Verslunaratvinna
Miðvikudaginn 19. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um verslunaratvinnu sem er á þskj. 801. Frv. er árangur af starfi nefndar sem skipuð var til þess að taka til endurskoðunar núgildandi lög um verslunaratvinnu sem eru nr. 41 frá árinu 1968.
    Á þeim 20 árum sem liðin eru frá því að þessi lög voru sett hafa, eins og okkur er öllum ljóst, orðið miklar breytingar í verslunarstarfseminni og svo miklar að nauðsyn var orðin á heildarendurskoðun þeirra laga. Jafnframt hefur einnig á þessu árabili vaxið fram venjubundin framkvæmd við beitingu á ýmsum undanþáguheimildum sem felast í núgildandi lögum. Það var því orðið mikilvægt að festa í löggjöfina þau raunverulegu skilyrði sem krafist hefur verið til þess að menn geti fengið verslunarleyfi og spara þannig ýmiss konar skriffinnsku vegna útgáfu á verslunarleyfum.
    Nefndin sem samdi frv. var skipuð hinn 27. apríl 1987 af þáv. viðskrh. Matthíasi Bjarnasyni. Í nefndinni sátu fulltrúar frá Félagi ísl. stórkaupmanna, frá Kaupmannasamtökum Íslands, frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, frá Neytendasamtökunum og svo formaður nefndarinnar sem skipaður var af viðskrh. Þetta frv. sem hér liggur fyrir hv. Nd. er í meginatriðum eins og nefndin skilaði því til ráðherra en það var á sl. hausti, nema hvað 20. gr. frv. hefur verið bætt inn í þetta frv. en það er í fullkomnu samræmi við tillögur nefndarinnar. Þetta er í IV. kafla frv. sem fjallar um ,,frjáls uppboð`` eins og það er nefnt.
    Meginbreytingarnar sem frv. felur í sér er að grundvallarskilyrði þess að einstaklingar og lögaðilar geti leyst til sín verslunarleyfi verður framvegis að um sé að ræða skráðan atvinnurekstur í firmaskrá. Jafnframt er lagt til að verslunarleyfunum verði skipt í félagsbundin leyfi annars vegar og einstaklingsbundin leyfi hins vegar eða að leyfin veiti það sem kallað er ,,full verslunarréttindi``, þ.e. að leyfið nái jafnt til smásöluverslunar sem heild- og umboðssöluverslunar. Það er því lagt til að fallið verði frá núgildandi fyrirkomulagi en samkvæmt því er krafist sérstaks leyfis eftir því um hvers konar verslunarrekstur er að ræða. Það er ljóst að slík aðgreining hefur alls ekki lengur sömu þýðingu og áður og mörkin á milli smásöluverslunar og heildverslunar eru orðin miklu óljósari en áður var, ,,fljótandi`` eins og oft er sagt. Það er því eðlilegt að verslunarleyfin verði eins konar og veiti full verslunarréttindi nema aðrar takmarkanir séu settar með lögum.
    Í I. kafla frv. er að finna almenn ákvæði sem marka m.a. lögunum gildissvið. Í II. kafla frv. er jafnframt fallið frá þeirri stefnu að í núgildandi lögum er ákveðið að lögbinda réttinn til verslunarleyfis við tiltekin menntunarskilyrði. Það verður að telja að þessi ákvæði hafi ekki lengur rauverulegt gildi vegna þeirrar framkvæmdar sem lengi hefur tíðkast, að veita mjög almennar og víðtækar undanþágur frá þessum menntunarskilyrðum. Hér er því lagt til að almennt verði fallið frá slíkri kröfu. Í II. kafla frv. eru hins

vegar settar ýmsar almennar reglur sem einstaklingar og félög þurfa að uppfylla til að geta leyst til sín verslunarleyfi og þau skilyrði verður að telja raunhæf.
    Auðvitað er með þessu alls ekki verið að segja að góð almenn menntun þeirra sem fást við verslunaratvinnu sé ekki eftir sem áður mjög mikilvæg og auðvitað mun slík menntun og undirbúningur ráða miklu um það hvernig verslunaraðilum tekst að standast þá samkeppni sem ríkir yfirleitt í þessari atvinnugrein.
