Aðalnámsskrá fyrir grunnskóla
Föstudaginn 21. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta og þingflokkunum fyrir að fallast á beiðni mína um að þetta mál yrði tekið hér fyrir á þessum degi, einnig skýrslubeiðanda, hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni.
    Ég mun í framsögu um þetta mál víkja fyrst að aðdraganda þess, síðan að nokkrum breytingartillögum og niðurstöðum sem nú liggja fyrir í skólaþróunardeild menntmrn., gera grein fyrir stöðunni nú og loks nokkrum almennum áhersluatriðum.
    Á þskj. 84 lögðu hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson o.fl. þingmenn Sjálfstfl. fram beiðni til menntmrh. um skýrslu um undirbúning og efni aðalnámsskrár grunnskóla. Þegar skýrslubeiðnin lá fyrir fór ég þess á leit við skólaþróunardeild menntmrn. að hún tæki saman texta í skýrslu og sá texti er birtur á því þingskjali sem hér er til umræðu og hann geri ég að mínum orðum.
    Í grunnskólalögum er gert ráð fyrir að menntmrn. gefi aðalnámsskrá grunnskóla út ekki sjaldnar en fimmta hvert ár. Námsskráin sem nú er í gildi er frá árunum 1976 og 1977. Hún var gefin út í smáheftum sem hvert um sig fjallaði um eina námsgrein eða skyldar greinar. Auk þess var svonefndur almennur hluti gefinn út í sérhefti. Námsskrár í stærðfræði og líffræði voru ekki gefnar út um leið og aðalnámsskráin 1976.
    Með aðalnámsskrá grunnskóla 1976 má segja að skilningur manna á orðinu námsskrá hafi breyst. Í grunnskólalögum frá 1974 er talað um aðalnámsskrár sem gefur í skyn að um fleiri námsskrár geti verið að ræða. Í öðru lagi breytast áherslur með þessari námsskrá. Mun meiri áhersla er lögð á markmiðin og marklýsingar en áður og dregið úr nákvæmum fyrirmælum um námsefni.
    Í þriðja lagi er sérstaklega fjallað um almenn markmið sem sameiginleg eru öllum námsgreinum eða sinna þarf utan venjulegrar kennslu og í fjórða lagi eru þar fyrirmæli um hvernig skuli kennt og hvernig skólastarfið skuli skipulagt.
    Aðalnámsskráin frá 1976 og 1977 átti að koma út endurskoðuð 1981--1982 samkvæmt lögunum en ekki varð af því heldur var ákveðið að hún skyldi halda gildi sínu óbreytt áfram. Árið 1983 voru gefin út drög að almennum hluta aðalnámsskrár. Á þeim tíma var gert ráð fyrir almennum hluta aðalnámsskrár í einu hefti og að námsskrá hverrar greinar yrði gefin út sem sérhefti. Í þessum drögum að almennum hluta aðalnámsskrár var fjallað mjög ítarlega um kennslu og kennsluaðferðir. Drögin voru send fjölmörgum aðilum til kynningar og umsagnar, m.a. í hvern grunnskóla og til alþm. Tiltölulega fáar umsagnir bárust þá.
    Þegar að því kom að lagfæra námsskrárdrögin á grundvelli umsagna sem borist höfðu kom upp sú staða að menntmrh. féllst ekki á veigamikil stefnuatriði og áherslur í drögunum. Þess vegna og í framhaldi af því má segja að málið hafi legið niðri um nokkurt skeið eða allt til ársins 1986 að skriður komst á málið þegar menntmrh. fól starfsfólki skólaþróunardeildar menntmrn. að semja ný drög að

aðalnámsskrá fyrir grunnskóla. Sá háttur var hafður á að fá starfshóp til að semja kafla um hverja námsgrein undir stjórn viðkomandi námsstjóra. Í starfshópunum voru starfandi kennarar og sérfræðingar í viðkomandi grein. Almenni hlutinn var í raun saminn að nýju af starfsfólki deildarinnar. Nýju uppkasti að aðalnámsskránni í heild var svo skilað til ráðherra 24. ágúst 1987. Þá var m.a. lagt til að aðalnámsskráin yrði gefin út í einni bók í stað smáhefta fyrir hverja námsgrein og send til umsagnar á nýjan leik.
