Vaxtalög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):
    Herra forseti. Það er rétt að við skrifum þrír nefndarmenn undir minnihlutaálit sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi nefndarinnar komu fulltrúar Seðlabanka, viðskiptabanka og sparisjóða. Fram kom að erfitt kynni að vera að túlka ýmis ákvæði frv. Bjarni Bragi Jónsson lýsti þeirri skoðun Seðlabanka að affallaviðskipti gætu haldið áfram þrátt fyrir lögfestingu frv.
    Enda þótt ýmislegt sé við þessa lagasmíð að athuga vill minni 2. hl. ekki beita sér gegn frv. og lætur því afgreiðslu þess afskiptalausa.``
    Raunar má skjóta því inn í að við tjáðum okkur, a.m.k. ég, reiðubúna til að greiða fyrir því að málið fengi eðlilega þinglega meðferð og mun auðvitað gera það.
    ,,Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk nál. þessu. Undirskrift: Eyjólfur Konráð Jónsson, Halldór Blöndal, Júlíus Sólnes.``
    Að því er varðar ummæli um að erfitt gæti verið að túlka ýmis ákvæði féllu á nefndarfundi orð eins og þessi, kannski sum í léttum tón, en engu að síður féllu þau þar: Við getum túlkað hvað séu vextir í viðskiptabönkum, en getum ekki túlkað hvað séu hóflegir vextir hjá verðbréfasjóðum þar sem þeir starfa með verðbréfakaupin. Virðist ekki ljóst hvernig eigi að skilja ákvæðið ,,viðmiðun við`` og ,,samsetning fjármagns`` og það væri glufa í hugsuninni. --- Þetta eru bara sýnishorn af því sem fram kom á þessum nefndarfundi. Það kom raunar líka fram og það var hjá Sigurði Hafstein að illskiljanlegt væri orðalagið ,,almennir óbundnir sparisjóðsvextir``, hvað það þýddi. Þess vegna er fullkomlega rétt að það kom fram þarna að ýmis ákvæði væri erfitt að skilja og við það stend ég og ég held að það hljóti allir, þegar þeir rifja upp þennan fund, að muna eftir þessu.
    En ég skal ekkert vera að fárast yfir þessu. Eins og nál. ber með sér ætlum við ekki að standa í vegi fyrir því að þetta frv. verði lögfest og við styðjum þá brtt. sem formaður nefndarinnar gerði grein fyrir áðan.
    Sannleikurinn er auðvitað sá að vaxtaflækjan í þjóðfélaginu er búin að vera með eindæmum. Ég nefni þetta ekki frjálsa vexti. Það er öðru nær. Það er hvergi held ég á vestrænum löndum jafnmikil afskiptasemi af vaxtakjörum og einmitt á Íslandi. Það er ekki um neitt frjálsræði þar að ræða. En ég held kannski að þetta frv. eitt út af fyrir sig breyti þar litlu um og það er auðvitað lögfest á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna ef það verður hér samþykkt.