Hlutafélag um Sementsverksmiðju ríkisins
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að flytja frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Þetta er 333. mál þingsins og frv. er að finna á þskj. 602. Þetta frv. er ekki flókið að gerð og reyndar þekkja hv. þm. frv. frá fyrri tíð. A.m.k. þrisvar sinnum hafa verið flutt frv. þessa efnis á hinu háa Alþingi. Í eitt skiptið var reynt á fylgi frv. í hv. Ed. Þar féll það frv. sem lagt var fram. Nú hefur frv. verið breytt. Fyrst var því breytt í tíð síðustu ríkisstjórnar og lagt þá fyrir þáv. stjórnarflokka og fjallað um frv. ásamt nokkrum forráðamönnum Sementsverksmiðjunnar og bæjarstjórnarfulltrúum á Akranesi. Að því samráði loknu var frv. enn breytt á sl. hausti af þeim sem höfðu unnið að undirbúningi málsins, en það voru menn tilkvaddir af iðnrn.
    Þær breytingar sem hafa orðið á frv. frá því að það var sýnt stjórnarflokkum síðustu ríkisstjórnar er að orðalag í 2. gr. er víkkað. Þar segir nú að félaginu sé heimilt að gerast eignaraðili í öðrum hlutafélögum eða sameignarfélögum. Þetta er ákvæði sem heimilar Sementsverksmiðjunni, ef af verður, að hefja rekstur um skylda starfsemi og taka þátt í ýmsum þróunarverkefnum. Þetta er samsvarandi ákvæði og hæstv. iðnrh. hefur beitt sér fyrir að verði tekið upp í lög um Járnblendiverksmiðjuna og er ákaflega eðlilegt að fyrirtæki á borð við þetta geti á grundvelli reynslu sinnar og þekkingar tekið þátt í annarri starfsemi en beinlínis þeirri að framleiða sement.
    Þá er í öðru lagi 3. gr. frv. ný, en í henni er tekið fram að heimili og varnarþing félagsins skuli vera á Akranesi en henni sé hins vegar heimilt að starfrækja útibú á öðrum stöðum. Þetta er tekið fram í frv. vegna þess að aðaleigur Sementsverksmiðjunnar eru á Akranesi og eðlilegt að heimili félagsins verði í þeim kaupstað.
    Þá er 6. gr. frv. ný, en hún breytir frv. talsvert frá því sem það var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar segir nú, með leyfi forseta: ,,Verði hlutabréf ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni boðin til sölu, öll eða að hluta, skal leita samþykkis Alþingis fyrir þeirri sölu.``
    Þess skal getið að án samþykkis Alþingis er stjórnvöldum heimilt að selja hlutabréf þótt atbeini Alþingis þurfi að koma til ef um sölu á fasteignum er að ræða, enda eru hlutabréf skilgreind sem lausafé og margoft hafa stjórnvöld selt hluti ríkisins í einstökum hlutafélögum. Hér er gert ráð fyrir að Alþingi hafi um þetta mál að segja, t.d. í formi þingsályktunar.
    Þess skal getið, virðulegur forseti, að hæstv. núv. iðnrh. hefur látið það koma fram, og má benda á fylgiskjal með stefnuræðu hæstv. forsrh. í því sambandi, að ætlunin hafi verið að leggja fram frv. þessa efnis í vetur, en frv. strandaði í meðförum samstarfsflokka Alþfl.
    Í umræðum sem urðu um sams konar frv., um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, lagði ég fram ákveðnar spurningar til hæstv. iðnrh. fyrir hönd Alþfl. og spurðist fyrir um hvort hugsanlegt væri vegna forsögu málsins og yfirlýstrar stefnu þingflokks Alþfl. að Alþfl. fengist til að styðja þetta frv., en það gæti

orðið til þess að frv. yrði samþykkt á yfirstandandi þingi.
    Í raun er enginn efnislegur munur á þessu frv. og frv. um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg. Þetta frv. er unnið að tilhlutan iðnrn. af sömu mönnum og þeim sem gerðu drög að frv. um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, en það voru þeir Jafet Ólafsson, fyrrv. starfsmaður iðnrn., nú útibússtjóri Iðnaðarbankans í Reykjavík, og Sigurður B. Stefánsson, hagfræðingur og forstöðumaður Verðbréfamarkaðs Iðnaðarbankans.
    Í grg. með þessu frv. er sagt hvað í raun breytist. Það er bent á að verði þessi formbreyting á rekstri verksmiðjunnar breytist eftirtaldir þættir:
    1. Ábyrgð ríkissjóðs á rekstri verksmiðjunnar takmarkast við hlutafjáreign, en fjárhagsleg ábyrgð stjórnenda eykst.
    2. Skattgreiðslur munu breytast nokkuð, aðallega þannig að verksmiðjan greiðir aðstöðugjald í stað landsútsvars. Einnig mundi verksmiðjan greiða eignarskatt og hugsanlega tekjuskatt.
    3. Um 20 starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins munu vera í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og verða réttindi þeirra tryggð, en lífeyrissjóðsmál annarra starfsmanna breytast ekki.