    Næsti áfangi verksins var að lagfæra nokkur atriði sem ráðherra gerði athugasemdir við og taldi að leggja þyrfti áherslu á og koma bókinni í umsagnarútgáfu. Til að hafa yfirumsjón með því verki setti ráðherra sérstaka ritnefnd sem hafði m.a. það hlutverk að samræma framsetningu og skera úr um ágreiningsefni. Í ritnefndinni voru aðstoðarmaður ráðherra, skrifstofustjóri skólamálaskrifstofu og deildarstjóri skólaþróunardeildar menntmrn.
    Ný drög að aðalnámsskrá voru síðan gefin út í umsagnarútgáfu í júlí 1988. Þar var lögð áhersla á nokkur veigamikil atriði. Sum þeirra urðu ágreiningsefni og tilefni umræðu og athugasemda.
    Hinn 2. ágúst 1988 voru þessi drög send fjölmörgum aðilum til umsagnar. Umsagnarfrestur var til ágústloka en var síðan framlengdur. Mikil umræða fór fram um drögin að aðalnámsskrá á tímabilinu frá septemberbyrjun sl. og fram í miðjan október 1988 og telur starfsfólk skólaþróunardeildar að um 1800 kennarar og annað starfsfólk skólanna hafi tekið þátt í þessum umræðum sem fram fóru í öllum fræðsluumdæmum á tímabilinu 1. sept. og fram í miðjan október 1988.
    Á kynningarfundum þessum fór fram málefnaleg umræða og gagnleg um málin og fram komu ýmsar ábendingar um margt sem betur mátti fara, viss áhersluatriði voru gagnrýnd en öðru var fagnað. Um miðjan október, þegar hefðbundnum haustþingum kennara lauk, lágu fyrir miklar og gagnlegar upplýsingar, bæði í skriflegum umsögnum og í samantekt af umræðum á haustþingum og á fundum með aðilum.
    Þegar ég kom í menntmrn. seint í september 1988 og fyrstu dagana í október 1988 átti ég viðræður við starfslið skólaþróunardeildar um þessi mál og starfsfólk skólaþróunardeildarinnar vann úr þeim gögnum sem komin voru og
úrvinnslunni var skilað til mín 1. nóv. 1988. Þessari greinargerð skólaþróunardeildar fylgdu ítarlegar tillögur um lausn á ágreiningsefnum og tillögur um lagfæringar á drögunum í ljósi undangenginnar umræðu. Var þá miðað við og lögð á það áhersla af minni hálfu og af hálfu skólaþróunardeildar að ná sem bestri sátt um aðalnámsskrána í heild og tekið tillit til þeirra ábendinga sem fram komu í skriflegum umsögnum og umræðum, einkum meðal kennara.
    Við úrvinnsluna kom í ljós að skiptar skoðanir voru um ýmis grundvallaratriði og áherslur og snerist umræðan einkum um níu álitamál sem óhjákvæmilegt reyndist að taka til meðferðar áður en ný námsskrá

yrði staðfest og gefin út.
1. Er aðalnámsskrá reglugerð eða leiðbeiningarrit?
2. Er rétt að taka af skarið um ákveðna kennsluhætti í aðalnámsskrá og lýsa þar dæmum um kennsluaðferðir?
3. Skilgreining á hugtakinu ,,fræðsla`` og áhersla á fræðsluhlutverk grunnskóla. Er munur á fræðsluhlutverki skóla og uppeldishlutverki skóla?
4. Foreldrar, vald þeirra og skyldur. Hver er hlutur skóla í uppeldi og mótun? Hve mikil áhrif geta foreldrar haft eða eiga að hafa á skólastarf?
