Aðalnámsskrá fyrir grunnskóla
Föstudaginn 21. apríl 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir eitt merkasta mál þessa þings og ég vil taka undir margt af því sem hv. síðasti ræðumaður, 18. þm. Reykv., hefur sagt hér. Það ætti að vera lýðum ljóst að aðalnámsskrá grunnskóla er undirstaða allrar framvindu í þessu þjóðfélagi, en það er ekki nóg að aðalnámsskráin sé vel úr garði gerð, heldur verður að vera möguleiki á að framkvæma hana. Það er auðvitað óþarfi að lengja þessa umræðu með því að lýsa því hvernig ástandið í skólamálum er í dag hér í landinu. Sú þróun hefur átt sér stað á löngum tíma að laun kennara hafa lækkað ár frá ári og svo er nú komið, eins og yfirstandandi kjaradeila ber merki, að þessi mál eru komin í óleysanlegan hnút. Í þeim löndum sem lengst eru komin í allri tækniþróun og hafa náð mestum árangri í að efla efnahag sinn, eins og t.d. Japanar hafa gert, þar er kennsla virtasta starf í þjóðfélaginu og vel launað. Þar er séð um að kennsla sé eins góð og verða má. Auðvitað fer þetta saman við þá framvindu sem orðið hefur þar í landi og er mjög athyglisverð fyrir margra hluta sakir.
    Hið gagnstæða hefur gerst þar sem kennsla hefur dregist aftur úr, t.d. í Bandaríkjunum þar sem menn búa nú við að því er talið er samkvæmt þeirra eigin sögn um 20% ólæsi. Við sjáum hver þróunin er að verða þar eins og í öllum hnignandi þjóðfélögum þar sem verkin sýna merkin: slakleg heilbrigðisþjónusta, dapurlegt skólakerfi, mismunun í aðstöðu manna til menntunar. Þessi þróun er það hættulegasta sem fyrir nokkurt þjóðfélag getur komið. Ef við rekjum söguna höfum við séð ríki rísa og falla og þó að við höldum kannski að menning okkar sé gulltryggð um alla tíð getur það auðvitað alveg eins gerst nú á tímum eins og það hefur gerst áður. Þess vegna held ég að hinar vestrænu þjóðir eigi að hafa sterklega í huga að efla sem vera má mennt og menningu í löndum sínum ef ekki á illa að fara. En um þetta mætti náttúrlega ræða í marga daga og það var ekki erindi mitt hér upp í þennan stól að fara í gegnum alla þessa stóru námsskrá. Um hana má margt gott segja. Annað tel ég að orki meira tvímælis, en það er mikill fengur að henni og væntanlega verður framhald á umræðu um hana.
    Mér þótti kyndugt að heyra athugasemdir hv. 2. þm. Reykv. og fyrrv. hæstv. menntmrh., einkum athugasemdir hans um eitthvað sem heitir róttækt og ekki róttækt og vinstri menn í kennslumálum. Mér þótti þessi umræða ærið gamaldags og úrelt orðin. Ég held að það skilji ekki mikið á milli þeirra manna og kvenna sem fást við kennslu í landinu um hverjar meginhugmyndir skuli liggja að baki menntunar lítilla barna í þessu landi og ég held að það greini ekki mikið á milli hvaða lífsviðhorf sem menn hafa tileinkað sér og hvaða pólitískar skoðanir. Ég held að við eigum ekki að leiða þessa umræðu í þá veru.
    En erindi mitt upp í þennan stól var fyrst og fremst að snúa mér að væntanlegri viðmiðunarstundaskrá. Á síðasta þingi flutti ég hér till. til þál. um könnun á stöðu handmenntakennslu í

grunnskólum eftir gildistöku laga um grunnskóla, nr. 63/1974. Ég ætla að leyfa mér að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta, en hún hljóðaði svo:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að kanna áhrif laga um grunnskóla frá 21. maí 1974 á handmenntakennslu grunnskólabarna.
