Aðalnámsskrá fyrir grunnskóla
Föstudaginn 21. apríl 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. þá skriflegu greinargerð sem hann hefur lagt hér fram og flutt hér framsöguræðu fyrir nú í þessari umræðu hér í dag.
    Þegar núv. hæstv. menntmrh. tók við embætti lýsti hann nánast stríði á hendur því starfi sem unnið hafði verið í menntmrn. til undirbúnings aðalnámsskrá grunnskóla. Fann hann því starfi flest til foráttu og hefur raunar gert svo með ákveðnu millibili, allt fram á þennan dag. Síðast í Þjóðviljanum þann 8. mars sl. mátti lesa eftirfarandi haft eftir hæstv. menntmrh., með leyfi forseta:
    ,,Drög að aðalnámsskrá grunnskóla liggja nú á borði menntmrh. sem hyggst gefa þau út fyrir mánaðarlok svo að þau verði lögð til grundvallar í skólastarfi á ári komanda. Þetta kom fram í máli Svavars Gestssonar menntmrh. á Alþingi í fyrradag. Í samtali við Þjóðviljann sagði hann nýja aðalnámsskrá lengi hafa verið í deiglunni og eitt helsta bitbein manna í skólaumræðu undanfarinna ára. Forverar hans í embætti menntmrh. hefðu farið offari í því máli. Hópur manna er vann að nýrri aðalnámsskrá hefði verið rekinn frá störfum haustið 1984 og síðan hefði málið verið í eins konar biðstöðu. Menntmrh. fyrri stjórnar, Birgir Ísleifur Gunnarsson, hefði síðan ætlað að þræla út aðalnámsskrá án nægilegs samráðs við samtök kennara og foreldra og nauðsynlegar skólastofnanir. Sjálfur hefði Svavar haft annan hátt á. Það hefði verið hans fyrsta verk í menntmrn. að fela fulltrúum kennara, foreldra, Háskólans og Kennaraháskólans, auk skólaþróunardeildar ráðuneytisins, að leggja drög að nýrri aðalnámsskrá grunnskóla. Þessi drög væru sem sé til reiðu nú og yrðu óbreytt að aðalnámsskrá grunnskóla.``
    Hér lýkur tilvitnun í þessa grein í Þjóðviljanum þann 8. mars sl. og þessi grein endurspeglar ummæli sem ráðherrann hefur viðhaft nánast frá fyrsta degi eftir að hann settist inn í menntmrn.
    Nú er það vitað að innan Alþb. eða í nánum tengslum við það hafa verið ýmsir sérvitringar í skólamálum, fólk sem gerst hefur málsvarar fyrir ýmsum tískustefnum í skólamálum sem hafa átt upptök sín hjá ýmsu róttæku fólki erlendis. Yfirlýsingar hæstv. menntmrh. vöktu því ugg margra og urðu m.a. tilefni til þess að ég, ásamt allmörgum þm. Sjálfstfl., óskaði eftir því á þskj. 84 að menntmrh. gæfi skýrslu um undirbúning og efni aðalnámsskrár fyrir grunnskóla og þessi skýrslubeiðni var orðuð svo, með leyfi forseta:
    ,,Á vegum menntmrn. hefur að undanförnu verið unnið að aðalnámsskrá grunnskóla. Fyrir liggur prentuð tillaga að námsskrá (júlí 1988) sem send var til umsagnar og athugunar ýmissa aðila. Núverandi menntmrh. hefur opinberlega gefið yfirlýsingu þess efnis að hann sé ósammála mikilvægum efnisatriðum tillögunnar. Nauðsynlegt er að fram fari opin umræða um slíkan ágreining áður en gengið er endanlega frá námsskrá. Með tilvísun til 30. gr. laga um þingsköp Alþingis er því óskað eftir því við menntmrh. að hann

gefi Alþingi ítarlega skýrslu um hvernig að undirbúningi námsskrár hefur verið staðið og hver séu þau meginatriði sem hann gerir að ágreiningsefni í þeirri tillögu að námsskrá sem nú liggur fyrir og hverjar séu tillögur hans í þeim efnum.
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á fundi í sameinuðu Alþingi þegar henni hefur verið útbýtt.``
    Þessi skýrslubeiðni var dagsett 2. nóv. 1988.
    Þessi skýrsla er nú hér til umræðu og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir henni í framsöguræðu hér á undan.
    Áður en ég ræði efni skýrslu hans og reyndar þau drög að aðalnámsskrá sem fylgdu skýrslunni og þingmönnum var afhent fyrir páska vil ég láta þess getið að þótt ekki hefði verið þessi aðdragandi að skýrslubeiðninni, þ.e. þessi undarlegi málflutningur hæstv. menntmrh., hefði ég talið mjög eðlilegt að óska eftir slíkri skýrslu því að aðalnámsskrá er svo stefnumarkandi um skólastarf og skólahald í landinu að nauðsynlegt er að fram fari opin, almenn umræða um slíka námsskrá áður en hún er sett.
