Brottfall laga á sviði menntamála
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir gagnmerku frumvarpi um brottfall ýmissa laga á sviði menntamála sem þeir í hinu háa menntmrn. hafa samið og hafa af sínum vísdómi komist að því að öll þau lagaákvæði sem um getur í 1.--8. gr. frv., sem er á þskj. 694, þjóni ekki tilgangi lengur í Lagasafni Íslands og hafi þar ekki neinu hlutverki að gegna og vilja því að þau falli brott. Með þessu skal stuðlað að nauðsynlegri lagahreinsun í lagasafninu, en útgáfa lagasafnsins er nú í undirbúningi.
    Ég hirði ekki að rekja þessi lagafrumvörp öll. Mér skilst að hæstv. menntmrh. hafi flutt bráðskemmtilega ræðu í Ed. um afnám laga um friðun héra og fleira í þeim dúr og vísa í framsöguræðu ráðherrans í hv. Ed.
    Hv. menntmn. Ed. fjallaði um málið og varð sammála um að leggja til að frumvarpið yrði samþykkt og virðist því hér ekki vera ágreiningur uppi um það að brottfall þessara laga úr lagasafninu sé tímabært orðið.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég svo til að frv. verði vísað til hv. menntmn.