Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Mig langar til þess fyrst verið er að knýja á um að hraða svörum við fyrirspurnum þingmanna að minna á fsp. sem við bárum fram allir þingmenn sem eru í Evrópuráðsnefnd Alþingis og þess efnis að við fengjum upplýsingar um hvaða sáttmálar Evrópuráðsins hefðu þegar verið fullgiltir, hvaða sáttmálar hefðu verið samþykktir en ekki fullgiltir og hvers vegna og það er aðalatriðið. Í sjálfu sér er afar einfalt svarið við því hvaða sáttmálar hafa verið fullgiltir. En það sem við þurfum að fá að vita er fyrst og fremst þetta: Hvers vegna hafa ekki verið fullgiltir þeir samningar sem við höfum þegar samþykkt? Við þurfum að geta svarað því, þegar við erum spurð. Þetta skiptir verulegu máli vegna þess að margir þessara sáttmála taka ekki gildi í aðildarríkjunum fyrr en tiltekinn fjöldi ríkja hefur fullgilt þá. Það er því nauðsynlegt að fá svar við þessu og orðnar margar vikur síðan þessi fsp. kom fram. Auðvitað geta ráðuneytin skipt á sig að einhverju leyti svörum við þessu, en ég vonast til þess að hæstv. utanrrh. knýi á um það að svar við þessu fáist allra næstu daga.