    Áður en ég vík efnislega að skýrslu hæstv. ráðherra og þeim drögum að aðalnámsskrá grunnskóla sem hér liggja fyrir vil ég aðeins fara nokkrum orðum um málsmeðferð að gefnu tilefni.
    Þrátt fyrir fyrri orð hæstv. ráðherra um að þræla hafi átt út aðalnámsskrá án nægilegs samráðs við samtök kennara og foreldra og nauðsynlegar skólastofnanir svarar hann sjálfur þessari gagnrýni í þeirri skýrslu sem hann hefur lagt hér fram fyrir Alþingi. Í skýrslu hans er ítarlega rakin sú vandaða meðferð sem aðalnámsskrá grunnskóla hefur fengið í menntmrn. og er það fyrst og fremst að finna á bls. 2 og 3 í skýrslu hæstv. ráðherra.
    Þar er rakið hvernig starfsfólk skólaþróunardeildar vann í starfshópum með starfandi kennurum og sérfræðingum að undirbúningi einstakra kafla aðalnámsskrár en það starf leiddi til þess að ný drög að aðalnámsskrá voru gefin út í umsagnarútgáfu í júlí 1988. Þessi drög voru þann 2. ágúst 1988 send allmörgum aðilum til umsagnar. Eru þeir taldir upp í skýrslu ráðherrans. Þar er bæði um að ræða einstaka skóla, samtök kennara og fleiri aðila. Síðan segir
orðrétt í skýrslu hæstv. ráðherra:
    ,,Umsagnarfrestur var til ágústloka. Þegar umsagnarfresturinn rann út höfðu mjög fáar umsagnir borist. Skriflegar umsagnir og athugasemdir voru að berast fram í miðjan október.
    Ráðuneytið heimilaði að kennsla yrði felld niður í einn dag haustið 1988 og skyldi honum varið til þess að kynna námsskrárdrögin, ræða þá stefnumörkun sem þar kom fram og fá fram álit sem flestra skólamanna á henni. Skólaþróunardeild ráðuneytisins skipulagði þá umfjöllun í samráði við fræðslustjóra og stjórn kennarasambands hvers fræðsluumdæmis. Í flestum tilvikum var kynning á drögunum og umræða um þau felld að eða inn í svokölluð haustþing kennara. Lætur nærri að um 1800 kennarar og annað starfsfólk skóla hafi tekið þátt í þessum umræðum sem fram fóru í

öllum fræðsluumdæmum á tímabilinu 1. sept. og fram í miðjan október.
    Þar eð drögin í heild voru aðeins gefin út í mjög takmörkuðu upplagi lét ráðuneytið prenta kynningarbækling sem dreift var til allra þátttakenda á þingunum og notaður í umræðu. Bæklingurinn inniheldur allan almennan hluta draganna og útdrátt úr námsgreinaköflunum.
    Á kynningarfundum með kennurum fór víðast hvar fram málefnaleg og gagnleg umræða. Fram komu ábendingar um ýmislegt sem betur mátti fara, viss áhersluatriði voru gagnrýnd en öðrum fagnað.
    Um miðjan október, þegar hefðbundnum haustþingum kennara lauk, lágu fyrir miklar og gagnlegar upplýsingar, bæði í skriflegum umsögnum og í samantekt af umræðum af haustþingum og fundum með ýmsum aðilum.``
    Af þessu má sjá að sú kynning sem fram fór á námsskránni áður en hæstv. núv. menntmrh. settist í þetta sæti var mjög ítarleg og það gefur auðvitað auga leið að allar þær athugasemdir og ábendingar sem fram komu á þessum almennu kennarafundum um land allt gáfu tilefni til ýmissa lagfæringa sem auðvitað var meiningin að gera í menntmrn.
    Að þessu leyti voru vinnubrögð núv. hæstv. menntmrh. þegar hann tók við í engu frábrugðin því sem fyrirhugað hafði verið af minni hálfu í ráðuneytinu.
    Þetta þótti mér rétt að taka fram um vinnubrögð við undirbúning námsskrár til að svara þeim stóryrðum sem hæstv. ráðherra hefur víðs vegar á opinberum vettvangi látið sér um munn fara þegar hann hefur verið að fjalla um undirbúning aðalnámsskrár í menntmrn.
    Mér finnst sjálfsagt að geta þess hér einmitt vegna stóryrða hæstv. ráðherra að þessi skýrsla sem hann hefur hér lagt fram er rituð af hófsemi og hlutlægni og gerir, að vísu á stuttaralegan hátt, ágæta grein fyrir ýmsum helstu atriðum þess ágreinings um efni aðalnámsskrár í grunnskóla sem uppi hefur verið.