    Nefndinni skal jafnframt falið að gera tillögur um fyrirkomulag handmenntakennslu í framtíðinni með tilliti til breyttra þjóðfélagshátta og reynslu síðustu ára.
    Nefndin skili skýrslu fyrir árslok 1988 og skal hún lögð fram í sameinuðu Alþingi. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.``
    Skýrsla þessi var lögð fram eins og beðið var um fyrir árslok 1988, en af einhverjum ástæðum hefur hún ekki verið lögð fram sem merkt þingskjal heldur var dreift í hólf alþingismanna og margir hafa þar af leiðandi séð hana.
    Tilgangur minn með þessari beiðni um könnun var einfaldlega sá að eins og allir vita var tekin upp sú stefna með grunnskólalögunum 1974 að drengir og stúlkur skyldu fá sams konar kennslu í handmennt og handavinnu og er auðvitað ekkert nema gott eitt um það að segja. En það sem gerðist var einfaldlega það að þar með minnkaði um helming sá tími sem var til að kenna börnunum handmennt í staðinn fyrir að það hefði auðvitað orðið að auka við kennslu. Þetta hefur orðið til þess, eins og við öll vitum, að engin mynd er í raun og veru á þessari kennslu í grunnskólanum í dag. Og ég held að handavinnukennarar séu fyrstu menn til að viðurkenna það.
    Með tillögu minni fékk ég leyfi hv. þáv. varaþm., Arndísar Jónsdóttur kennara, til að birta grein sem hún skrifaði í Morgunblaðið 8. mars 1988 og þar segir hún, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er erfitt að fallast á réttmæti þess að skerða gamalgróna og hagnýta námsgrein eins og handmennt um helming með lagaboði. Þetta hefur nú samt víðast hvar gerst með grunnskólalögunum. Þar er gert ráð fyrir að drengir og stúlkur fái sama námsefni í handmennt. Greinin er þannig að ekki er hægt að kenna stórum bekkjardeildum í einu. Þá er farið að skipta bekkjunum í tvennt eftir stafrófsröð og kennarinn verður að kenna sama námsefnið tvisvar sama veturinn og kemst því helmingi skemur með nemendurna. Það gleymdist að auka tímafjöldann í greininni.
    Hvaða afleiðingar hefur svo þessi helmings niðurskurður? Árangurinn hlýtur að verða að sama skapi minni. Kennarinn situr uppi með særðan metnað og ónotaða þekkingu. Þessi tiltekna námsgrein reynist líka svo viðkvæm í framkvæmd að þegar þrýsta á öllum til að læra það sama verður ástandið þannig að greinin leggst niður.``
    Svo mörg voru þau orð og ég hygg að fjölmargir handavinnukennarar hafi haft af þessu miklar áhyggjur. Sannleikurinn er sá að það er kannski fátt nauðsynlegra sérhverri manneskju en að kunna að nota á sér hendurnar. Í fyrsta lagi: Í okkar þjóðfélagi þar sem við erum að reyna að brjóta okkur leið til vaxandi iðnaðar og iðnaðarframleiðslu hefur mönnum

orðið það ljóst að það er ákaflega erfitt fyrir fullorðið fólk að tileinka sér formskyn og efnisþekkingu. Slíkt þarf að koma með grunnskólakennslu. Á það hefur margoft verið bent að það sé ákaflega erfitt að taka við fólki t.d. inn í iðnskólana sem litla eða lélega kennslu hefur fengið í teikningu og grunnhandavinnu. Í öðru lagi er fátt manneskjunni nauðsynlegra með vaxandi frítímum en að geta séð sjálfri sér fyrir afþreyingu. Og það er fátt dapurlegra en að sjá fullorðið fólk sem hefur ráð á öllum sínum tíma sem aldrei hefur vanist því eða lært það að vinna í höndunum, að búa eitthvað til sem er sérhverri manneskju mjög nauðsynlegt og eðlilegt.
