Utanríkismál
Mánudaginn 24. apríl 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Í samræmi við 5. tölul. 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur verið tekin saman skýrsla um 75. alþjóðavinnumálaþingið sem haldið var árið 1988. Í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er kveðið á um þá skyldu stjórnvalda að gera löggjafarsamkomu hlutaðeigandi aðildarríkis grein fyrir samþykktum vinnumálaþingsins. Frá því að aðild Íslands að ILO var samþykkt á 27. þingi stofnunarinnar sem haldið var í París 1945 hefur þetta verið verkefni félmrh. og félmrn.
    Því miður hafa sjaldnast orðið umræður um þessa skýrslu eða aðild okkar að Alþjóðavinnumálastofnuninni sem er eina stofnunin sem lifir Þjóðabandalagið, stofnuð árið 1919, og er meðal merkustu sérstofnana Sameinuðu þjóðanna ef ekki sú merkasta. Hún hefur tvímælalaust náð miklum árangri í að auka félagslegt réttlæti í heiminum og áhrif hennar á vinnumálalöggjöf og samskipti aðila vinnumarkaðarins eru ljós öllum þeim sem um þau mál fjalla.
    Sameinuðu þjóðirnar og sérstofnanir þeirra hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum. Starfshættir hafa verið gagnrýndir og mörgum hefur fundist skrifræðið vera mikið, pappírsframleiðslan yfirþyrmandi og árangur ekki í samræmi við alla fyrirhöfnina og kostnaðinn.
    Því er ekki að neita að þessi gagnrýni er ekki út í bláinn. En því má ekki gleyma að ef við erum ekki ánægð með starfsemi þessara stofnana, þá ber okkur skylda til þess að gera okkar tilraun til að breyta ástandinu á þann veg sem við viljum. Til þess gefast fjöldamörg tækifæri. En þá verða menn að vita hverju þeir vilja breyta.
    Annars hygg ég að ýmsum kynni að bregða við ef þessar stofnanir yrðu lagðar niður. Sannleikurinn er sá að þær hafa þrátt fyrir allt reynst sá vettvangur þar sem sérstaklega smáríki hafa getað haft áhrif á stórveldin og þar með á gang alþjóðamála og þær eru umræðuvettvangur þar sem fulltrúar ríkja geta skipst á skoðunum á jafnréttisgrundvelli.
    Virðulegi forseti. Áður en ég fer efnislega í skýrsluna um 75. alþjóðavinnumálaþingið sem hér er til umræðu langar mig til að nota tækifærið og fara nokkrum orðum um skipulag og starfshætti Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Einmitt núna stendur stofnunin á nokkrum tímamótum. Fyrir skömmu tók nýr forstjóri við stjórn hennar og síðar á árinu eru 70 ár liðin frá því 1. alþjóðavinnumálaþingið var haldið.
    Samkvæmt 2. gr. stofnskrár ILO skulu fastastofnanir vera: allsherjarþing fulltrúa frá þeim ríkjum sem aðild eiga, stjórnarnefnd og Alþjóðavinnumálaskrifstofan. Alþjóðavinnumálastofnunin sker sig á ýmsan hátt frá öðrum sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Þessi sérstaða kemur glöggt fram í 3. gr. stofnskrárinnar um allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þar kemur fram að fjórir fulltrúar frá hverju aðildarríki skulu eiga sæti á þinginu. Tveir skulu vera fulltrúar

hlutaðeigandi ríkisstjórnar, annar hinna tveggja fulltrúi atvinnurekenda en hinn fulltrúi launafólks viðkomandi ríkis.
    Í 5. tölul. skuldbinda aðildarríki sig til að tilnefna fulltrúa og ráðunauta aðila vinnumarkaðarins í samráði við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks. Litið er á það þríhliða samstarf sem fram fer innan vébanda Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á milli ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks sem eitt af grundvallaratriðunum í starfseminni.
    Meginviðfangsefni alþjóðavinnumálaþingsins er afgreiðsla alþjóðasamþykkta. Þær taka til allra þátta atvinnulífsins og félagslegs öryggis, svo sem félagafrelsis, vinnuumhverfis, vinnu, starfsmenntunar og þjálfunar, misréttis á vinnumarkaðnum og vinnu barna svo að fátt eitt sé nefnt. Hluti samþykktanna er um aðbúnað skipverja.
