Sjúkraliðar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hjá hv. frsm. heilbr.- og trn. er hér um mál að ræða sem olli töluverðum ágreiningi. Og þó að það láti ekki mikið yfir sér þetta litla frv., aðeins tvær greinar og sé ekki langt, þá er það svo að þegar tekið er á réttindamálum þá vill það oft verða viðkvæmt mál og einkum viðkvæmt milli stétta.
    Frv. var flutt, eins og fram hefur komið, í framhaldi af bókun sem fylgdi kjarasamningi frá því í fyrra og reyndar var það ítrekuð bókun frá árinu 1987 og taldi ég bæði nauðsynlegt og eðlilegt að standa við það og reyna að fylgja því fram.
    Við umfjöllun málsins hér í þinginu hjá hv. heilbr.- og trn. kom í ljós að ágreiningur var töluverður og þó kannski einkum það að atriði eða ákvæði í 2. mgr. 1. gr. frv. kunnu að rekast á við lög um heilbrigðisþjónustu og starfsréttindi hjúkrunarfræðinga. Þess vegna var talið eðlilegt og nauðsynlegt að gera á þessu nokkrar breytingar sem fram koma í brtt. nefndarinnar.
    Ég vil þakka nefndinni fyrir það að hafa lagt í þetta frv. mikla vinnu og lagt sig fram um það að reyna að ná um þetta samkomulagi. Auðvitað er það ljóst að málsaðilar eru kannski ekki fullkomlega sáttir þegar svo mikið ágreiningsmál hefur verið til umfjöllunar en eins og fram hefur komið hjá hv. formanni nefndarinnar og framsögumanni þá láta menn það þó, ef það má orða það svo, yfir sig ganga, þ.e. sætta sig við þessa niðurstöðu eins og þeir geta. Og ég vænti þess að sjúkraliðar hafi fengið fram meginatriði úr því sem þeir lögðu mest upp úr í sambandi við kjarasamningana og það sem fram kom í bókuninni, að kveða skýrar á um ábyrgð á störfum þeirra, að sjúkraliðarnir sjálfir bæru ábyrgð á störfum sínum og það er skýrt kveðið á um það í greininni eins og hún liggur nú hér fyrir samkvæmt brtt. nefndarinnar.
    Ég vil fara fram á það eins og hv. formaður heilbr.- og trn. að mál þetta fái áfram gang í gegnum þingið, það verði ekki stöðvað hér í þessari deild nú að fengnum þeim upplýsingum hjá hv. formanni að haft hefur verið samband við formenn þessara tveggja félaga sem málið mest varðar og það fái síðan eðlilega og nauðsynlega umfjöllun í Ed. því þangað á það eftir að fara. Samkvæmt starfsáætlun þingsins lifir skammt eftir, mörg frv. til afgreiðslu og ef upp kemur nú þar eins löng og ítarlega umfjöllun um málið eins og í Nd. þá er það mjög í hættu að það fáist afgreitt á þessu þingi, en ég tel að það sé alveg nauðsynlegt til þess að þó seint sé þá sé nú staðið við þessa bókun sem sjúkraliðunum var gefin við kjarasamningana bæði í fyrra og hittiðfyrra. Ég fer þess vegna eindregið fram á það við hv. þm. Þórhildi Þorleifsdóttur að hún falli frá þeirri kröfu sinni um að málið sé stöðvað hér og nú, en það má auðvitað taka það aftur til skoðunar og verður að sjálfsögðu gert við meðferð í Ed.