5. Blöndun --- röðun í bekki og námshópa. Á námsskrá að taka af skarið eða skólastjórar og kennarar?
6. Námsmat --- ein eða tvær viðmiðanir? Er rétt að aðalnámsskrá mæli gegn samanburði við aðra?
7. Er tímabært að skylda skóla til að gera starfsáætlanir/skólanámsskrár? Er gerð skólanámsskrár innifalin í vinnutíma kennara?
8. Er rétt að fella viðmiðunarstundaskrá inn í aðalnámsskrá?
9. Á aðalnámsskrá að heimila undanþágur frá skyldunámi í einstökum greinum?
    Þetta voru þau álitamál sem upp komu varðandi vinnuna við aðalnámsskrá í menntmrn. og í framhaldi af því að starfsmenn skólaþróunardeildar gerðu mér grein fyrir þessum málum skipaði ég samráðshóp sem átti að starfa með skólaþróunardeildinni við að yfirfara drögin frá júlí 1988. Í skipunarbréfi þessa starfshóps var tekið fram að hópnum væri ætlað að vinna með starfsfólki skólaþróunardeildar að lagfæringum á drögum að aðalnámsskrá og fylgjast með framgangi verksins. Einnig var hópnum ætlað að fjalla um álitamál, m.a. þau sem ég taldi hér áðan, sem komið hafa upp í umræðum og umsögnum um drögin og gera tillögur um lausn á álitamálum.
    Í samráðshópnum voru tveir fulltrúar frá Bandalagi kennarafélaga, fulltrúi frá Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Félagi skólastjóra og yfirkennara, fræðslustjórum og þar voru einnig tveir fulltrúar frá foreldrafélögum, einn frá foreldrafélagi grunnskóla í þéttbýli og einn frá foreldrafélagi grunnskóla í dreifbýli.
    Margir fundir og ítarlegir voru haldnir um þessi mál. Þar voru álitamálin ítarlega rædd og þar komu fram ábendingar og tillögur um breytingar.
    Samstarfshópurinn kom athugasemdum sínum einnig á framfæri milli funda. Starfsfólk skólaþróunardeildar lagfærði texta, samdi á ný og bætti við nýjum textum jafnharðan. Reynt var til hins ýtrasta að koma til móts við sem flest sjónarmið og ná sem allra víðtækastri samstöðu um lokagerð aðalnámsskrár grunnskóla.
    Í öllum meginatriðum féllust fulltrúar samráðsaðila á tillögur skólaþróunardeildar um það hvernig unnt væri að leysa áðurnefnd álitamál. Við lagfæringar á drögunum var reynt að færa umfjöllun um þau til þess horfs sem flestir gætu sætt sig við. Samkomulag varð um það hvernig yrði tekið á þessum tilteknu álitamálum í vinnunni sjálfri og það tel ég í raun og

veru það allra mikilvægasta, virðulegur forseti, að undirstrika í þessari umræðu, að það varð samstaða í skólaþróunardeildinni og við samráðshópinn um úrlausn allra þeirra álitamála sem helst voru talin geta staðið í vegi þess að um aðalnámsskrána næðist samstaða, heildarsamstaða ekki aðeins í þessum hópum, heldur einnig úti í hinum almenna skóla í landinu.
    Í fyrsta lagi varð samstaða um að líta á meginmarkmið, megininntak og grundvallaratriði varðandi kennslu, námsmat og aðstöðu sem ,,bindandi starfsramma``, eins og það er kallað í drögunum sem ég dreifði hér fyrir nokkru til hv. alþm., en aðra þætti sem skýringar og ábendingar.
    Í öðru lagi varð samkomulag um að líta á þær kennsluaðferðir sem öðrum fremur stuðla að því að ná meginmarkmiðum, sbr. 2. gr. grunnskólalaga, sem bindandi viðmiðun, þ.e. með öðrum orðum, það sem er bindandi í þessum efnum eru auðvitað stjórnarskrá landsins og lög landsins. Á því á textinn að byggjast.
    Í þriðja lagi varð samkomulag um að skilja ekki í sundur fræðslu og uppeldi, heldur fella hvort tveggja undir umfjöllun um menntun.
