Sjúkraliðar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. sem liggur hér frammi á þskj. 886 og er nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 58/1984, um sjúkraliða.
    Þetta frv. er samið í samræmi við loforð við kjarasamninga við sjúkraliða og var til þess flutt að ákveða frekar stöðu sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins. Ég hygg að fá frv. hafi fengið meiri umfjöllun úti í þjóðfélaginu heldur en þetta frv. þar sem það var sent til yfir 60 aðila, það var sent öllum sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, námsbrautum í fjölbrautaskólum og fleirum og fleirum og yfir 60 umsagnir hafa borist.
    Það var ljóst frá upphafi að ágreiningur var um frv. eins og það leit út í fyrstu. Nefndin fékk til fundar við sig aðila frá Sjúkraliðafélaginu og Hjúkrunarfræðingafélaginu og til fundar við nefndina komu þær Kristín Guðmundsdóttir, Ólafía Ingvarsdóttir, Margrét Kristinsdóttir og Solveig Halblaub frá Sjúkraliðafélaginu, Sigþrúður Ingimundardóttir, Pálína Sigurjónsdóttir, Svava Aradóttir, Sonja Sveinsdóttir og Ólína Torfadóttir frá Hjúkrunarfélaginu og Laura Sch. Thorsteinsson frá Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga.
    Nefndin reyndi sem kostur var að samræma þau sjónarmið sem hvor aðili um sig hafði á málinu og á þskj. 887 er brtt. við fyrstu tvær málsgreinar hins upphaflega frv. sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar svo:
    ,,Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með stjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða hjúkrunareiningar og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum.
    Þar sem hjúkrunarfræðingur hefur ekki fengist til starfa að undangenginni auglýsingu getur sjúkraliði borið ábyrgð á störfum sínum gagnvart þeim sérfræðingi sem hlotið hefur viðurkenningu heilbrrn. Þó skal slík skipan ekki standa lengur en eitt ár í senn og er þá skylt að auglýsa á ný eftir hjúkrunarfræðingi.
    Komi upp ágreiningur um ráðningu sjúkraliða skv. 2. mgr. skal ráðuneytið skera úr um þann ágreining.``
    Eins og þeir sem kunnugir eru þessu frv. sjá er hér reynt að koma til móts við báða aðila. Það þarf ekki að leita heimilda ráðuneytis hverju sinni sem sjúkraliði starfar á stofnun þar sem ekki er hjúkrunarfræðingur. Á hinn bóginn er tryggt að gert sé ráð fyrir að ævinlega sé leitað eins og kostur er að hjúkrunarfræðingi en eins og menn vita þá gerist það oftlega, og ekki síst utan Reykjavíkursvæðisins, að ekki er hjúkrunarfræðingur fáanlegur á stofnun og sjúkraliðar verða því að fara í þeirra störf að eins miklu leyti og lög leyfa.
    Formanni nefndarinnar, sem hér stendur, var síðan falið að bera þessa lausn undir báða aðila og ég hafði tal af bæði formanni Sjúkraliðafélagsins og formanni Hjúkrunarfélags Íslands og báðir aðilar sætta sig við þessa lausn. Þess vegna hefur nefndin lagt til að þannig verði frá málinu gengið. Undir nál. skrifa Guðrún Helgadóttir, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Geir

H. Haarde og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, en Guðmundur G. Þórarinsson, Jón Kristjánsson og Ragnhildur Helgadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Við vonum að við yfirferð þessa máls í hv. Ed. fari menn enn á ný ofan í þetta mál og ráðgist við þá aðila sem um niðurstöður þessa máls hafa deilt. Ég legg því til að málið fái afgreiðslu hér í þessari deild og komist sem fyrst til Ed. og hljóti þar með afgreiðslu á þessu þingi.