Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Kristín Halldórsdóttir):
    Hæstv. forseti. Af einlægri samúð með virðulegum forseta og þeim fáu hv. þm. sem enn eru hér í húsinu, svo og því starfsliði sem er bundið hér vegna málgleði okkar og vinnusemi, skal ég vera ákaflega stuttorð, en ég vildi þó ekki láta það hjá líða að þakka hv. 17. þm. Reykv. og hv. 11. þm. Reykn. fyrir þátttöku þeirra í þessari umræðu og orð þeirra.
    Ég vildi aðeins minnast á örfá atriði. Hv. 17. þm. Reykv. talaði um gleðilega stefnubreytingu hjá Kvennalistanum. Hér er í rauninni alls ekki um stefnubreytingu að ræða. Ég minnti reyndar á það í máli mínu að kvennalistakonur hefðu verið andvígar því á sínum tíma að tekin yrði upp þessi millifærsla á ónotuðum persónuafslætti milli hjóna og til þess lágu ákveðnar ástæður sem kannski er of langt mál að fara nákvæmlega út í hér, en við vildum m.a. nota þetta fé sem þarna er fært á milli frekar til þess að hækka barnabætur, en auk þess var þetta að okkar dómi prinsippmál sem okkur finnst varða sjálfstæði kvenna. En það fór nú svo að við urðum rækilega undir með þá skoðun hér í þinginu og virðist enginn vilji fyrir því að hlusta á nein rök þeirri stefnu til stuðnings.
    En eitt var það m.a. sem við færðum fram í þeirri umræðu og það er sú staðreynd að heimili er ekki sjálfstæð skatteining og því óeðlilegt að líta á þetta sem eina heild, en ef svo væri gert hlytum við að taka tillit til þess að heimili eru samansett á ýmsan máta. Það eru ekki bara hjón, það eru ekki bara karl og kona í sambúð, sem okkur finnst mega veita þennan rétt, heldur er um fleiri sambúðarform að ræða og hér er tekið á einu slíku sambúðarformi. Það er, eins og ég sagði áðan, kannski ástæða til þess að taka fleiri sambúðarform inn í þetta en okkar hugsun var sú að þarna sviði sárast, þarna væri sárust neyðin, og þar eð þetta ákvæði væri greinilega orðið nokkuð fast þarna og yrði ekki úr þessum lögum vikið vafalaust á næstunni væri mjög óréttlátt að a.m.k. einstæðir foreldrar gætu ekki nýtt persónuafslátt barna sinna sem hjá þeim eiga lögheimili til þess að létta þeim róðurinn í lífinu.
    Ég mundi eftir frv. Maríu Ingvadóttur og ætlaði raunar að minnast á það hér í ræðu minni, en það vill nú margt gleymast svona á næturfundum. Ég reyndi sjálf að ýta við því frv. þegar það var til meðferðar í þingnefndinni í fyrra, en það var ekki vilji fyrir því þá, enda þótt flokkssystkini hennar væru þá í stjórn. Og það kom mér svolítið á óvart að það skyldi ekki vera þá meiri áhugi fyrir því á stjórnarheimilinu að hlusta á hennar mál. Hún var að vísu með ofurlítið öðruvísi tillögu en hér er gerð eins og hv. 17. þm. Reykv. minnti á áðan. Engu að síður mundi ég eftir því og hefði gjarnan minnst á það.
    Eins er með mál þeirra sjálfstæðismanna fjögurra sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir er 1. flm. að. Það er svolítið önnur leið en mér finnst sjálfsagt að þessi tvö mál séu skoðuð og afgreidd um leið og þótti miður að hv. 1. flm. þess þingmáls skyldi ekki vera hér viðstödd svo að við gætum rætt þetta í samhengi.

    Hvað varðar svo síðara atriðið, þ.e. í 2. gr. sem enn þá meiri umræða hefur nú orðið um, hefði sannarlega mátt rökstyðja það í miklu lengra máli en mér fannst tilefni til og ég bjóst við að áhugi væri fyrir, en ég vil sérstaklega benda á umfjöllun í Morgunblaðinu, bæði 22. mars sl. þar sem fjallað var um þetta í frétt og síðan útfært í súluriti og töflu í Morgunblaðinu 7. apríl sl. Þar eru tekin fjögur dæmi um breytingu á eignarsköttum af sömu eign við fráfall annars hjóna. Þetta eru talandi dæmi sem ekki hafa verið hrakin, mér vitanlega, og ég bendi hv. þm. á að kynna sér þau dæmi.
    Aðeins varðandi það sem hv. 11. þm. Reykn., en hann er kunnur fyrir baráttu sína gegn ekki síst eignarsköttum, vakti máls á, að einhleypingar eru líka fólk eins og hann sagði hér áðan. Ég vil þó benda honum á mjög áberandi og sláandi mun á einhleypingum og ekkjum og ekklum, að einhleypingar verða ekki einhleypingar á jafnsviplegan og snöggan hátt eins og ekklar og ekkjur verða ekklar og ekkjur.