    Í samþykktum ILO eru settar fram lágmarkskröfur. Með fullgildingu samþykktar skuldbindur aðildarríki sig til að uppfylla kröfurnar sem í flestum tilvikum snerta rétt þegnanna til félagslegs öryggis, t.d. til öruggrar afkomu, vinnuumhverfis sem er skaðlaust heilsu þeirra o.s.frv. Að öðrum þræði fjalla samþykktirnar um skyldu aðildarríkis til að afla á markvissan hátt upplýsinga um þróunina á vinnumarkaðnum, t.d. um atvinnuleysi, framboð atvinnu, vinnutíma o.s.frv.
    Eitt af aðalhlutverkum stjórnarnefndarinnar er að samþykkja starfsáætlun fyrir Alþjóðavinnumálaskrifstofuna sem hefur aðsetur í Genf. Helstu verkefni skrifstofunnar samkvæmt stofnskrá eru að annast rannsóknir á ýmsum þáttum félagsmála, einkum þeim sem snerta atvinnuhætti og samskipti aðila vinnumarkaðarins. Hún undirbýr þing, ráðstefnur og sérfræðingafundi með því að safna gögnum og semja skýrslur um þau málefni sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Alþjóðavinnumálaskrifstofan annast upplýsingamiðlun og veitir margháttaða þjónustu. Innan skrifstofunnar er m.a. að finna deildir sem sérhæfa sig í málefnum sem snerta hollustu og öryggi á vinnustöðum, þjálfun og endurmenntun, samvinnumál, svo að fátt eitt sé nefnt. Skrifstofan stendur fyrir fjölbreytilegri útgáfustarfsemi á bókum, tímaritum og hagskýrslum.
    Alþjóðavinnumálaskrifstofunni er stjórnað af aðalforstjóra og þremur
varaforstjórum. Auk aðalskrifstofunnar í Genf eru starfræktar svæðaskrifstofur í Afríku, Ameríku og Asíu. Starfsfólk er samtals um 3000 og tæpur helmingur þess á skrifstofunni í Genf.
    Fyrr í ræðu minni gat ég þess að málefni ýmissa alþjóðastofnana hafi verið töluvert til umfjöllunar á síðustu árum. Auk þeirra atriða sem ég nefndi hafa orðið og eru að eiga sér stað margvíslegar breytingar sem ekki er auðvelt að sjá fyrir endann á. Dæmi um þetta kemur fram í skýrslu íslensku þingmannanefndarinnar í Evrópuráðinu um störf 40. þings Evrópuráðsins. Þar er fjallað um framtíð Evrópuráðsins í ljósi þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað með sífellt nánara samstarfi aðildarríkja

Evrópubandalagsins. Þetta samstarf getur einnig haft áhrif á starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    ILO sem og aðrar alþjóðastofnanir hafa á undanförnum árum sætt nokkurri gagnrýni ýmissa ríkja fyrir það að fjalla um málefni sem falla utan verksviðs hennar. Norðurlöndin hafa staðið þétt saman um þá stefnu að alþjóðastofnanir sinni sínum sérstöku viðfangsefnum. Þetta gildir ekki síst um Alþjóðavinnumálastofnunina og vil ég geta þess að um þessar mundir er unnið að samningu minnisblaðs til forstjóra ILO þar sem fram koma sjónarmið Norðurlandanna á því hvaða verkefni stofnunin eigi einkum að beita sér fyrir á næstu árum.
    Í drögum að þessu minnisblaði er lögð áhersla á skipulagsbreytingar á Alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf sem m.a. felast í virkari stjórnun og meiri samvinnu á milli hinna ýmsu deilda skrifstofunnar. Samkvæmt drögunum telja Norðurlöndin að starf ILO eigi fyrst og fremst að beinast að því að ná samstöðu um staðla á vinnumarkaðnum. Draga eigi fram atriði sem snúa að réttlátari skiptingu í þjóðfélaginu og varða heiðarlega samkeppni fyrirtækja. Einnig ber ILO að ganga fram fyrir skjöldu og benda á mikilvægi vinnu og atvinnureksturs sem forsendu fyrir þróun á sviði efnahags- og félagsmála. Loks eigi stofnunin að efla tæknisamvinnu á milli aðildarríkjanna til að styrkja atvinnulífið.