    Það vekur þó athygli að í skýrslunni er ekki getið um nokkrar mikilvægar efnislegar úrfellingar úr fyrri drögum. Þar af leiðandi er heldur engin skýring gefin á ástæðunum fyrir þessum úrfellingum og þau vinnubrögð í sambandi við skýrslugerð hæstv. ráðherra vil ég gagnrýna.
    Þegar ég tók við embætti menntmrh. sumarið 1987 lágu fyrir drög að nýrri aðalnámsskrá. Efnislega tóku þau mjög fram fyrri námsskrá, þ.e. 1976 og 1977, og fyrri drögum frá 1983. T.d. var samfélagsfræðin mjög breytt í samræmi við tillögur nefndar sem fór sérstaklega í saumana á þeirri námsgrein. Samt vantaði ýmislegt í drögin og eftir ítarlega yfirferð í menntmrn. var það sameiginleg niðurstaða að vinna enn frekar í þessu máli og leggja áherslu á nokkur atriði sem ég vil rekja nokkuð hér.
    1. Hafnað var þeirri stefnu sem áður var ríkjandi að menntmrn. fyrirskipaði í námsskrá ákveðnar aðferðir við nám og kennslu í skólum eða tæki þar afstöðu til ákveðinna sálfræðikenninga um nám og

þroska barna og unglinga. Ákveðið var að fela skólunum og kennurum fullt faglegt sjálfstæði. Aðalnámsskrá er fyrirmæli um meginefnisþætti kennslu og önnur mikilvægustu atriði skólastarfs, en það væri síðan verkefni einstakra skóla og kennara að ákveða skipulag skólastarfsins og aðferðir við kennslu. Slíkt gæti verið breytilegt innan skóla og milli skóla. Skólunum var ætlað að semja eigin skólanámsskrá á grundvelli aðalnámsskrár.
    2. Tekin voru af tvímæli um það að skólinn hefði mikilvægu fræðsluhlutverki að gegna, miðlun þekkingar væri eitt af stærstu verkefnum skólans en slík miðlun hlyti að vera í samræmi við nútímahugmyndir og kennslutækni. Jafnframt yrði að leggja áherslu á að nemendur væru ekki óvirkir móttakendur þekkingar heldur virkir aðilar sem yrðu einnig að geta leitað þekkingar á sjálfstæðan hátt og þjálfast í sjálfstæðum vinnubrögðum og ályktunum.
    3. Skýrt væri kveðið á um uppeldisábyrgð og uppeldisrétt foreldra og reynt að skýra í hverju uppeldisstarf í skólum væri fólgið. Þetta var talið mikilvægt fyrir bæði nemendur og foreldra og kennara en sem kunnugt er hefur mikið verið rætt um aukið uppeldishlutverk skólans án þess að skýrt komi fram í hverju þetta hlutverk væri fólgið né heldur hvernig gæta mætti þess að skólarnir færu ekki inn á vettvang fjölskyldna og heimila í þessu efni.
    4. Íslensk menning, menningararfur og bókmenntir, þjóðarsaga og tunga fengu aukið vægi. Í samfélagsfræði eða samfélagsgreinum var t.d. gert ráð fyrir því
að nemendur öðluðust yfirlitsþekkingu á sögu Íslendinga og kynntust uppruna og þróun vestrænnar menningar sérstaklega. Þar með má heita að sagt hafi verið skilið við ýmis grundvallaratriði í samfélagsfræðiverkefninu svokallaða sem hafist var handa um á árunum upp úr 1970. Ákveðið var að hverfa frá afdráttarlausum fyrirmælum um samþættingu sögu, átthagafræði, landafræði og félagsfræði í eina námsgrein og veita hverjum og einum skóla rétt til að haga skipulagi þess náms eftir eigin mati. Námið gæti verið algjörlega greinabundið og þar með t.d. Íslandssaga sjálfstæð námsgrein eða samþætt að hluta eða öllu leyti.
    5. Ætlast var til að samstarf foreldra og skóla yrði aukið verulega og kveðið á um rétt foreldra til að fylgjast með námsframvindu barna sinna og námsefni skólans og skipulagi skólastarfsins.
    6. Kveðið var á um ýmis réttindi nemenda og foreldra þeirra varðandi vitnisburð um einkunnir nemenda. Fallist var á að megintilgangur námsmats væri leiðsögn og örvun en jafnframt væri eðlilegt að viðmiðun yrði ekki sleppt. Þess vegna var talað um að foreldrar fengju upplýsingar um stöðu barna sinna í samanburði við aðra nemendur. Tekið var skýrt fram að hér væri ekki verið að veita upplýsingar um einstaka aðra nemendur, enda er það óheimilt, heldur stöðu viðkomandi nemanda í hópnum, skólanum o.s.frv. Þetta er raunar sá háttur sem hafður hefur verið á málum víðast hvar í skólum alla tíð.

