Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég hafði reyndar gert grein fyrir skoðun minni á þessu máli við 1. umr., en ég skrifaði undir nál. og er samþykkur því að þetta mál verði afgreitt. Ég vil samt undirstrika það, sem ég sagði við 1. umr., að ég tel mjög vafasamt að það sé verið að leyfa innflutning á skipum til nýtingar fiskistofna einhvers staðar og einhvers staðar út um heiminn. Þegar þeim rekstri verður hætt er vitaskuld hætt við því að slík skip komi hingað heim og þá verður óskað eftir því að þau fái að veiða innan íslenskrar landhelgi.
    Það er þó tekið fram í þessu frv. að þeim sé það algerlega óheimilt og þar af leiðandi liggur beint fyrir að það yrði aldrei gert öðruvísi en með lagabreytingu. Ég óttast að ef slík staða kæmi upp yrði breytt lögum vegna þess að ég hef sérstaklega fundið fyrir því að það er ótrúlega mikill þrýstingur bak við þetta mál. Þrír ráðherrar hafa lagt sig fram í því að fá málið samþykkt. Ef svo kæmi upp að þetta skip þyrfti að koma hingað heim til Íslands til þess að fyrirtækið tapaði ekki stóru og þyrfti að heimila því veiðar, þá væru þessir þrír ráðherrar og kannski einhver ákveðinn hópur í kringum þá þó nokkuð mikið skuldbundinn þeim eins og hefur komið fram í öðrum málum og það yrði farið inn á þann vettvang að leyfa skipinu að veiða innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.
    Það kom ekki alveg í ljós í nefndinni hvers lags skip þetta væri. Að sumu leyti væri þó nokkuð ákveðið hvaða skip þetta er af því að það væri þegar búið að gera samning um skip. Ég man ekki alveg hvert nafnið var. Ég átti von á því að fá afrit af því bréfi sem nafn skipsins kom fram í, Romano eða Romanoff eða eitthvað slíkt. En það kom engan veginn fram hvernig skip þetta er, hvort þetta er eingöngu verksmiðjuskip eða hvort þetta er skip eins og sum stóru verksmiðjuskipin eru sem geta jöfnum höndum stundað veiðar og tekið afla frá öðrum skipum, eru svo afkastamikil að þau ekki aðeins afkasta þeim afla sem þau fiska sjálf heldur taka afla frá öðrum skipum eins og ætlað er með þetta skip.
    Eins og ég sagði áðan skrifaði ég upp á þetta nál. með fyrirvara og fyrirvari minn er sá að ég ítreka enn um síðustu málsgr. 4. gr. að ég er efins um að það verði staðið við hana ef illa fer í þessum rekstri. En þrátt fyrir að ég efist um að svo verði gert árétta ég að þrátt fyrir það treysti ég því að sú sé meiningin og þess vegna beiti ég mér ekki gegn málinu.