Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Í tilefni af fyrirpurn hv. 1. þm. Reykn. varðandi svör við áður framlagðri fsp. hans um gámaútflutning o.fl. vil ég einfaldlega biðja hv. þm. afsökunar á því að það hefur dregist úr hömlu að svar yrði fram borið. Ég ber að sjálfsögðu á því fulla ábyrgð. Ástæðan er fyrst og fremst sú, þó að gengið hafi verið eftir þessari vinnu, að um hefur verið að ræða veikindi og síðan fjarvistir umrædds starfsmanns. Ég hafði reyndar beðið hann um að hafa samband við hv. þm. til að skýra hvers vegna þetta hefði dregist um leið og ég gekk eftir því að gangskör yrði að því gerð að vinna að undirbúningi svarsins. En ég endurtek að sjálfsagt er að biðja hv. þm. velvirðingar á þessum drætti sem að verulegu leyti kann að stafa af óviðráðanlegum ástæðum.