Innflutningur búfjár
Miðvikudaginn 19. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um innflutning búfjár, 411. mál Ed. á þskj. 771. Þetta frv. er ekki mikið að vöxtum. Það felur í sér að við 19. gr. laganna bætist ný málsgr., er verði 7. málsgr., svohljóðandi:
    ,,Landbúnaðarráðherra getur, að fengnu samþykki yfirdýralæknis, heimilað að flytja fósturvísa (frjóvguð egg eða fóstur á frumstigi) úr kúm í Sóttvarnastöð ríkisins í Hrísey í kýr í landi.``
    2. gr. frv. hljóðar svo: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Svo háttar til að yfir hefur staðið heildarendurskoðun laganna um innflutning búfjár og drög að endurskoðuðum lögum liggja nú fyrir í landbrn. í frumvarpsformi. Þar er hins vegar um allviðamikinn málaflokk og vandasama lagasetningu að ræða og hefur orðið að ráði að vinna það frv. betur og leggja fyrir Alþingi hið næsta.
    Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í Sóttvarnastöð ríkisins í Hrísey, þar sem senn lýkur einangrun holdanautastofnsins og nauðsynlegt er að fara að huga að framræktun stofnsins í landi og ljúka einangrunardvölinni fyrir þann stofn sem þar er nú, gæti reynt á það lagaákvæði sem hér er flutt frv. um og jafnvel þegar á þessu ári. Þess vegna væri æskilegt að fá þessa lagaheimild því í eldri lögum fyrirfinnst ekki heimild til að flytja erfðaefni stofnsins úr Hrísey í land með þessum hætti af þeirri einföldu ástæðu að sú tækni sem hér er á ferðinni hafði ekki rutt sér til rúms þegar lögin um innflutning búfjár voru síðast endurskoðuð. Hér er því um einfalt atriði að ræða sem gæti flýtt fyrir því að einangrun stofnsins í Hrísey lyki jafnvel eftir eitt ár ef frv. þetta nær að verða að lögum á yfirstandandi þingi.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.