    Ég vil þess vegna fara fram á það við hæstv. menntmrh. að hann sjái svo til þegar farið verður að vinna að stundaskrá að fyrir því sé séð að þessi tími til handmenntakennslu verði tvöfaldaður. Því aðeins er eitthvert vit í því að kenna piltum og stúlkum sömu handavinnu, og ég er hreint ekki ósammála því þó að ég hafi nú reyndar svona innst í hjarta mínu vissar efasemdir um að það henti öllum börnum, hvort sem er drengjum eða stúlkum. Séð hef ég drengi sem hafa þjáðst og kvalist yfir handavinnu sem stúlkur lærðu áður einar þannig að til greina kæmi að mínu viti að leyfa börnunum aðeins meira valfrelsi í þessum efnum. Í meginatriðum er það ágætt að bæði drengir og stúlkur læri það sama, en ég held að í undantekningartilvikum ætti að vera unnt að leyfa börnunum sjálfum að velja.
    Þessi mál þekkir hæstv. menntmrh. mjög vel og eins og skýrslan sem varð til vegna tillögu minnar ber með sér, þá er niðurstaðan auðvitað þessi og sú hin sama sem hv. varaþm. Arndís Jónsdóttir lýsti í grein sinni, þannig að um það held ég að sé ekki ágreiningur. Ég hef átt fundi með handmenntakennurum um þessi mál og ég held að enginn hafi mótmælt því að ástæða væri til þess að gera hérna bragarbót.
    Annað er það sem vissulega er áhyggjuefni í grunnskólanámsskránnni og það er tónmenntin. Það er auðvitað óþolandi að einungis sum börn eigi kost á því að læra á hljóðfæri. Við vitum það öll sem mörg börn eigum að það er ekki heiglum hent að kosta þá kennslu, einkum og sér í lagi ef börnin eru mörg. Það er auðvitað dýrt og það segir mér enginn að það sé ekki mikill fjöldi Íslendinga sem einfaldlega hefur ekki ráð á að leyfa börnum sínum að læra á hljóðfæri. Og við það verður auðvitað ekki búið að það séu forréttindi hinna efnameiri að læra á hljóðfæri sem að mínu viti þjónar að mörgu leyti sama tilgangi og handmenntakennsla, en hann er að það er hverri manneskju dásamleg þekking og kunnátta að geta leikið á hljóðfæri sér og öðrum til ánægju og þarf þá ekki að gera ráð fyrir að allir verði einhverjir tónlistarsnillingar heldur fyrst og fremst geti handleikið hljóðfæri sér og öðrum til ánægju. Ég skora á hæstv. menntmrh. að reyna að róa að því öllum árum að að a.m.k. grunnmenntun í tónlist færist inn í grunnskólann sem eðlileg skyldunámsgrein þar. Ég held að það hljóti að vera það sem koma skal.

    Að öðru leyti er svo sem ekki tími til að segja mikið meira. Það er alveg hárrétt, sem fram kom hér hjá hv. 18. þm. Reykv., að það eru miklar kröfur gerðar til kennara og í sívaxandi mæli hafa kennarar tekið að sér uppeldi barnanna okkar. Við höfum langflestar íslenskar konur farið út á vinnumarkaðinn, enda er það sjálfsagður þáttur í lífi hverrar fjölskyldu að þar sem tveir eru um rekstur heimilisins þurfi báðir að vinna utan heimilis. Öll þekkjum við þá byltingu sem það hefur haft í för með sér varðandi umönnun barna, aldraðra og hinna sjúku og þarf ekki að fjölyrða um það.