    7. Talið var nauðsynlegt að taka fram í almenna hluta aðalnámsskrárinnar að um ýmis viðfangsefni skólastarfsins væru skiptar skoðanir, bæði meðal almennings og skólamanna. Grunnskólinn væri skóli allra landsmanna og foreldrar yrðu því að geta treyst vandaðri og óhlutdrægri umfjöllun um álitamál og ólíkar lífs- og stjórnmálaskoðanir þegar slíkt bæri á góma í tengslum við námsefni. Hafa bæri hugfast að hlutverk grunnskólans væri ekki að enduróma umræður um einstök dægurmál í þjóðfélaginu, aldrei mætti beita nemendum í deilum er snertu starf eða starfslið skóla.
    Þessi áhersluatriði sem hér hafa verið nefnd voru að sjálfsögðu mjög ítarlega rædd bæði í skólaþróunardeild og á öllum kynningarfundum með kennurum og öðrum umsagnaraðilum.
    Þá er komið að kjarna málsins: Hvernig eru þau drög sem nú hafa verið lögð fram? Hvaða breytingar hafa verið gerðar á fyrri drögum? Er aðalnámsskráin ásættanleg eins og hún lítur nú út?
    Í fæstum orðum sagt eru gerðar mun minni breytingar á fyrri drögum en vænta hefði mátt í ljósi stóryrtra yfirlýsinga hæstv. ráðherra. Mjög róttækar áherslubreytingar er tæpast að finna en þó eru í hinum nýju drögum ýmis atriði sem ekki eru til bóta og boða afturför. Nokkrar aðrar breytingar, svo sem aukin útlistun ákveðinna þýðingarmikilla þátta, breytt efnisröð og ákveðin viðbótarefni, eru hins vegar tvímælalaust til bóta.
    Það sem auðvitað skiptir mestu máli í þessu sambandi er að þau drög sem lögð hafa verið fram eru mikil og ánægjuleg framför miðað við gildandi námsskrá og drögin frá 1983 og miðað við að nú situr í stóli menntamálaráðherra maður sem ætla mætti að ýmsir svokallaðir vinstri uppeldisfræðingar hefðu mikil áhrif á.
    Í mínum huga er niðurstaðan til marks um þá miklu afstöðubreytingu á vettvangi skólamála sem leitt hefur af þeim miklu umræðum sem orðið hafa um ýmsa mikilvæga þætti á undanförnum árum.
    Áður en ég vík að þeim drögum sem hér liggja fyrir og þeim breytingum sem þar er að finna vil ég sérstaklega láta í ljós ánægju mína yfir því að ráðherra Alþb. skuli leggja fram aðalnámsskrá þar sem fyrsta áhersluatriðið varðandi starfshætti grunnskóla er orðað eins og hér segir:
    ,,Starfshættir grunnskóla skulu mótast af gildum lýðræðislegs samstarfs, kristilegs siðgæðis og umburðarlyndis.``
    Ég fagna því sérstaklega að þessi hæstv. ráðherra skuli leggja jafnmikla áherslu á kristilegt siðgæði og kristilegt umburðarlyndi og fram kemur í þessari námsskrá.
    Þetta segi ég vegna þess að þetta er gamalt deilumál hér á hv. Alþingi. Þetta kom fram þegar lögin um grunnskóla voru sett. Þá var flutt brtt. þess efnis að starfshættir skólans skyldu mótast af kristilegu siðgæði en í atkvæðagreiðslu um þá tillögu voru ýmsir alþýðubandalagsmenn henni mjög andvígir en hún var samþykkt á Alþingi engu að síður.

Batnandi mönnum er best að lifa í þessu efni eins og öðrum.
    Vil ég nú víkja að þessum nýju drögum að aðalnámsskrá grunnskóla og þeim helstu breytingum sem þar er að finna. Vil ég fyrst bera hin nýju drög saman við þau sjö meginstefnuatriði sem ég rakti hér áðan:
    1. Drögin tryggja talsvert faglegt sjálfstæði skóla en til að fá fullvissu um það verður að lesa drögin vandlega. Yfirlýsing um það efni er ekki gefin með jafnafdráttarlausum hætti og í fyrri drögum þar sem hana var að finna í formála, heldur er vikið að efninu á víð og dreif í einstökum köflum. Það vantar sem sagt ákveðna stefnuyfirlýsingu um aukið faglegt sjálfstæði skólanna. Þetta kom sem sagt fram í formála að fyrri drögum. Hæstv. ráðherra las fyrir okkur formála sem hann hyggst skrifa við aðalnámsskrá grunnskóla en
af lestri hans hér áðan varð ekki fundið að í formála hans væri með jafnafdráttarlausum hætti og í fyrri formála kveðið á um faglegt sjálfstæði skóla.
