Almannatryggingar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Við Íslendingar teljum okkur búa í velferðarþjóðfélagi, státum okkur af löggjöf sem tryggi hag þeirra sem minna mega sín, sjúkra, aldraðra og öryrkja. Og víst er það að reginmunur er á aðstöðu þeirra frá því sem var áður en almannatryggingum var komið á fót, en lengi má gera betur en vel. Sífellt koma í ljós göt í kerfinu og jafnvel mismunun.
    Þingkonur Kvennalistans hafa á undanförnum árum lagt fram fjölmörg mál til endurbóta á tryggingalöggjöfinni. Í umræðum hefur þeim yfirleitt verið tekið vel og þá vísað til þess að nú starfi nefnd að endurskoðun á almannatryggingalögum og sé þessum málum best fyrir komið í þeirri endurskoðun. Þessi títtnefnda endurskoðun hefur hins vegar staðið yfir á annan áratug og gerast nú ýmsir langeygir eftir verkalokum nefndarinnar, ekki síst þeir sem hafa bundið vonir við að fá leiðréttingu eða úrbætur á kjörum sínum í kjölfar nefndarstarfsins.
    Lög um almannatryggingar, sem nú eru í gildi, kveða svo á að greiða megi maka elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Við höfum kosið að binda þetta í lög.
    Nú er það svo að fleiri en makar kunna að hafa tekið að sér umönnun elli- eða örorkulífeyrisþega, t.d. börn, tengdabörn, skyldmenni eða jafnvel vandalausir sem eru á sama heimili og sá sem umönnunarinnar nýtur. Við kvennalistakonur teljum eðlilegt að sá sem annast elli- eða örorkulífeyrisþega og getur ekki af þeim sökum stundað vinnu sér til framfæris hljóti einhverjar bætur vegna þess. Við kjósum að nefna það umönnunarbætur.
    Sú stefna hefur að undanförnu rutt sér til rúms að rétt sé að elli- og örorkulífeyrisþegar njóti aðhlynningar í heimahúsum svo lengi sem þeir óska og fært telst. Flestir una sér best og líður best á eigin heimili og í því umhverfi sem þeir hafa vanist. Örorka fólks er af mismunandi orsökum og aðstaða þeirra sem annast þá mjög breytileg. Nefna má dæmi um móður sem er bundin við gæslu á þrítugum geðsjúkum syni. Hann er ekki nógu ,,veikur`` til að fá inni á stofnun en þarf þó stöðuga gæslu. Hann hefur fullar örorkubætur og á þeim verða þau bæði að lifa því að hún getur ekki stundað vinnu og er algjörlega bundin við að gæta hans. Flestir ættu að geta skilið hvílík kjör þessu fólki eru búin og alls staðar er komið að luktum dyrum hjá því opinbera ef leitað er eftir stuðningi. Kerfið nær ekki til þessa fólks og fleiri dæmi eru um slíkt.
    Það er kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð að vista einstakling á elliheimili eða sjúkrastofnun. Daggjald fyrir einstakling á elliheimili var 1. jan. 1989 1593 kr. Daggjald á hjúkrunarstofnunum var þá 2799 kr. þar sem það var lægst og 6353 kr. þar sem það var hæst. 1. jan. 1989 voru 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu 22.030 kr. á mánuði eða um 735 kr. á dag. Af þessum tölum má sjá að þó að almannatryggingar greiddu aðstandendum slíka upphæð sem 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu vegna

umsjár einstaklings sem annars yrði að vera á stofnun sparaðist ríkinu samt sem áður mikið fé. Oft og tíðum leggur fólk hart að sér við að hafa ellihruma eða farlama ættingja í heimahúsum og við teljum sanngirnismál að hið opinbera komi til móts við þá. Því höfum við lagt fram á Alþingi frv. um að 13. gr. almannatryggingalaganna orðist svo:
    ,,Maki eða annar heimilisfastur einstaklingur, sem annast elli- eða örorkulífeyrisþega og getur af þeim sökum ekki stundað vinnu utan heimilis, á rétt á umönnunarbótum er nemi allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu.
    Sá sem annast hefur elli- eða örorkulífeyrisþega í a.m.k. fimm ár samfleytt getur við lát hans [eða lok umönnunar] öðlast rétt til lífeyris hliðstæðum ekkjulífeyri njóti hann ekki greiðslna frá lífeyrissjóði eða Tryggingastofnun ríkisins og sé af einhverjum ástæðum ekki fær um að stunda vinnu utan heimilis.
    Hafi einstaklingur ekki getað stundað vinnu vegna umönnunar elli- eða örorkulífeyrisþega samfleytt undanfarin fimm ár á hann rétt á styrk til starfs- eða endurmenntunar, samkvæmt mati tryggingaráðs, í því skyni að fá atvinnu á ný til að framfleyta sér þegar umönnunarstarfi lýkur.``
    Foreldraekkjur nefna Norðmenn uppkomið fólk sem hefur búið heima og hugsað um sjúka eða fatlaða foreldra eða foreldri sem ekki getur komist af án hjálpar. Yfirleitt eru þetta konur. Við lát foreldris eða umönnunarlok af öðrum ástæðum, svo sem vistun á sjúkrastofnun, er þetta fólk tíðum mjög illa sett í lífsbaráttunni. Algengt er til sveita að þessar foreldraekkjur sitji á jörð sem hefur lítinn sem engan fullvirðisrétt og er því verðlítil eða verðlaus eign. Yfirleitt eru það fullorðnar konur og ógiftar en ekki færar um að reka búskap án aðstoðar. Þær hafa oftar en ekki einangrast inni á heimilinu við einhæf störf og treysta sér ekki út á almennan vinnumarkað vegna ókunnugleika við launuð störf en eru ekki komnar á ellilífeyrisaldur. Sjaldan geta þær talist öryrkjar en lenda milli stafs og hurðar í kerfinu þrátt fyrir það að þær með umönnunarstörfum sínum hafi án efa sparað ríkinu stórfé. Þessu frv. er ætlað að rétta hlut þessara einstaklinga og veita störfum þeirra viðurkenningu.
    Ákvæðið um styrk til starfs- eða endurmenntunar handa þeim sem langtímum hafa verið bundnir innan heimilis við umönnun sjúkra, aldraðra eða öryrkja eru til þess að auðvelda þeim að framfleyta sér af eigin rammleik. Við samningu frv. hefur verið stuðst við norsk tryggingalög og tekið mið af því hvernig þar er staðið að bótum til þeirra sem frv. er ætlað að ná til.
    Að lokinni umræðu, herra forseti, mundi ég mælast til þess að frv. yrði vísað til heilbr.- og trn.