér á þingi og hvernig okkur stjórnarandstöðuþingmönnum er ætlað að standa um miðja nótt og flytja mál okkar. Við það verður ekki búið í rauninni. Það má vel vera að við bregðum kannski á leik fyrir hæstv. ríkisstjórn á næsta þingfundi á morgun og með þeim hætti að þeir verði varir við að stjórnarandstaðan getur beitt sér þegar um stjórnarfrumvörp er að ræða svo að þeir sýni stjórnarandstöðunni einhverja virðingu í málflutningi hennar og við þau frumvörp sem hún hefur lagt fram.
    Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, leggja til að þessu frumvarpi verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.