    Í fjórða lagi varð samkomulag um að skýra betur og leggja áherslu á uppeldisskyldur og uppeldisrétt foreldra. Ekki þótti unnt að draga mjög skarpar línur á mörkum heimila og skóla.
    Í fimmta lagi varð samkomulag um að setja fram skýr tilmæli um að skipa nemendum með mismikla námsgetu saman í bekki.
    Í sjötta lagi varð samkomulag um að draga verulega úr áherslu á samanburð við aðra nemendur þegar árangur er metinn og leggja þunga á þann tilgang námsmats að vera leiðsögn og örvun í námi.
    Í sjöunda lagi var samstaða um að mæla eindregið með því að hver skóli geri ítarlegar starfsáætlanir og skólanámsskrár.
    Í áttunda lagi varð samstaða um að fjalla almennt um skiptingu tíma milli námsgreina en ætla ákvörðunum um hlutföll milli námsgreina og námssviða stað í sérstakri auglýsingu.
    Í níunda lagi varð samstaða um að gera ráð fyrir undanþágum frá skyldunámi, t.d. á trúarlegum eða siðfræðilegum forsendum, í samræmi við uppeldisrétt foreldra. Hvatt er til þess að skýrar reglur verði settar um undanþágur og að réttur nemenda til menntunar sé virtur með því að sjá þeim fyrir sambærilegum tækifærum til menntunar og þroska.
    Í raun og veru er mjög erfitt að bera saman annars vegar drögin sem send voru út í júlí 1988 og hins vegar drögin eins og þau liggja nú fyrir. Þó má nefna þar nokkur atriði sem hafa í raun og veru komið fram þegar í þeirri upptalningu á því sem full samstaða er um. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til þess að fara út í þann samanburð í einstökum atriðum nema sérstök tilefni gefist til hér í umræðunni.
    Þegar skólaþróunardeildin og samráðsnefndin lögðu þessar tillögur fyrir menntmrh. fylgdi m.a. bréf frá Bandalagi kennarafélaga um afstöðuna til aðalnámsskrár sem ég tel rétt að lesa hér, virðulegi

forseti.
    ,,Nú þegar skólaþróunardeild menntmrn. og samvinnunefnd um aðalnámsskrá grunnskóla hefur lokið störfum vilja fulltrúar Bandalags kennarafélaga í nefndinni taka fram eftirfarandi:
    Bandalag kennarafélaga þakkar þann skilning sem fram hefur komið gagnvart athugasemdum og ábendingum kennarasamtakanna við fyrstu drög endurskoðaðrar aðalnámsskrár frá 1976 er þau komu til umsagnar sl. haust. Fulltrúar Bandalags kennarafélaga fagna því að í samstarfinu sem nú er að ljúka hafa verið teknar til greina athugasemdir Bandalags kennarafélaga við þau álitamál sem fyrir lágu þegar starfið hófst 2. des. sl.
    Í umræðum og starfi samstarfshópsins hafa óhjákvæmilega komið upp ýmis ný álitamál sem ekki hefur unnist tími til að fjalla um og leiða til lykta. Bandalag kennarafélaga leggur áherslu á að við næstu endurskoðun aðalnámsskrár verði haft samráð við samtök kennara og m.a. tekið á þeim málum. Bandalag kennarafélaga væntir þess að við endanlega útgáfu þessarar aðalnámsskrár reynist unnt að láta fylgja atriðisorðaskrá og orðskýringar eða að öðrum kosti að slíkt verði gefið út sem fylgirit síðar.
    Með aðalnámsskrá fyrir grunnskóla marka stjórnvöld stefnu um nám og starf í grunnskólum landsins. Fulltrúar Bandalags kennarafélaga vilja ítreka að til þess að stefnumörkun námsskrárinnar verði ekki orðin tóm og að unnt verði að byggja upp skólastarf í samræmi við þær kröfur sem fram eru settar í fyrirliggjandi drögum verður m.a. að fækka nemendum í fjölmennum bekkjardeildum, efla og bæta grunnmenntun og endurmenntum kennara, efla og styrkja starfsemi Námsgagnastofnunar, auka tíma til kennslu, koma á samfelldum skóladegi og einsetnum skóla.