    Í nokkrum atriðum er þó gert ráð fyrir minna faglegu sjálfstæði skóla en í fyrri drögum. Eitt slíkt varðar röðun nemenda í bekkjardeildir. Í fyrri drögum var það t.d. talið leiða af ákvörðun um fullt sjálfstæði skólanna til að skipuleggja skólastarfið að ákvörðun um röðun í bekki eða námshópa færi alfarið eftir mati skólanna sjálfra. Í gildandi námsskrá er röðun í bekki eftir námsgetu beinlínis bönnuð en í framkvæmd hafa skólarnir ekki alltaf getað virt það ákvæði og um talsverða röðun eftir námsgetu er að ræða í efri bekkjum grunnskóla.
    Hugsunin í fyrri drögum var ekki sú að hvetja til röðunar í bekki eftir námsgetu einni og sannarlega ekki eftir gamla fyrirkomulaginu þar sem nemendum var raðað í bekki eftir lestrarfærni í upphafi skólagöngu, heldur að gera skólunum kleift að hafa sveigjanlega og breytilega skipan á blöndun nemenda, t.d. eftir aldri, námshæfileikum, námsgreinum, viðfangsefni hverju sinni o.s.frv.
    Í skýrslunni til Alþingis segir skólaþróunardeild að það hafi verið niðurstaða í nýju drögunum að setja fram skýr tilmæli um að skipa nemendum með mismikla námsgetu saman í bekki. Hér gætir ónákvæmni því í drögunum segir aðeins um þetta atriði: ,,Æskilegt er að ólíkir nemendur séu saman í bekkjardeildum. Því ber að forðast einhæfa röðun í bekki eða hópa til lengri tíma, t.d. út af getu, hæfileikum eða kynferði.``
    Um þetta ætti ekki að þurfa að vera ágreiningur og ber í því sambandi að veita orðalaginu ,,til lengri tíma`` eftirtekt en það gefur skólunum verulegt svigrúm. Þó eru tilmæli af þessu tagi ekki í samræmi við fyrirheit um faglegt sjálfstæði skóla og lýsa vantrausti ráðherra og ráðgjafa hans á dómgreind og faglegri hæfni kennara og skólastjórnenda.
    2. Miðlun þekkingar skipar veglegan sess í hinum nýju drögum. Þekkingarmiðlun í skólum hefur verið mikið deiluefni og nánast verið bannorð hjá ýmsum svokölluðum róttækum skólamönnum sem hafa haft

horn í síðu miðlunarþekkingar og staðreyndanáms og valið því ýmis hnjóðsyrði eins og t.d. ítroðslu og innrætingu.
    Nú er um það rætt í hinum nýju drögum að nemendur þurfi að öðlast margvíslega þekkingu, m.a. um manninn sjálfan, sögu og samtíma, listir, menntir og náttúru.
    Annars staðar í sama kafla segir: ,,Með fræðslu er átt við miðlun og öflun þekkingar og að gefa nemendum kost á margháttaðri reynslu sem þeir geta lært af.`` Á enn öðrum stað segir: ,,Kennsla beinist að því að hjálpa nemendum að tileinka sér þekkingu og skilning, að móta sér skoðanir og viðhorf og ná leikni og færni á tilteknum sviðum. Forðast ber einhliða áherslu á ákveðna þætti á kostnað annarra.``
    Ég læt í ljós ánægju mína yfir því að þekkingarmiðluninni skuli vera gert jafnhátt undir höfði og raun ber vitni í þessum námsskrárdrögum og tel að með þessu sé girt fyrir að grillur um að lærdómur skipti ekki máli í skólum nái að festast í sessi.
    3. Uppeldisréttur og uppeldisábyrgð foreldra nýtur viðurkenningar í nýju drögunum en þar segir m.a.: ,,Ábyrgð og réttur foreldra til uppeldis barna sinna er grundvallaratriði í mannréttindasamþykktum sem Íslendingar eru aðilar að. Í samvinnu skóla við heimilin verður að virða þennan rétt foreldra.``
    Ég læt í ljós ánægju yfir hvernig á þessu atriði er tekið.
