Hafnalög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé hreyft mjög merkilegu máli og ég mundi vilja koma þeirri ábendingu á framfæri að það er ekki bara í þessu einstaka tilviki að það væri ástæða til að athuga með hvaða hætti vörslu ýmissa sjóða er háttað. Það er nefnilega alveg rétt, sem hér hefur komið fram í máli hv. 4. þm. Suðurl., flm. þessa frv. Mér er mjög til efs að varsla ýmissa sjóða sé í réttum höndum hjá Seðlabankanum og hvort það sé raunverulega í þágu þeirra sjóða og hagsmuna þeirra að vörslurétturinn sé hjá Seðlabanka Íslands.
    Ég hef t.d. áður vakið máls á því hvort það væri ekki rétt að endurskoða vörslurétt yfir byggingarsjóðum ríkisins en þar er ástandið ekki ósvipað, þ.e. að Seðlabanki Íslands hefur með vörslu byggingarsjóða ríkisins að gera, bæði Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, meðan Húsnæðisstofnun ríkisins sér um alla þá vinnu sem er því samfara að taka á móti lánsumsóknum og veita lán og stýra sjóðunum. Nú veit ég ekki og hef reyndar ekki upplýsingar um það hvað umsýsluþóknun er mikil sem greidd er Seðlabanka Íslands fyrir að hafa með vörslu byggingarsjóða ríkisins að gera, en mér kæmi ekki á óvart að hún væri umtalsverð.
    Þess vegna held ég að það væri rétt og gott að skoða þessi mál í heild sinni og íhuga vandlega hvort ekki væri betra og réttara að láta stjórnir sjóðanna sjálfar um að ákveða hvar varsla sjóðanna skuli vera þannig að hagsmunum sjóðanna sé best borgið hverju sinni. Þetta vildi ég sagt hafa.