    Það er því ljóst að eigi skólastarf að vera í samræmi við þá stefnu sem sett er fram í drögum að aðalnámsskrá grunnskóla verður að auka verulega fjármagn til skólastarfs í landinu.``
    Þetta var umsögn Bandalags kennarafélaga um aðalnámsskrána frá 6. mars 1989.
    Þegar ég fékk aðalnámsskrána í hendur fór ég að sjálfsögðu yfir efni hennar og eftir þá yfirferð hafa verið gerðar örfáar breytingar á ýmsum köflum námsskrárinnar. Meginhlutinn af því eru orðalagsbreytingar og lagfæringar af slíku tagi, en að auki er um að ræða eftirfarandi atriði sem ég sendi frá mér til skólaþróunardeildar í tillöguformi og skólaþróunardeild féllst á mínar tillögur í flestum atriðum en ekki öllum en í raun og veru í öllum meginefnisatriðum.
    Í fyrsta lagi er sú breyting að inn í almenna kaflann, kafla 2, er bætt tilvitnun í stjórnarskrá lýðveldisins um trúfrelsi hér á landi og stöðu þjóðkirkjunnar samkvæmt stjórnarskránni. Mér fannst ástæða til að festa þau atriði sem í stjórnarskránni eru um þessi mál inni í aðalnámsskránni þannig að þar færi ekkert á milli mála, hvorki að því er varðar trúfrelsi né heldur að því er varðar stöðu

þjóðkirkjunnar samkvæmt stjórnarskránni.
    Í öðru lagi var ákveðið að fara þess á leit við prófessora í guðfræðideild Háskóla Íslands að lesa yfir kaflann um kristin fræði. Prófessor Jón Sveinbjörnsson gaf umsögn um þennan kafla og hann lagði til að meiri áhersla yrði lögð á lestur Biblíunnar í bókmenntalegum skilningi. Þetta þýðir í raun og veru meiri áherslu á biblíusögur í skólum en kaflinn í drögunum gerir ráð fyrir og hefur sú ábending verið tekin inn í drögin eins og þau líta út nú.
    Í þriðja lagi fór ég fram á það við Eirík Rögnvaldsson cand. mag. að hann læsi sérstaklega yfir kaflann um íslenskunám og hann gerði það og gerði ekki sérstakar efnislegar breytingartillögur við hann.
    Í fjórða lagi fór ég þess á leit við Eirík Rögnvaldsson cand. mag. að hann læsi yfir almenna hlutann og íslenskukaflann og lagfærði málfar og framsetningu. Baldur Hafstað íslenskukennari í Kennaraháskóla Íslands las öll drögin yfir og leiðrétti áður en þau voru gefin út sem fylgiskjal með skýrslu til Alþingis.
    Í fimmta lagi var gerð örlítil breyting á kaflanum um jafnréttisfræðslu. Kaflinn var lagfærður og meiri áhersla lögð á jafnrétti í starfsfræðslu. Það á að vera betur tryggt að starfsfræðsla geri stúlkum og drengjum og karla- og kvennastörfum jafnhátt undir höfði.
    Í sjötta lagi var skerpt áhersla á Íslandssögu með því að færa hana framar í upptalningum í köflunum um samfélagsfræðikennslu.
    Í sjöunda lagi var ákveðið að semja atriðisorðaskrá. Tilvísanir þar um verða inni í textanum og vísa til atriðisorðaskrár sem mun fylgja gagninu að lokum.
    Í áttunda lagi var ákveðið að færa sund inn í viðmiðunarstundaskrá sem hluta af skólaíþróttunum.
    Í níunda lagi, að því er varðar viðmiðunarstundaskrá, þá er ljóst að hún verður óbreytt í eitt ár til viðbótar. Hún verður gefin út endurskoðuð um næstu áramót og rökin eru fyrst og fremst þessi: Við viljum koma námsskránni út og hefja umræðu um 19. kafla námsskrárinnar en á henni byggist tímaskipting og áherslur á einstakar greinar.
