Sjúkraliðar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að ég fór ekki fram á frestun á málinu. Þetta er 2. umr. sem hér er og ég bað einungis um að það ráðrúm mundi veitast að maður gæti haft samband við viðkomandi stéttarfélög, ekki það að ég rengi orð formanns nefndarinnar heldur hitt að mér finnst það nokkuð endasleppt að geta ekki sjálf aflað mér þeirra upplýsinga sem ég gjarnan vildi. Mér var ekki ljóst að það var ætlunin að taka málið til 3. umr. hér í dag. En ef svo er, ef talið er að ég muni með þeirri beiðni minni tefja málið, þá mun ég að sjálfsögðu fallast á þá málsmeðferð að málið nái fram að ganga áfram til Ed. Þar eigum við fulltrúa í heilbr.- og trn. og ég vona að fulltrúi Kvennalistans þar geti þá unnið þá vinnu sem ég hafði hugsað mér að gera hér í Nd.