Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það er nú að bera í bakkafullan lækinn að vera að taka til máls núna þegar klukkan er orðin rétt um hálfþrjú, en þó verður ekki hjá því komist að lýsa yfir stuðningi við frv. í meginefnum.
    Ég er búinn að ræða um þessa eignarskatta fram og til baka hér nokkrum sinnum í þinginu síðan þeir voru samþykktir og vil minna á það að þegar þetta frv. var samþykkt hér gerði ég grein fyrir atkvæði mínu, einn þm. hér í þinginu, og var þá með útreikninga á því hvað þetta þýddi. Ég hafði reyndar gert mér vel grein fyrir því að hér var um verulegar hækkanir að ræða og kemur það fram í bókun sem ég gerði þá þegar frv. var samþykkt.
    Ég vil rétt undirstrika það sem ég sagði áðan, að ég hef komist að þeirri frumlegu niðurstöðu að einhleypingar eru líka fólk og þó að ekkjur og ekklar eigi auðvitað allan rétt má ekki gleyma því að það er stór hópur sem er einhleypingar og bera sama skatt og ekkjur og ekklar og eru oft kannski með jafnstórar eignir og umrætt fólk og ekkert hærri tekjur. Meginniðurstaðan er hins vegar sú í sambandi við eignarskattana og stóreignaskattinn að svæðið sem við erum nú á, frá Seltjarnarnesi og til Hafnarfjarðar, er aðalsvæði þessa skatts og fer hann lækkandi síðan um byggðir landsins, hærri í þéttbýli og nær enginn þegar kemur í strjálbýli. Ég tók sem dæmi áðan að ef við tökum hv. formann þingflokks Framsfl., sem fellur undir þessar breytingar sem hv. 10. þm. Reykn. mælti fyrir, mundi hann ekki bera mikla eignarskatta þó að hann sé ekkill vegna þess að á hans svæði bera eignir sáralitla skatta í samanburði við svæðið hér. Og ég minntist á t.d. dæmi úr Morgunblaðinu um eignarskatta en þar er munur á einstaklingi hér og einstaklingi í hans byggðarlagi þúsundfaldur, þ.e. hann mundi greiða 17 þús. í því byggðarlagi en hér í Reykjavík eða á Reykjanesi eru það 172 þús. af sambærilegri eign upp á 10,7 millj. og er þá reiknað með að bíll sé inni í því. Það er því ljóst að þetta er fyrst og fremst spurningin um það hvar menn búa hvort húseignir bera eignarskatta eða ekki. Sambærilegt húsnæði ber mjög háa skatta hér á þessu svæði en enga skatta víða í strjálbýli þannig að mönnum er mismunað stórlega með íbúðarhúsnæði í huga og þetta er held ég meginniðurstaðan. Síðan er það þessi mismunur á milli einhleypinga og hjóna sem er allt upp í rúmlega 2000-faldur miðað við sambærilega eign þannig að hér er um gífurlega mikla mismunun að ræða og verður ekki fram hjá því litið. Ég held því að menn ættu að sameinast um það að breyta eignarsköttum af íbúðarhúsnæði í þá veru að íbúðir og íbúðarhúsnæði beri sem minnsta skatta, helst enga, og beri þá a.m.k. sambærilega skatta um allt land því að ef það hefði legið fyrir að sambærilegir skattar hefðu lagst á sambærilegt húsnæði úti á landsbyggðinni hefði þetta aldrei verið samþykkt. Það eru staðreyndir málsins. Það er því mikilvægt að því sé komið til skila til kjósenda hér á Reykjanesi og Reykjavíkursvæðinu að þetta er skattur á þetta svæði, fyrst og fremst. Og það verður að lækka þennan skatt.