Frumvarp til stjórnarskipunarlaga
Miðvikudaginn 19. apríl 1989

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Það kemur mér satt best að segja mjög á óvart að því sé mótmælt að forseti hafi stuðlað að því að það mætti mæla fyrir þessu máli. Ég hef haft þá reglu að leitast við af fremsta megni að þingmenn hefðu tækifæri til að reifa sín mál, ekki bara stjfrv. heldur líka þmfrv., hef lagt mig eftir því og ætlan mín er sú að þingmenn fái allir tækifæri til að mæla fyrir þeim frv. sem fram eru lögð og það gildir þá ekki síður um þetta frv. en önnur.
    Það hefur verið farið eftir númeraröð með þeim undantekningum einum að um það hafi verið samið sérstaklega að það yrði ekki gert að því er varðar þmfrv. Samkvæmt þeirri reglu er nú komið að þessu máli. Ég hélt að þingdeildarmenn hefðu áhuga á að ræða þetta mál hvort sem það yrði útrætt eða ekki eins og önnur þmfrv. Mitt mat var það og reyndar að höfðu samráði við fulltrúa allra flokka að æskilegt væri að sú umræða færi ekki öðruvísi fram en þannig að færi gæfist fyrir einn fulltrúa, a.m.k. í fyrstu lotunni, frá hverjum flokki að taka til máls. Það er með hliðsjón af þessu sem ég hef hagað störfum mínum og ég taldi mér trú um, ég þóttist þess fullviss að ég væri að fara að óskum þingmanna með því að koma þessu svo fyrir. Mig furðar ef þessu starfslagi mínu er mótmælt.