Aðför
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. þessu fyrir hönd dómsmrh. sem er fjarverandi. Ég vek athygli á því að frv. þetta er fylgifrumvarp með frumvarpi um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds sem er nú til meðferðar í allshn. þessarar deildar og þarf að sjálfsögðu að vera þar til meðferðar um svipað leyti.
    Eins og fram kemur er frv. samið sem þáttur í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan og réttarfar á héraðsdómsstigi og tengist því fyrrnefndu frv. eins og ég sagði áðan. Það frv. gerir ráð fyrir umfangsmiklum breytingum eins og ég veit að hv. þm. er kunnugt.
    Þessu frv. er í fyrsta lagi aðallega ætlað að leysa af hólmi tvenn lög um aðfarargerðir, annars vegar lög um aðför, nr. 19 frá 4. nóv. 1987, og hins vegar lög um lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar, nr. 29 frá 16. des. 1985. Að auki tekur frv. til efnis sem dreifð fyrirmæli í enn eldri réttarheimildum hafa gilt um eins og sjá má í upptalningu sem fylgir þessu frv. Þannig að hér er þó ekki síst um að ræða eins konar hreinsun og samræmingu á fjölmörgum eldri ákvæðum sem um aðför gilda.
    Í þessu frv. eru þó veigamikil efnisatriði eða breytingar sem tengjast þeirri umfangsmiklu endurskoðun dómkerfisins sem ég gat um í upphafi míns máls. Veigamesta breytingin frá núgildandi lögum sem lögð er til í þessu frv. snýr að eðli aðfarargerða en sú breyting tengist nánar tiltekið því hverjir fari með þær. Er miðað við að sýslumenn, sem frv. til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði ráðgerir að hafi með höndum hlutverk umboðsmanna framkvæmdarvaldsins í héraði, fari með framkvæmd aðfarargerða sem stjórnvaldsathafnir. Héraðsdómstólum er jafnframt ætlað veigamikið hlutverk við aðfarargerðir samkvæmt frv. þessu, bæði við undirbúning þeirra og við úrlausn réttarágreinings sem rís við þær en reglur frv. fela ekki í sér að sýslumenn fari á neinn hátt með dómsvald í þessum efnum og er það sjálfsagt í samræmi við þær umfangsmiklu breytingar og aðskilnað sem þessi vinna stefnir að.
    Fyrir utan þessa veigamestu efnisbreytingu þá eru í frv. ýmis atriði sem annaðhvort má nefna minni háttar breytingar eða lagfæringar og þar sem skýrar er tekið fram en nú liggur fyrir í lögum um ýmis atriði aðfarargerða.
    Í fyrsta lagi hefur lögfesting frv. í för með sér nokkra fjölgun aðfararheimilda frá því sem nú gildir.
    Í öðru lagi, eins og fram kemur í 2. og 3. gr., koma fram reglur um aðild að aðfarargerðum. Er í 2. gr. mælt fyrir um hverjir eigi rétt til að krefjast aðfarargerða eða m.ö.o. hverjir geti verið gerðarbeiðendur.
    Í þriðja lagi eru í 2. kafla frv. aðallega reglur um aðfararfrest. Verulegar breytingar eru lagðar þarna til frá gildandi lögum. Af þeim má nefna að ráðgert er með 5. gr. að afnumin verði skylda til að birta dóma eða úrskurði fyrir gerðarþola til að marka upphaf aðfararfrests.

    Í fjórða lagi vil ég nefna að í 3. kafla frv. koma fram reglur um aðfararbeiðnir og undirbúningsaðgerðir fyrir aðfarargerðir. Í 10. gr. er regla um efni aðfararbeiðna sem felur nokkra breytingu í sér frá gildandi ákvæðum 3. gr. aðfararlaga. Einnig koma fram fyrirmæli í 2. mgr. 10. gr. um fylgigögn með aðfararbeiðnum svo að nokkuð sé nefnt.
    Í fimmta lagi vil ég nefna að í 4. kafla frv. er fjallað um upphafsaðgerðir við aðför. Í 19. gr. er kveðið á um innbyrðis rétthæfi aðfararbeiðna ef fleiri en ein hafa borist á hendur sama gerðarþola.