    4. Telja verður að íslensk tunga, menning og þjóðarsaga skipi áfram veglegan sess í aðalnámsskránni. Þó geta verið skiptar skoðanir um hlut málfræði í drögunum. Er ekki gert ráð fyrir henni sem sjálfstæðum námsþætti fyrr en nemendur eru komnir í 7. bekk, þ.e. 13 ára. Beygingarfræði þarf að vísu að flétta inn í íslenskukennsluna í 3.--6. bekk en breytingin frá fyrri drögum felst í því að henni er ekki lengur ætlað að vera markviss hluti af ritþjálfun og ritleikni. Hlýtur það að merkja minni áherslu á málfræði og er það í andstöðu við ummæli hæstv. menntmrh. í nýlegum sjónvarpsþætti um nauðsyn aukinnar málfræðikennslu í skólum.
    Aftur á móti er ánægjulegt að sjá að fallist hefur verið á þær breytingar á viðfangsefnum í samfélagsfræðum og skipulagi námsgreina sem fyrri drög gerðu ráð fyrir. Er það sérstaklega fróðlegt í ljósi þess að það voru alþýðubandalagsmenn sem voru helstu málsvarar samfélagsfræðiverkefnisins 1983--1984 og reyndar allar götur síðan.
    5. Samstarf foreldra og skóla skipar mikilvægan sess í nýju námsskránni og um það efni er víða notað sama orðalag og í fyrri drögum. Talað er um ábyrga aðild foreldra að skólastarfi og eigi skólinn að hafa frumkvæði í því efni. Þá er fjallað um rétt foreldra til að fylgjast með skólastarfi og gengi barna sinna eins og í fyrri drögum.
    6. Um námsmat er umfjöllunin þokukennd og ekki ljóst hvað fyrirmælin þýða þar í framkvæmd. Meginbreytingin er sú að réttur foreldra til að fá
upplýsingar um stöðu barna sinna í samanburði við

aðra nemendur er ekki lengur fyrir hendi. Þetta virðist þýða að foreldrar geti ekki fengið að vita hver geta barna þeirra er í samanburði við önnur börn, t.d. í 4. bekkjardeild. Námsmat á að grundvallast á einstaklingnum sjálfum en ekki í samanburði við aðra.
    Þetta virðist þýða að t.d. ákveðin einkunn á hreinu þekkingarprófi, í sögu eða náttúrufræði t.d., merki ekki það sama hjá nemendum. Hér er um ákveðna jöfnunarþráhyggju að ræða sem orðið hefur vart í okkar skólakerfi á undanförnum árum. Ég hygg að slík vinnubrögð við námsmat séu ekki í samræmi við óskir foreldra og geti leitt til mjög ranglátrar niðurstöðu. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að huga vel að þessu og vil reyndar fá fram skýr svör og ákveðin frá honum um það hvort ofangreind túlkun sé rétt varðandi þennan þátt námsskrárinnar. Og ef svo er þá er þetta eitt af þeim atriðum sem ég tel að þurfi að endurskoða og breyta í þeirri námsskrá sem nú liggur hér fyrir.
    7. Eins og ég gat um áðan var talið nauðsynlegt í drögunum frá því í júlí að taka fram í almenna hluta námsskrárinnar að um ýmis viðfangsefni skólastarfs væru skiptar skoðanir, bæði meðal almennings og skólamanna. Grunnskólinn væri skóli allra landsmanna og foreldrar yrðu því að geta treyst vandaðri og óhlutdrægri umfjöllun um álitamál og ólíkar lífs- og stjórnmálaskoðanir ef slíkt bæri á góma í tengslum við námsefni. Hafa bæri hugfast að hlutverk grunnskólans væri ekki að enduróma umræður um einstök dægurmál í þjóðfélaginu, aldrei mætti beita nemendum í deilum er snertu starf eða starfslið skóla. Þetta er allt fellt úr nýju drögunum. Ráðherra verður því að svara því hér í þessari umræðu hvers vegna það er gert. Eiga foreldrar ekki að geta treyst óhlutdrægri umfjöllun um ólíkar lífs- og stjórnmálaskoðanir í skólum? Væri ekki ástæða til að leiða dægurmálaflugur í þjóðfélaginu hjá sér ef þær tengjast ekki beint ákveðnu námsefni og væri ekki sjálfsagt réttlætismál að deilur um starf og starfslið skóla, t.d. deilur um kjaramál kennara eða ráðningar skólastjóra, bitni ekki á börnum, þ.e. að tryggt sé að kennarar beiti ekki börnum fyrir sig í slíkri baráttu en slíkt hefur því miður gerst nokkrum sinnum á undanförnum árum. Um þetta þarf ráðherra að gefa ákveðnar skýringar.
