Afnám ýmissa laga um iðnaðar- og orkumál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um afnám ýmissa laga um iðnaðar- og orkumál sem er á þskj. 546 eins og frv. kemur frá hv. Ed.
    Eins og kunnugt er er áformuð útgáfa lagasafns á þessu ári og því hefur þeim tilmælum verið beint til ráðuneyta að þau hefðu frumkvæði um það að fella út gildi lög sem ekki hafa neina þýðingu lengur.
    Ég flutti slíkt frv. varðandi úrelt lög á sviði viðskiptamála á síðasta ári og flyt nú þetta frv. um brottfall úreltra laga á sviði iðnaðar- og orkumála. Í þessu frv. eru talin upp ellefu lög sem að mínu áliti eru með öllu úrelt, en auk þess eru í grg. talin upp nokkur lög sem kalla mæti einnota lög, þ.e. lög sem áttu á sínum tíma við einstaka framkvæmd sem löngu er lokið. Auðvitað er óþarfi að halda áfram birtingu slíkra laga í lagasafni frekar en þörf er á að birta þar fjárlög hvers árs. En auðvitað er ekki rétt að fella slík lög úr gildi athugunarlaust. Markalínan er hér sums staðar mjög óljós, en í þessu frv. er við það miðað að fella niður úrelt lög sem hafa að geyma opna heimild fyrir ríkisstjórnina til fjárráðstafana eins og t.d. að stofna tunnuverksmiðju. Hins vegar er hér í grg. einfaldlega gerð tillaga um að hætt verði að birta lög sem fjalla um einstakar aðgerðir eins og t.d. að taka á leigu geymsluhús Tunnuverksmiðju Siglufjarðar sf., svo ég taki eitt dæmi.
    Virðulegur forseti. Í athugasemdum við einstakar greinar er getið röksemda fyrir brottfalli viðkomandi laga og ætla ég ekki að hafa um það fleiri orð. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni umræðunni vísað til hv. iðnn. og 2. umr.