    Í sjötta lagi vil ég nefna að í 5. kafla frv. er fjallað um framkvæmd aðfarar, en þar er að finna almennar reglur sem ná til allra afbrigða aðfarargerða án tillits til hvort um fjárnám er að ræða eða aðför til að fullnægja annarri skyldu gerðarþola.
    Í sjöunda lagi vek ég athygli á því að í 6. kafla frv. koma fram reglur um það í hverjum eignum gerðarþola megi gera fjárnám. Ákvæði kaflans fela talsverða breytingu í sér frá núgildandi reglum. Af þeim má helstar nefna að í 38. gr. er horfið frá meginreglu gildandi laga að meta þurfi til verðs eignir sem fjárnám er gert í, en í framkvæmd hefur lengi heyrt til undantekninga að ekki sé lýst yfir af hálfu aðila að gerðinni að þeir falli frá því að mat eða virðing eigna fari fram. Það má segja að með þessari breytingu er verið að færa lögin til þess horfs sem venjur hafa skapað.
    Í áttunda lagi er kveðið á um réttaráhrif fjárnáms á vörslu eigna sem fjárnám hefur verið gert í og er það í 7. kafla frv. Þá má nefna að í 8. kafla eru lagðar til reglur um sérstök skilyrði fyrir því að fjárnámi verði lokið án árangurs og er með þeim hætti leitast við að vernda stöðu gerðarþola í þessum efnum, en þessu hefur verið mjög ábótavant.
    Í tíunda lagi vil ég nefna að í 9. kafla er að finna reglur sem taka til heimildar til endurupptöku fjárnámsgerðar og til framkvæmdar við þær aðstæður.
    Í ellefta lagi nefni ég að í aðfararlögum er ekki vikið að þeim sérstöku lögum sem varða fjárnám til fullnustu kröfum um dagsektir sem lagðar hafa verið á gerðarþola til að knýja hann til efnda á skyldum til tiltekinna
athafna. Er í 10. kafla leitast við að bæta úr vöntun lögfestra reglna um þetta atriði. Efnisreglur kaflans bera að nokkru í sér tillögur um lögfestingu reglna sem hafa þótt gilda í framkvæmd í þessu sambandi, en ýmis mikilvæg nýmæli er þó einnig þar að finna.
    Þá nefni ég í tólfta lagi að í 11. kafla frumvarpsins eru reglur sem koma í stað fyrirmæla II. kafla aðfararlaga um aðför til fullnustu krafna um annað en peningagreiðslur en slíkar aðfarargerðir eru fátíðar í framkvæmd.
    Í þrettánda lagi vil ég geta þess að í 12. kafla frv. koma fram reglur sem taka til útburðar- og innsetningargerða án undangengins dóms eða réttarsáttar. Almennar lögfestar reglur hafa ekki verið fyrir hendi um þetta atriði og er mikilvægt að úr því verði bætt.
    Í fjórtánda lagi vil ég nefna að V. þáttur frv. hefur

að geyma reglur um meðferð mála fyrir héraðsdómi sem varða ágreining um aðfarargerðir. Mismunandi reglur eru lagðar hér til eftir því á hvaða stigi gerðarinnar ágreiningurinn rís.
    Loks vil ég í fimmtánda lagi nefna að fyrirmæli 14. kafla frv. fjalla um bótaábyrgðir vegna óréttmætrar aðfarargerðar eða rangrar framkvæmdar hennar, en reglur hafa ekki verið fyrir hendi í lögum um þetta efni.
    Herra forseti. Ég hef hér rakið meginatriði þessa frumvarps. Ég endurtek að þetta er fylgifrumvarp með öðru máli sem þegar er komið til deildar og mikilvægt að það sé þar í meðferð um leið. Þetta er mjög stórt mál og þó það sé aðeins einn angi af enn mikilvægari endurskoðun dómskerfisins er það í sjálfu sér mjög mikilvæg lagfæring sem hér er lögð til. Legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.