    Ég gat þess áðan að í skýrslu hæstv. ráðherra væri ekki getið um nokkrar mikilvægar efnislegar úrfellingar úr fyrri drögum. Engin skýring hefur heldur verið gefin á ástæðum fyrir þessum úrfellingum. Ég hef reyndar þegar nefnt dæmi um slíkt, en til viðbótar vil ég nefna eftirfarandi dæmi:
    1. Í fyrri drögum stóð í kafla um menningu og þjóðerni á bls. 13. ,,Um leið og skólinn glæðir með nemendum þjóðrækni og heilbrigðan þjóðernismetnað verður að reyna að forðast þröngsýn þjóðernisviðhorf.`` Hvers vegna var þetta fellt út? Ég óska svara frá hæstv. ráðherra um það. Er þjóðrækni og heilbrigður þjóðernismetnaður bannorð hjá menntmrh. Alþb.?
    2. Í fyrri drögum stóð í kafla um einstaklingsvitund og félagsþroska: ,,Skólunum ber að fræða nemendur um að samkeppni annars vegar og samvinna hins

vegar getur verið jafnholl og þroskandi hvort sem er í námi, leik eða starfi. Keppni og samvinna útiloka ekki hvort annað heldur geta farið saman.``
    Hvers vegna var þetta fellt út? Ég sá í Þjóðviljanum á sínum tíma að Bandalag kennarafélaga hefði krafist þess, en rökstuðningurinn var ekki sannfærandi. Endurspeglast ekki í þessu ákveðnir fordómar alþýðubandalagsmanna í garð þess þjóðfélags sem við lifum í?
    3. Í fyrri drögum stóð í kafla um skóla og þjóðfélag á bls. 17 að grunnskólinn ætti m.a. að kenna nemendum að virða hefðir og siði þjóðarinnar. Þetta er fellt út og í staðinn sagt: ,,Hefðir og siðir breytast stöðugt og nýir vinna sér sess.`` Sýnir þetta ekki fullmikið skilningsleysi á skólanum sem kjölfestu á umrótstímum? Felst umburðarlyndi skólans í siðferðislegri tómhyggju? Þetta eru spurningar sem hljóta að leita á hugann þegar efnisbreytingar af þessu tagi hafa verið gerðar á drögum aðalnámsskrár.
    Í sömu efnisgrein var minnst á þýðingu mannréttinda, einstaklings- og atvinnufrelsis fyrir heill einstaklinga og samfélags. Orðin ,,einstaklings- og atvinnufrelsi`` hafa verið strokuð út. Ég hlýt að spyrja: Þó að einstaklings- og atvinnufrelsi sé ekki á stefnuskrá Alþb., og reyndar gagngert unnið gegn því af Alþb., er það þvílíkt grundvallaratriði í okkar þjóðfélagi að grunnskólinn getur ekki látið það fram hjá sér fara og því verður hæstv. ráðherra að gefa skýringu á þessu.
     4. Í fyrri drögum stóð m.a. um markmið og viðfangsefni í náttúrufræðikafla að nemendur ættu að öðlast þekkingu og læra að afla sér þekkingar, bæði með beinni reynslu og hjálp gagna. Nú hefur málsgreininni verið breytt og er ekki ætlast til að nemendur öðlist neina þekkingu. Í náttúrufræðikaflanum er að öðru leyti aðeins gert ráð fyrir þekkingu í tvennu samhengi, að nemendur tileinki sér þekkingu á því sviði sem líklegt er að komi að notum í daglegu lífi og öðlist þekkingu á nokkrum náttúrufræðihugtökum. Þetta er á bls. 146 og 153. Þetta er auðvitað alls ónóg fræðsla. Þurfa nemendur ekki að öðlast einhverja þekkingu á náttúru landsins, plöntum og dýrum, jafnvel þótt hún komi
ekki daglegri hagnýtingu við? Hér eimir enn eftir af þeirri þráhyggju að skólinn eigi ekki að miðla þekkingu.
    Eitt nýmælið í nýju drögunum er mannréttindafræðsla. Orðrétt segir á bls. 237: ,,Mannréttindafræðsla með einum eða öðrum hætti hefur verið og verður áfram hluti einstakra námsgreina, svo sem samfélagsfræði, sögu, landafræði, félagsfræði, íslensku og erlendra mála. Til að tryggja enn betur fræðslu um mannréttindi og að þau einkenni skólastarfið er nauðsynlegt að þau verði sjálfstæður þáttur í náminu. Ætla verður þessari fræðslu tíma og tengja hana sem eðlilegast öðrum námsþáttum og daglegu lífi skólanna.`` Síðan er gerð grein fyrir helstu þáttum mannréttindafræðslunnar og markmiðum hennar. Nú er það alls ekki aðfinnsluvert að skipa fræðslu um mannréttindi veglegan sess í skólum. Hins

vegar sýnist lýsingin á þessum nýja námsþætti, sem er á bls. 236--238, benda til þess að hér sé kominn hugsanlegur vettvangur fyrir ýmislegt vinstra brölt sem ýmsir stjórnmálasinnaðir vinstri menn í skólum hafa haft tilhneigingu til þess að troða inn í skólana, enda er mannréttindafræðslunni ætlað að vera geysilega víðfeðm. Til hennar telst friður og afvopnun, þróun og umhverfisvernd, efnahagsleg þróun og velferð fyrir utan réttaröryggi, félagafrelsi og mál- og trúfrelsi, svo að nokkuð sé nefnt. Athyglisvert er að hugtök eins og einstaklingsfrelsi, atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi virðast vera bannorð í þessum drögum.
