Umhverfismál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það var fundur í þessari hv. deild til kl. að verða þrjú í nótt. Frá kl. 12 á miðnætti til kl. 3 í nótt var ætlast til þess að nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn fylgdu úr hlaði sínum frumvörpum. Enginn ráðherra úr hæstv. ríkisstjórn var viðstaddur. Tveir þingmenn stjórnarflokkanna voru við. Nú kl. 2, þótt boðaðar hafi verið atkvæðagreiðslur, hefur stjórnarmeirihlutinn á þingi ekki bolmagn til þess að koma málum til nefndar eða á milli umræðna. Ég tel að það sé ástæða til að vekja athygli á því að það er ekki einungis ætlast til þess að stjórnarandstöðuþingmenn séu hér einir á nóttunni við að flytja ræður um eigin frumvörp, heldur er einnig ætlast til þess að þeir liðki til fyrir hæstv. ríkisstjórn þannig að hún geti komið sínum eigin frumvörpum til nefnda og á milli umræðna. Þrátt fyrir þá litlu virðingu sem hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar sýna stjórnarandstöðunni á Alþingi tel ég ekki ástæðu til þess að greiða atkvæði gegn því að þetta mál fari til nefndar, en kýs að sitja hjá og greiða ekki atkvæði.