Kvöld- og næturfundir
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Oft heyrist stjórnarandstöðunni brugðið um ábyrgðarleysi, hún líti á hlutverk sitt fyrst og fremst svo að hún sé hávær gagnrýnisaðili og sé helst upp á móti öllu sem stjórnin aðhafist og geri, en minna fer fyrir því að stjórnarliðum sé brugðið um ábyrgðarleysi og virðingarleysi sem þeir, því miður, sýna skoðunum og tillöguflutningi stjórnarandstæðinga. Um leið og ég vil þakka hæstv. forseta fyrir það sem hann hefur gert til þess að gera okkur kleift að mæla fyrir málum okkar hér á þinginu, sem hann hefur gert í góðu samkomulagi við okkur, þá tek ég fyllilega undir gagnrýni sem fram hefur komið hér í dag hjá hv. 1. þm. Reykv. og hv. 11. þm. Reykn. Það var ekki boðlegt stjórnarandstöðunni það virðingarleysi sem ríkisstjórnin og stjórnarþingmenn sýndu stjórnarandstæðingum sem þeir iðulega bregða um skort á tillögum og innleggi í umræðu hér á Alþingi, að hún hafi ekkert fram að færa annað en háværa gagnrýni og skammir. En þegar við síðan leggjum fram þingmál og mælum fyrir þeim hér á Alþingi þá skortir á virðingu stjórnarliða fyrir þeim tillögum sem við höfum fram að færa. Ég vildi því taka undir það sem hér hefur verið sagt um þetta mál.