Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. því að ég rökstuddi efnisatriði þess um leið og ég flutti framsöguræðu fyrir því máli sem síðast var til umræðu hér á þessum fundi í hv. Nd.
    Frv. gerir ráð fyrir því að útvíkka nokkuð heimildir sem nú eru fyrir hendi í lögum nr. 9/1984 og má flokka þessar heimildir í tvennt: Annars vegar það sem kemur fram í 1. gr. frv. og beinist að því að færa megi á milli ára þá fjárhæð umfram frádráttarmörk sem lagt er til að verði í 2. gr. laganna og hins vegar er gert ráð fyrir því að þegar nýtt hlutafé er boðið út í starfandi hlutafélagi þurfi ekki að vera fyrir hendi þau skilyrði um lágmarksfjárhæð hlutafjár og lágmarksfjölda hluthafa sem um getur í þessum lögum sem lagt er til að breytt verði. Hins vegar er áfram það skilyrði fyrir hendi að engar hömlur verði lagðar á viðskipti með þessi nýju hlutabréf.
    Mér er ljóst, virðulegur forseti, að 2. gr. frv. kann að orka tvímælis, en eftir miklar vangaveltur varð niðurstaðan sú af hálfu flm. að leggja frv. fram í þessum búningi í þeirri von að fyrirtæki, lítil hlutafélög sem þyrftu á auknu hlutafé að halda, gætu nýtt sér þessa heimild og smám saman síðan vaxið upp í þá stærð að teljast almenningshlutafélög og falla þá algjörlega innan ramma laganna nr. 9/1984 og síðan gætu slík hlutafélög látið skrá hlutabréf sín á Verðbréfaþingi Íslands eða á almennum hlutafjármarkaði.
    Ég tel ástæðulaust, virðulegur forseti, að fara mörgum orðum um þetta frv. Ég hef þegar flutt nokkuð ítarlega ræðu með síðasta máli sem hér var til umræðu en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu sent til hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.