Frumvarp til stjórnarskipunarlaga
Miðvikudaginn 19. apríl 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki óvanalegt að mál séu lögð fram til kynningar á Alþingi seinni part vetrar miðað við að þau séu svo tekin til afgreiðslu á þinginu því næsta. Í þessu tilfelli væru menn þá að hugsa um að gera þetta að lögum 1990. Nú hefur aftur á móti komið fram hjá flm. að fyrirhyggjan í þessu máli er slík að þeir gera ekki ráð fyrir því að það fari í gegnum þingið þá heldur 1991. Í ljósi þess sýnist mér að það sé mjög rýmilegt ef þannig standa mál að hægt sé að taka miðjan dag hjá þinginu til umræðu undir mál sem ætlunin er af hálfu flm. að verði að lögum 1991 miðað við að stjórnarandstaðan er höfð á fundum eftir miðnætti við að flytja sín mál.