Dýralæknar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 77 frá 1. okt. 1981 um dýralækna, með síðari breytingum.
    Frv. felur í sér breytingar á 2. og 5. gr. gildandi laga. Í 1. gr. frv. eru gerðar þær breytingar á 2. gr. laganna að aftur verði tekin upp í lögin ákvæði sem féllu brott við síðustu endurskoðun og gera ráð fyrir að landbrh. ákveði búsetustað héraðsdýralækna, en samkvæmt gildandi lögum er í raun enginn aðili sem getur tekið slíka ákvörðun vegna brottfalls þessara ákvæða úr lögunum á sínum tíma við síðustu endurskoðun.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir heimild til að ráða dýralækni án fastrar búsetu til að gegna dýralæknisþjónustu í forföllum eða þegar sérstakt annríki eða vanda ber að höndum í einstökum héruðum. Það er mikil þörf á því að hafa slíkan dýralækni tiltækan þar sem oft ber við bæði vegna veikinda, forfalla og annarra ástæðna að héraðsdýralæknar geta ekki gegnt störfum sínum um lengri eða skemmri tíma. Í núgildandi lögum eru engin ákvæði sem tryggja starfsemi dýralæknis án fastrar búsetu og er það bagalegt jafnmargir og héraðsdýralæknar eru nú orðnir og því ávallt hætta á nokkrum forföllum.
    Í þriðja lagi er í 1. gr. gert ráð fyrir að við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum starfi að jafnaði tveir dýralæknar með sérþekkingu. Ákvæði þetta var á sínum tíma sett til að tryggja að við stofnunina, sem fæst að verulegu leyti við rannsóknir á dýrasjúkdómum, störfuðu ætíð sérmenntaðir dýralæknar. Þetta ákvæði þykir eðlilegt af faglegum ástæðum í rekstri þessarar stofnunar.
    2. gr. gerir ráð fyrir smávægilegum breytingum á núgildandi 5. gr. laganna, svo og því að það nýmæli sé tekið upp í 2. mgr. að ráðherra skipi þriggja manna nefnd sem hafi það hlutverk að meta hæfni umsækjenda um héraðsdýralæknisembætti og geri tillögu til ráðherra um röð umsækjenda. Við röðun umsækjenda er þá gert ráð fyrir því að nefndin geti auk hæfni manna byggt á reynslu, ívilnun vegna starfa í afskekktum héruðum og fleiru slíku, samkvæmt nánari útfærslu í starfsreglum sem gert er ráð fyrir að ráðherra setji nefndinni. Ákvæði þetta er í raun mjög hliðstætt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, varðandi starfsskilyrði og veitingu embætta til annarra lækna.
    Það er jafnframt nýmæli í 1. mgr. að skipun yfirdýralæknis sé tímabundin og gildi lengst í sex ár. Að öðru leyti eru ákvæði greinarinnar efnislega samhljóða núgildandi lögum.
    Ég hygg að þessar breytingar séu annars vegar nauðsynlegar lagfæringar á lögunum vegna þeirra ákvæða sem þar féllu fyrir borð við síðustu endurskoðun laganna og hins vegar það nýmæli sem lýtur að veitingu héraðsdýralæknisembætta og heimild til að setja þar upp stöðunefnd og taka tillit til reynslu manna og ívilna þeim vegna starfa í

strjálbýlishéruðum. Það er mat manna að með þessu verði betur staðið að þeirri framkvæmd að veita dýralæknisembætti, item að það örvi unga dýralækna til að taka að sér þjónustu í strjálbýlum héruðum, en eins og kunnugt er hafa þó nokkur þeirra verið auð og óskipuð undanfarin ár og er það bagalegt.
    Af þessum ástæðum öllum er lögð á það mikil áhersla að frumvarp þetta verði að lögum á yfirstandandi þingi og hv. Ed. hefur þegar afgreitt það frá sér með samhljóða nefndaráliti.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég svo til að frv. verði vísað til hv. landbn.