    Við útgáfu aðalnámsskrárinnar mun ég skrifa formála og drög að honum eru á þessa leið, með leyfi forseta:
    Þegar barnið gengur fyrst í skóla verða kaflaskipti í lífi þess. Mörg börn hafa að vísu verið í gæslu áður á dagheimilum eða hjá dagmæðrum en í skólanum birtist aðili sem hefur áhrif á lífsviðhorf barna í 10 ár a.m.k., kannski mikið lengur. Skólinn er því einn þýðingarmesti starfsvettvangur samfélags okkar. Skólinn er allt í senn: Uppeldisstaður og leikstaður, atvinnulíf og mannlíf. Það skiptir öllu máli að vel sé gert við börnin í skólanum. Til þess að svo megi verða þarf skólinn að vera lifandi hluti af umhverfi sínu og starfið í skólanum þarf að geisla frá sér lífi til umhverfisins. Skóli án tengsla við veruleika barnsins er enginn skóli eða í besta lagi vondur skóli.
    Í skólanum þarf að útbúa börnin fyrir framtíðina. Þar þarf að opna hugi þeirra, stuðla að sjálfstæðri hugsun og sjálfstæðum vinnubrögðum þannig að þau

verði fær um að glíma við dagleg viðfangsefni, fær um að líta vítt yfir sviðið og loks fær um að miðla öðrum af reynslu sinni.
    Aðalnámsskrá grunnskóla er mikilvægt skjal. Hún á að hjálpa kennurum og foreldrum til þess að átta sig á heildarsamhengi skólastarfsins. Aðalnámsskráin getur þannig verið eins konar vinnubók kennara og ætlunin er reyndar að þeirri hugsun verði fylgt eftir í verki með útgáfu handbóka um þau efni sem aðalnámsskráin tekur fyrir.
    Aðalnámsskráin byggist í fyrsta lagi á lögum landsins og stjórnarskrá, í annan stað á þeirri reynslu sem fengist hefur í skólanum á undanförnum árum og áratugum. Í þriðja lagi er reynt eins og kostur er að taka tillit til umhverfisins bæði hér heima og erlendis.
    Aðalnámsskrá grunnskóla verður aldrei endanleg bók. Hún þarf stöðugt að vera í endurskoðun. Um leið og þessi námsskrá er gefin út er t.d. ætlunin að hefja þegar athugun á ýmsum þáttum hennar áfram. Þannig á námsskráin að vera í senn grundvöllur undir starfi í dag en um leið verður að opna framtíðinni veg inn í námsskrána með skipulegum hætti. Þessi námsskrá tekur við af námsskránni frá 1976.
    Starfsfólk skólaþróunardeildar menntmrn. hefur unnið mikið verk og gott, oft reyndar við afar erfiðar aðstæður. Sl. haust var svo ákveðið að kalla til samstarfsnefnd sem var skipuð fulltrúum foreldra, kennarasamtaka Háskólans og Kennaraháskólans. Þannig hefur verið reynt að opna fyrir flest sjónarmið til þess að undirstrika strax í vinnunni þann lýðræðislega grundvöll sem námsskráin byggir á. Námsskráin er sett með auglýsingu og hefur því samkvæmt grunnskólalögum og venjum reglugerðargildi en hún er óvenjuleg reglugerð vegna þess að menntmrh. hefur kosið að fela samstarfsnefndinni og skólaþróunardeildinni úrslitatrúnað við afgreiðslu allra helstu ágreiningsmála. Þetta er gert til þess að leggja áherslu á faglegan grunn námsskrárinnar og um leið til þess að fjarlægja hið pólitíska framkvæmdarvald svo sem kostur er þó ráðherra beri ábyrgð á vinnunni á útgáfu reglugerðarinnar að lokum svo sem venja er. Vonandi verður þessi afstaða leiðarljós við smíði námsskrárinnar framvegis.