    Vissulega er það ágætt að hæstv. menntmrh. hefur ekki fyrirskipað friðarfræðslu eins og ýmsir vinstri uppeldisfræðingar og forustumenn kennarasamtaka hafa lengi verið að panta, en hin víða skilgreining mannréttindafræðslunnar gefur sem fyrr segir svigrúm til að fara með stjórnmál inn í skólana með þeim hætti sem foreldrum kann að mislíka. Þegar einnig er búið að stroka út fyrirvara um óhlutdrægni í umfjöllun um ólíkar lífs- og stjórnmálaskoðanir, eins og ég benti á fyrr í máli mínu, er hætt við að freistingin verði enn sterkari.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú í nokkuð ítarlegu máli rætt þau drög að aðalnámsskrá grunnskóla sem hæstv. menntmrh. hefur dreift hér á Alþingi og jafnframt þá skýrslu sem hann hefur gefið og er tilefni þessarar umræðu. Þó að ég hafi í máli mínu komið fram með ýmsar aðfinnslur við efni þessarar aðalnámsskrár grunnskóla vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að í þessari námsskrá sé mikil og ánægjuleg framför miðað við gildandi námsskrá og drögin frá 1983 sem þá voru á borði ráðherra og ég tel jafnframt að í þessari aðalnámsskrá sé fólgin mikil afstöðubreyting á vettvangi skólamála sem hefur leitt af þeirri þjóðfélagsumræðu sem farið hefur fram um skólamál á undanförnum árum.
    Ég vil líka ítreka að þrátt fyrir stór orð hæstv. ráðherra á opinberum vettvangi undanfarnar vikur og mánuði eru þær breytingar sem gerðar hafa verið á drögunum frá því í júní 1988 ekki mjög stórvægilegar ef frá eru talin þau atriði sem ég hef hér sérstaklega gert að umtalsefni og ég tel nauðsynlegt að hæstv. ráðherra hugi betur að áður en hann gengur endanlega frá þessari námsskrá.
    Hæstv. ráðherra gat í máli sínu hér áðan um einar níu breytingar sem hann hefur þegar gert á námsskránni. Það var erfitt að átta sig á því í þeirri upptalningu hans nákvæmlega hver þau efnisatriði væru, enda er erfitt að fjalla um það nema maður hafi slíkan texta skrifaðan fyrir framan sig. Mér sýndist þó í fljótu bragði að þar væri ekki um neinar stórvægilegar breytingar að ræða og sennilega frekar til bóta en hitt það sem hann taldi upp án þess að ég þó vilji leggja á það endanlegan dóm fyrr en ég hef séð þann skrifaða texta.
    Þegar aðalnámsskrá hefur nú verið sett er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að unnið verði að viðmiðunarstundarskrá eins og hæstv. ráðherra gat um í máli sínu og að hún liggi fyrir sem allra fyrst

þannig að hægt verði að nota hana við skipulag kennslu í grunnskólum þegar á næsta skólaári.
    Ég ítreka, og þar erum við sammála ég og hæstv. ráðherra, að námsskrá þarfnast stöðugrar endurskoðunar eftir því sem þjóðfélagið breytist, enda gera grunnskólalög ráð fyrir því að námsskrá sé gefin út á fimm ára fresti en það hefur liðið allt of langur tími frá því að síðasta námsskrá kom út þar til nú hillir undir nýja námsskrá.
    Ég vil að lokum geta þess, virðulegi forseti, að mér er auðvitað kunnugt um, bæði frá því að ég sat í menntmrn. og ég hef fylgst með því reyndar eftir að ég fór þaðan, að skólaþróunardeild ráðuneytisins hefur unnið gífurlega gott og merkilegt verk varðandi undirbúning aðalnámsskrár. Ég held mér sé óhætt að segja að þar er valinn maður í hverju rúmi og þetta fólk sem þar starfar hefur tekið þetta viðfangsefni mjög alvarlega, hefur tekið það föstum tökum. Mér finnst sérstök ástæða til þess að þakka starfsfólki skólaþróunardeildar og ég er sannfærður um að ef atbeina þess hefði ekki notið í jafnríkum mæli og raun ber vitni værum við ekki farnir að sjá hilla undir að ný aðalnámsskrá yrði gefin út.