    Það má kannski þess vegna segja þegar maður les innganginn að þessu mikla riti, að víst er þar talað fallegum orðum um samvinnu skóla og foreldra. Þó er þetta kannski meira óskhyggja heldur en raunveruleiki. Sannleikurinn er sá að börnin eru ekkert með foreldrum sínum nú orðið. Við höfum ekki í nógu miklum mæli einsetinn skóla eins og við öll vitum og sú kalda staðreynd blasir við okkur að börnin koma snemma dags heim úr skólanum og eru ein heima lungann úr deginum, horfandi náttúrlega oft á einhver afþreyingarefni t.d. í vídeói, sjónvarpi og annað slíkt --- og svo skulu menn ekkert vera að undrast það þó að börnin hafi lakari málþroska en við höfðum hér á árum áður. Börnin læra einfaldlega ekki málið nema það sé fyrir þeim haft. Þetta hefur auðvitað haft það í för með sér að það er búið að einangra aldurshópa. Gamla fólkið býr út af fyrir sig, foreldrarnir eru úti að vinna og börnin eru ein heima þannig að ef einhvern veginn á að koma til móts við þessa þróun og ef við ætlum að reyna
að halda í, kannski þegar öllu er á botninn hvolft það eina sem við eigum, íslenska mennt og menningu, þá verður að vinna að því að skólinn verði einsettur og börnin séu í skólanum jafnlengi og foreldrarnir eru úti að vinna. Annað er gjörsamlega óraunhæft. Og það er ekki hægt að ætlast til þess að kennarar, sem kenna allt of mörgum börnum í bekkjum fyrir allt of lítil laun, eigi auk þess að ganga börnunum í foreldrastað. Það verður að sjá fyrir því að börnin séu í skólanum við nám og starf eðlilegan vinnudag eins og foreldrarnir.
    Ég fæ ekki séð að örþreyttir foreldrar sem koma kannski heim milli 6 og 7 á kvöldin séu til stórræðanna til að ræða við kennara eða börnin um hvernig skólahaldi skuli háttað. Ég er ansi hrædd um að það verði að teljast mannlegt að fólk hafi ekki mikla afgangsorku til þess þegar löngum vinnudegi er lokið. Þannig hangir þetta auðvitað saman, námsskrá grunnskóla hverju sinni verður auðvitað að fylgjast með og fylgja þróun þjóðfélagsins eins og það er hverju sinni. Og það er tómt mál að búa til námsskrá nú eins og námsskrá hefði getað litið út fyrir 30 árum. Hún á að þjóna allt öðru þjóðfélagi, allt öðrum heimilisháttum og framan í það verður auðvitað að horfa. Það er því mikið á kennara landsins lagt um þessar mundir og miklar kröfur til þeirra gerðar, en e.t.v. gera stjórnvöld ekki jafnmiklar kröfur til þeirrar aðstöðu og þess aðbúnaðar sem þau leggja landsins

börnum til og fjölskyldunum í landinu.
    Það er auðvitað sorglegt til þess að vita að við skulum ræða þetta hér yfir galtómum þingsölum. Það er eins og það vilji gjarnan fylgja umræðum um mennt og menningu, listir og annað slíkt, að hv. þm. gufa upp undir þeim umræðum.
    En vissulega er mikill fengur að þessari námsskrá og ég vil aðeins lýsa þeirri ósk minni að ég vona að hæstv. menntmrh. beri gæfu til þess að eitthvað af þessu verði mögulega framkvæmt með eflingu Námsgagnastofnunar, með bættum launakjörum kennara, með bættum húsakosti og bættum aðbúnaði til þess að framkvæma það sem hér er lagt af stað með.
    Ég ætla ekki að taka lengri tíma, hæstv. forseti. Það er, eins og ég sagði áðan, hægt að ræða þetta í marga daga en ég efast ekki augnablik um að allt hv. Alþingi, þrátt fyrir farsæla fjarveru að þessu sinni, sé reiðubúið til að standa saman um það að verulegt átak verði gert í menntamálum í landinu, heldur fyrr en seinna, áður en illa er farið.