Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég fagna því að formaður nefndarinnar hefur þennan skilning á málinu og get tekið undir að nefndarmenn hafi haft þessa skoðun. En eftir þeim upplýsingum sem við fengum frá fulltrúum úr ráðuneytinu var búið að gera samning við aðila að mig minnir úti í Hollandi eða Belgíu um eitthvert skip sem við fengum ekki fullnaðarupplýsingar um hvernig væri byggt, hvort það væri eins og við vitum að eru mörg hver af þessum verksmiðjuskipum, þannig byggt að vera bæði veiðiskip og verksmiðjuskip til að taka afla af öðrum skipum. Ég held því miður að það sem verið er að samþykkja hérna sé ekki svo bindandi að ráðherra geti ekki eftir að þetta hefur verið samþykkt samþykkt innflutning á stærra skipi en verksmiðjutogararnir okkar eru, þ.e. svipað og við höfum heyrt að Færeyingar hafi verið með, mjög stór skip sem geti tekið afla frá öðrum og Rússarnir eru með, og ekki sé hægt að útiloka að hann leyfi slíkt. Þess vegna óttast ég ef illa fer um þennan rekstur að svo geti farið að eftir eitt úthald þar vestra eða tvö komi eigendur þessa skips til Íslands og óski eftir því að fá að nýta sína veiðimöguleika innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. En eins og ég sagði áðan er lokamálsgr. 4. gr. á þann veg að það verður að fá samþykki Alþingis til þess og ég treysti því að Alþingi muni koma í veg fyrir það þó að einhverjir valdaaðilar í þjóðfélaginu reyndu að koma því áleiðis að það yrði leyft.