    4. Þá verður stjórn verksmiðjunnar kosin á aðalfundi en ekki kosin af Alþingi eins og nú er.
    5. Fyrirtækið mun enga sérstöðu hafa fram yfir önnur fyrirtæki í landinu. Ýmsir kostir þess að reka fyrirtækið sem hlutafélag nýtast og er þeim sérstaklega lýst í grg., einkum og sér í lagi kaflanum þar sem það er rökstutt að þessu ríkisfyrirtæki verði breytt í hlutafélag. Stundum er það nefnt einkavæðing og er þá verið að vísa til þess sem hefur gerst í nágrannalöndum okkar, kannski mest áberandi í Bretlandi en einnig í öðrum löndum þar sem markvisst hefur verið unnið að því að koma fyrirtækjum í ríkiseign yfir til einkaaðila, ekki síst fyrirtækjum sem eiga í samkeppni við önnur fyrirtæki, en þess ber að geta að Sementsverksmiðja ríkisins á í samkeppni við innflutt
sement þótt verðyfirburðir Sementsverksmiðjunnar séu þeir að ekki hefur komið til meiri háttar innflutnings og reyndar er um mjög lítinn innflutning að ræða nema þegar beðið er um sérstakt sement, en það gerist í örfáum tilvikum.
    Það er ástæða til þess, virðulegur forseti, að benda á 4. gr. frv. Það kann að vera að það sé óþarfi að taka síðari málsliðinn upp í lagatexta og gildir þá það sama um frv. sem nú er til meðferðar hjá hv. iðnn. um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, en þessi málsliður orðast svo í frv., með leyfi forseta: ,,Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Hér er verið að vísa til þess að fastráðnir starfsmenn Sementsverksmiðjunnar munu samkvæmt fyrri málslið þessarar greinar halda sínu starfi hjá hinu nýja fyrirtæki og þess vegna gildi ekki 14. gr. laga nr. 38/1954 um þessa starfsmenn eins og gerast mundi ef þeim yrði sagt upp, en þá er það skylda ríkisvaldsins að leita að sams konar störfum annars staðar í

ríkisrekstrinum en greiða biðlaun ella.
    Ég tel, virðulegur forseti, að þetta frv. eigi að verða samferða frv. um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, það sé í raun enginn eðlismunur á þessum tveimur fyrirtækjum sem réttlæti að annað frv. sitji eftir en hitt verði samþykkt á yfirstandandi þingi.
    Ég bendi á að það atriði, sem mestum ágreiningi hefur valdið, það er sala hlutabréfanna, er nú í höndum Alþingis. Mér þykir þetta eðlileg ráðstöfun og vísa til þess að nauðsynlegt er að mínu áliti að bjóða út hlutabréf í fyrirtæki á borð við þetta á almennum hlutabréfamarkaði, en því miður vantar nokkuð á að um virkan hlutabréfamarkað sé að ræða á þessu landi. Það gerist venjulega þannig þegar stjórnvöld selja fyrirtæki að þau eru seld annaðhvort einstökum einkaaðilum, oftast starfandi fyrirtækjum, eða starfsmönnum viðkomandi fyrirtækja. Ég tel að heppilegra sé í þessu tilviki að selja hlut ríkisins í Sementsverksmiðju ríkisins, þegar Alþingi samþykkir það, með þeim hætti að bjóða út hluta hlutabréfanna á almennum markaði þegar fram líða stundir og sá markaður verður virkur, en það hefur verið stefna sumra stjórnmálaflokka að koma á slíkum markaði til að freista þess að auka eiginfjárhlutfall íslenskra fyrirtækja. Því miður hefur núv. hæstv. ríkisstjórn ekki haft döngun í sér til að fylgja fram þeirri stefnu. Það væri vissulega ástæða til þess við þessa umræðu að spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort hæstv. ríkisstjórn hyggist halda áfram því starfi sem hófst með þeirri skýrslu sem Enskilda Securities vann á sínum tíma, annars vegar fyrir Seðlabanka Íslands og hins vegar fyrir Iðnþróunarsjóðinn. Báðar þessar stofnanir heyra nú undir hæstv. iðnrh., annars vegar iðnrn. og hins vegar viðskrn.
    Ég vona, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra geti staðfest stuðning Alþfl. við frv. og ég vona jafnframt að hann hafi notað tímann frá því að við ræddum saman hér um frv. til laga um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg og geti nú svarað þeirri fyrirspurn, sem ég beindi til hans þá, hvort Alþfl. gæti stjórnarsamstarfsins vegna tekið þátt í að afgreiða þetta frv., jafnvel þótt aðrir stjórnarflokkar treystust ekki til að greiða því atkvæði. Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er einfaldlega sú að þetta frv. er í eðli sínu nákvæmlega eins og frv. um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg sem hefur verið flutt á Alþingi sem stjfrv. og mun væntanlega fá afgreiðslu á yfirstandandi þingi.
    Ég vil síðan mælast til þess að að lokinni þessari umræðu verði frv. sent til hv. iðnn.