Hafnalög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 791 um breytingu á lögum nr. 69/1984, hafnalögum. Þar segir í 1. gr.:
    ,,35. gr. laganna orðist svo:
    Hafnamálastofnun ríkisins annast í umboði ráðherra vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs.``
    2. gr. er um gildistöku laganna 1. janúar 1990.
    Í grg. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í núgildandi hafnalögum er 35. gr. svohljóðandi:
    ,,Seðlabanki Íslands annast í umboði ráðherra vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs og veitir sjóðnum aðstoð við öflun lánsfjár.``
    Breytingin er í því fólgin að Hafnamálastofnun ríkisins yfirtekur þau verkefni sem Seðlabanki Íslands hefur annast fyrir Hafnabótasjóð. Tilgangur breytinganna er að gera starfsemi sjóðsins einfaldari og skilvirkari auk þess að spara rekstrarútgjöld.
    Í raun er ekki verið að tala um svo mikla breytingu því að hingað til hefur stór hluti vinnunnar við Hafnabótasjóð verið unninn á Hafnamálastofnun. Í því sambandi má nefna að fjárveitingar ríkissjóðs til sjóðsins fara í gegnum stofnunina (fjárlagaliður 10-333). Þá hefur Hafnamálastofnun undirbúið og unnið upp tillögur um úthlutun úr sjóðnum, enda liggja þar fyrir upplýsingar um fjárhag hafnanna svo og þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Að lokinni úthlutun hafa lán og styrkir í flestum tilfellum aftur farið í gegnum Hafnamálastofnun eftir að sveitarstjórnir hafa veitt stofnuninni umboð til að reka mál sín hjá Seðlabankanum. Í mörgum tilfellum hefur Hafnamálastofnun, í samráði við sveitarstjórnir, greitt af lánum í sjóðnum og notað til þess fjármuni sem stofnunin hefur legið með fyrir hafnirnar. Hafnamálastofnun ætti þannig að hafa jafngóða möguleika og Seðlabankinn á að annast innheimtu afborgana af lánum.
    Væntanlega leiðir þessi breyting til sparnaðar því að Hafnamálastofnun telur að ekki þurfi vinnuafl nema sem svarar um hálfu stöðugildi til að annast rekstur sjóðsins. Þá mundi breytingin spara sveitarstjórnarmönnum og öðrum ráp milli stofnana í Reykjavík.``
    Eins og fram kemur í grg. er breytingin sem hér er lögð til aðeins sú að Hafnamálastofnun annist þau störf sem lúta að vörslu, afgreiðslu og bókhaldi Hafnabótasjóðs, en þau störf eru í dag hjá Seðlabanka Íslands. Hingað til hefur þó stærsti hluti starfa við Hafnabótasjóð verið hjá Hafnamálastofnun sem lítur á það sem hluta af þeirri þjónustu sem stofnunin veitir sveitarfélögum að reka mál þeirra er varða sjóðinn.
    Hafnamálastofnun er líka sú stofnun sem besta þekkingu hefur um hafnir landsins, ástand þeirra og efnahag svo og þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru, raðar í forgangsröð framkvæmdum eftir því hve brýn þörfin er. Hafnamálastofnun hefur líka upplýsingar um fjárhagslega getu sveitarfélaganna, metur láns- eða styrkþörf þeirra vegna framkvæmda við hafnarmannvirki og gerir tillögur þar um.
    Eftir að úthlutun úr Hafnabótasjóði fer fram þar

sem haft er fullt samráð við fulltrúa Hafnamálastofnunar hafa lán og styrkir úr Hafnabótasjóði í flestum tilvikum farið aftur í gegnum Hafnamálastofnun vegna þess að fulltrúar sveitarfélaganna kjósa að veita stofnuninni umboð til þess að reka mál sín. Það er auðvitað m.a. til þess að spara sér ferðir til Reykjavíkur en ekki síður vegna þess að um allar stærri hafnarframkvæmdir á vegum sveitarfélaga og fjármögnun þeirra er haft samráð við Hafnamálastofnun og hefur samstarf sveitarfélaga við stofnunina verið með ágætum.