    Það á að vera stöðugt verkefni fræðsluyfirvalda að tryggja sem allra bestan frið um íslenska skóla og leggja áherslu á að leita að samnefnara sem flestir geta unað við. Það á að vera þjóðarsamstaða um skólann og námsskráin ber þess vitni. Þar er lögð áhersla á að sætta mörg ólík sjónarmið. Það má aldrei gerast að samningur þjóðarinnar og fræðsluyfirvalda verði rofinn í þágu þröngra sérsjónarmiða.
    Þetta voru drög að inngangi að aðalnámsskrá sem ætlunin er að menntmrh. skrifi.
    Ég vil kannski geta þess að lokum að það var eitt atriði sérstaklega sem ég lagði áherslu á og átti nokkrar viðræður við skrifstofustjóra skólaþróunardeildar um og það snertir uppsetningu á skyldum skólans gagnvart samfélaginu sem kemur nokkuð víða fram. Þar er í textanum, t.d. á bls. 12,

talað um skyldur við ríkið. Ég óskaði eftir því við starfslið skólaþróunardeildar að þetta yrði fellt niður og í staðinn yrði talað um skyldur við einstakling og samfélag. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt atriði að draga hér fram við þessa umræðu, þannig að ég dragi ekkert undan af því sem okkur hefur farið á milli, mér og starfsliði skólaþróunardeildarinnar.
    Ég tel, virðulegi forseti, að ég hafi þá gert grein fyrir meginatriðum þessa máls. Ef menn fletta þeim drögum að aðalnámsskrá sem hér liggja fyrir er auðvitað fjölda fjöldamargt þar sem væri ástæða til að ræða almennt hér. Ég bendi t.d. á 17. kaflann, Aðrir námsþættir, þar sem fjallað er um almenn mannréttindi, félagsmál í skólum, fíknivarnir og ýmsa fleiri mikilvæga þætti, jafnréttisfræðslu, umferðarfræðslu og umhverfisfræðslu, um tölvur í grunnskólum og fleira. Og ég bendi einnig á 18. kaflann sem er mjög mikilvægur kafli. Hann er um skipulag og samvinnu í skólastarfi þar sem fjallað er um hlutverk skólastjórnenda, hlutverk kennara, umsjónarkennara, námsráðgjöf sem hlýtur að verða vaxandi þáttur í þróun skólans á komandi árum, skólanámsskrá sem ætlunin er að undirbúa og þarf auðvitað að verða til, skólanámsskrá fyrir hvern einasta skóla, skólaþróun, samvinnu nemenda, samvinnu heimila og skóla sem er mjög veigamikill þáttur í þessum drögum að aðalnámsskrá sem hér liggja fyrir, og samvinnu við foreldra sem skiptir mjög miklu máli en þar erum við í raun og veru m.a. auðvitað bundin eins og annars staðar af grunnskólalögunum þar sem á takmarkaðan hátt er fjallað um þátt foreldranna í skólastarfi, of takmarkaðan að mínu mati. Síðan er kafli hér undir 18. kafla sem fjallar um skóla- og heimabyggð sem er mjög mikilvægur kafli að mínu mati þar sem tekið er á þeim málum sem lúta að stöðu nemandans, barnsins, unglingsins, í sínu nánasta umhverfi og að námsefni verði ekki með þeim hætti eða kennsla að það stuðli að því að slíta þær rætur sem nemandinn í grunnskólanum á við sitt nánasta umhverfi.
    Um einstaka aðra kafla mætti út af fyrir sig ýmislegt segja en ég ætla að vísa til þess almenna sem ég hef sagt um það efni og segja það að lokum að ég tel að það sé mjög mikilvægt að það hefur tekist samkomulag við hlutaðeigandi aðila um útgáfu á þessari aðalnámsskrá. Margt í þessum textum er öðruvísi en einstakir aðilar í þessu verki hefðu viljað sjá. Víða ber textinn þess merki að hér er verið að ná saman mjög ólíkum sjónarmiðum. En um þetta gagn, sem við getum kallað eins konar mannréttindaskrá nemenda í grunnskólum, á að vera þjóðarsamstaða. Annars gerir það ekki það gagn sem aðalnámsskráin á að gera.