Ríkisbókhald, ríkisreikningur og fjárlög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Það gerist nú áliðið og það liggur við að við stjórnarandstöðuþingmenn viðhöfum eintal sálarinnar hér í þingstól því að stjórnliðar virða okkur ekki þess að vera viðstaddir. Það kann að vera að engin skylda eða hefð sé fyrir viðveru þegar svona stendur á en ég vil þrátt fyrir það álíta það eðlilega mannasiði.
    Varðandi þetta mál sem hér er til umræðu þá er ég sammála öllu því sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Þetta er umbótamál og það skýrir sig í rauninni sjálft. Við höfum haft í vetur til umfjöllunar margra ára gamla ríkisreikninga, svo gamla að það hefur snjóað yfir þá í minningunni. Atriði sem mismunandi skoðanir voru á áður og ollu deilum á sínum tíma hafa fyrnst. Slík meðferð mála er mjög óheppileg. Það varðar miklu að það sé fjallað um mál eins og ríkisreikning og fjáraukalög sem næst þeim tíma sem þau taka til. Því aðeins næst sú nauðsynlega viðmiðun sem þörf er að veita, því aðeins næst að veita handhöfum framkvæmdarvaldsins það aðhald sem nauðsynlegt er. Því lengri tími sem líður frá lokum fjárlagaárs, og þar með gerðum hlut, því lakari verður aðstaða fjárveitingavaldsins til þess að fylgjast með framkvæmdum og afleiðingum ákvarðana sinna.
    Í þessu frv. er gert ráð fyrir að lögbundin verði sú skylda að leggja fyrir Alþingi frv. til fjáraukalaga á vorþingi næst á eftir því fjárlagaári sem fjáraukalögin ná til. Skylt verði sömuleiðis að leggja fram endurskoðaðan ríkisreikning á sama ári og ljúka afgreiðslu fjáraukalaga og ríkisreiknings áður en fjárlög komandi árs verða samþykkt. Þetta tel ég mjög nauðsynlegt og til bóta. Nútíma tölvutækni hefur gerbreytt allri aðstöðu til bókhalds þannig að á þeim vettvangi gengur allt hraðar en fyrir fáum árum og því eru engin vandkvæði á að koma þessu í framkvæmd.
    Eins og hv. flm. tók fram þá er þetta frv. samferða öðru frv. um meðferð greiðslna úr ríkissjóði umfram fjárlagaheimildir. Þessi frumvörp eiga samleið og ég sé engin vandkvæði á því að það geti orðið pólitísk samstaða um þau. Ég held að allir hljóti að viðurkenna nauðsyn þess að hreinsað sé til í kerfinu eins og þessi frumvörp miða bæði að.