    Á vegum Hafnamálastofnunar eru því lán og styrkir Hafnabótasjóðsins til sveitarfélaga sótt og einnig hefur stofnunin séð um að greiða af þeim lánum sem sjóðurinn veitir og oft notað til þess hluta af þeim fjármunum sem sveitarfélögin fá úthlutað á fjárlögum hverju sinni og fara í gegnum Hafnamálastofnun, en þó ætíð haft fullt samráð við sveitarfélögin.
    Það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til hvað varðar daglega umsýslu sjóðsins mun því verða bæði sveitarfélögunum og Hafnamálastofnun til hægðarauka.
    Í öðru lagi má gera ráð fyrir að verði þessi breyting samþykkt muni hún hafa í för með sér verulegan sparnað. Að mati Hafnamálastofnunar þarf ekki vinnuafl nema sem svarar hálfu stöðugildi til þess að annast rekstur sjóðsins. Eins og áður er komið fram sinna starfsmenn Hafnamálastofnunar í dag að mestu leyti vinnunni í kringum úthlutun úr sjóðnum og reyndar öllu sem viðkemur sjóðnum öðru en vörslu, hluta afgreiðslu og bókhaldi. Fyrir þessa þjónustu hefur Hafnamálastofnun ekki verið með neina gjaldtöku. Það verður hins vegar ekki sagt um þá þjónustu sem Seðlabankinn veitir og hér er lagt til að breyting verði á.
    Árið 1986 var framlag ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs 12 millj. kr. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir 1986 tók Seðlabankinn fyrir þá þjónustu sem hann veitti varðandi sjóðinn það ár í laun og launatengd gjöld 1 millj. og 45 þús. kr.
Önnur rekstrargjöld voru 511 þús. Samtals 1 millj. 566 þús. kr.
    Árið 1987 var framlag ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs 15 millj. Kostnaður vegna reksturs sjóðsins í Seðlabankanum var: Laun og launatengd gjöld 1 millj. 649 þús. og 600 kr. Önnur rekstrargjöld 681 þús. 940 kr. --- 2 millj. 331 þús. kr.
    Ef við lítum nánar á þennan kostnað Seðlabankans við að reka sjóðinn 1987 skiptist hann þannig: Föst laun 986.900 kr., sem sagt um 82.000 í fastar mánaðargreiðslur. Föst yfirvinna 33.000. Önnur yfirvinna 426.300. Greidd yfirvinna á mánuði rúmlega 38.000 kr. Ökustyrkur er 36.700, en það gerir, ef miðað er við krónur á km borgaðar hér á hv. Alþingi í dag, um 1735 km. En þetta var árið 1987 þannig að greiddir km hafa verið enn fleiri. Launatengd gjöld eru svo 166.600 kr. Annar kostnaður, hlutur sjóðsins í húsaleigu, ljósum, hita og ræstingu Seðlabankans, er 625.700, prentun og pappír 56.240, en það er hærri upphæð en t.d. Grunnskólinn á Stokkseyri notaði sama

ár fyrir prentun og pappír.
    Launakostnaður við sjóðinn, þennan litla sjóð sem úthlutar örfáum tugum milljóna á ári, ef tekin eru greidd föst laun og yfirvinna og skipt niður á tólf mánuði, eru um 120 þús. mánaðargreiðslan og eru það nokkuð há laun greidd fyrir bókhald fyrir þennan litla sjóð þrátt fyrir að öll vinna við úthlutun fer fram hjá allt öðrum aðila en þeim sem tekur launin.
    Að mati Hafnamálastofnunar er þetta ásamt allri þeirri vinnu sem fram fer í dag hjá þeirri stofnun varðandi Hafnabótasjóðinn aðeins starf sem nemur hálfu stöðugildi. Auk þess er, að mínu mati, veruleg hagræðing fyrir þá aðila sem skipta við sjóðinn, þ.e. sveitarfélögin, ef umsýsla sjóðsins er á einum og sama stað.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn. þessarar deildar.