    Í III. kafla frv. eru ákvæði um útgáfu verslunarleyfa og skráningu þeirra sem fram skal fara hjá firmaskrárritara eða hlutafélagaskrá. Það er gert ráð fyrir að verslunarréttindaskrá sú sem þessir aðilar halda samkvæmt ákvæðum frv. verði tölvufært þannig að greiður aðgangur verði að henni og hún geti með því móti sinnt sem best þörfum viðskiptalífsins. Þá er lagt til að ávallt verði sýnt á starfsstöð hverrar verslunar hver sé rétthafi verslunarleyfisins vegna þess verslunarreksturs sem þar fer fram, en slík ákvæði eru náttúrlega fyrst og fremst til hagsbóta fyrir neytendur og aðra viðskiptavini verslunarinnar sem geta þá séð hver er ábyrgur fyrir rekstrinum.
    Í IV. kafla frv. eru nokkur nýmæli varðandi smásöluverslun utan fastra starfsstöðva eða um svonefnda farandsölu. Í frv. er lagt til að sveitarstjórnir á hverjum stað geti sett almennar reglur um slíka sölustarfsemi, enda standi ákvæði laga því ekki í vegi og slíkar reglur hljóti staðfestingu ráðherra. Samkvæmt gildandi lögum er það háð mati lögreglustjóra í hverju umdæmi hvort farandsala er leyfð en eðlilegra þykir að sveitarstjórnir kveði á um slíkt með almennum samþykktum ef þörf er talin fyrir slíkar reglur.
    Í V. kafla frv. er svo gert ráð fyrir þeirri nýbreytni að verslunarleyfishafar geti á eigin vegum efnt til frjáls uppboðshalds á lausafjármunum samkvæmt sérstöku leyfi í hvert skipti. Leyfum til uppboðshalds hefur um langt skeið verið þröngur stakkur skorinn og það hefur einungis verið heimilt opinberum uppboðshöldurum að halda slík uppboð. Þetta á þó ekki við um listaverkauppboð, en um þau uppboð og leyfisveitingar þeirra vegna gilda, eins
og kunnugt er, sérstök lög. Frjáls uppboð á ýmsum varningi er söluaðferð sem oft kann að vera heppilegur kostur fyrir seljendur og kaupendur og til þess fallinn að stuðla að aukinni fjölbreytni í verslunarstarfseminni. Telja verður að þau ákvæði í tilskipun frá 16. des. árið 1693 er gilt hafa um þessa söluaðferð eigi ekki lengur við og því rétt, samhliða setningu þeirra ákvæða sem hér er gerð tillaga um í V. kafla frv., að fella úr gildi ákvæði í þessari tilskipun frá árinu 1693 er standa í vegi fyrir því að fleiri en opinberir uppboðshaldarar annist þau uppboð sem frv. fjallar um.
    Í VI. og VII. kafla frv. eru svo ákvæði sem varða viðurlög við brotum og þar eru líka gildistökuákvæði sem ekki er þörf á að skýra frekar en þar er gert. Rétt er þó að nefna það úrræði frv. að séu skilyrði þau sem frv. gerir ráð fyrir að lögfest verði og varða

verslunarleyfin ekki uppfyllt kann það að varða missi á verslunarleyfinu. Þetta er mikilvægt ákvæði og þessu úrræði yrði unnt að beita samkvæmt kröfu viðskiptamanna eða samkvæmt sjálfstæðri ákvörðun firmaskrárritara. Það er að mínu áliti mjög mikilvægt að það verði kannað vandlega hvort þau viðurlög að svipta starfsleyfi komi til greina í ýmsum fjárhagsbrotamálum, skattsvikamálum og öðrum slíkum málum og er nú reyndar fjallað um það á vegum bæði dómsm.- og viðskrn. og mætti líta á þetta í því ljósi.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lýst meginatriðum þessa frv. til nýrra laga um verslunaratvinnu og ætla ekki að orðlengja frekar um frv.
    Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.