    Af hálfu Íslands hefur verið bent á mikilvægi þess að stofnunin leggi meiri áherslu á að auðvelda aðildarríkjunum að vinna betur að starfsmenntun launafólks, einkum með tilliti til þeirra breytinga sem eiga sér stað í atvinnulífinu samfara nýrri tækni. Einnig að meiri áhersla verði lögð á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaðnum, einkum að því er varðar kaup og kjör.
    Virðulegi forseti. Ég mun víkja með nokkrum orðum að skýrslu minni um 75. alþjóðavinnumálaþingið.
    Helstu viðfangsefni þingsins voru upplýsingar og skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna, öryggi og hollustuhættir í byggingariðnaði, aukin atvinna og vernd gegn atvinnuleysi, endurskoðun samþykktar nr. 107 um vernd frumbyggja, atvinna í dreifbýli, kynþáttaaðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku.
    Í nefnd um upplýsingar og skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna var fjallað um skýrslu sem hefur að geyma athugasemdir sem sérfræðinganefnd ILO hafði gert við framkvæmd aðildarríkjanna á fullgiltum alþjóðasamþykktum. Að þessu sinni var gerð ein athugasemd við framkvæmd Íslands á alþjóðasamþykkt. Sérfræðinganefnd ILO hefur um árabil gert athugasemd við 81. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, um agavald skipstjóra, og telur að ákvæði greinarinnar séu ekki í samræmi við samþykkt nr. 105 um afnám nauðungarvinnu. Í skýrslu Íslands um framkvæmd samþykktarinnar sem félmrn. hefur tekið saman er bent á að ákvæðið sé fyrst og fremst byggt á því ríkjandi sjónarmiði í íslensku þjóðfélagi að tryggja beri öryggi sjómanna og annarra sjófarenda eins og kostur er. Markmið þess væri að

tryggja að skipstjóri eða sá sem er í hans stað geti komi skipi í örugga höfn eða var þegar hættu ber að höndum eða bjarga skipi og mönnum að öðru leyti úr háska. Í skýrslu sérfræðinganefndar ILO kemur fram að hún hefur kynnt sér skýringar íslensku ríkisstjórnarinnar. Nefndin tekur fram að tilvik eins og þau sem lýst er í skýrslu Íslands falli utan ramma samþykktar nr. 105 og leggur til að ákvæði 81. gr. sjómannalaganna verði afmarkaðri eða greinin felld út úr lögunum eins og gert hefur verið í nokkrum löndum þar sem hliðstæð ákvæði hafa verið í gildi. Það er ljóst að verði ekki gerð gangskör að því að breyta ákvæðunum mun þetta málefni koma til kasta þingnefndarinnar fyrr eða síðar. Þess má geta að félmrn. hefur gert samgrn., sem fer með málefni sjómanna, grein fyrir framvindu málsins.
    Þingið afgreiddi tvær merkar alþjóðasamþykktir. Önnur fjallar um öryggi og hollustu í byggingariðnaði. Markmið hennar er að draga úr fjölda slysa í byggingariðnaði með ýmsum verndar- og varnaraðgerðum, t.d. í sambandi við meðferð tækja og annars búnaðar sem notaður er í byggingariðnaði. Hér er um að ræða mjög áhugaverða alþjóðasamþykkt og verður það tekið til athugunar hvort ekki sé rétt að leitað verði eftir heimild til þess að hún verði fullgilt af hálfu Íslands.
    Hin alþjóðasamþykktin er um atvinnuuppbyggingu og vernd gegn atvinnuleysi. Samþykktinni er ætlað að koma í stað eldri samþykkta um atvinnuleysisbætur, m.a. samþykktar um bætur eða styrki til þeirra sem eru atvinnulausir gegn
vilja sínum og er hún frá árinu 1934. Eldri samþykkt er því komin til ára sinna og þótti á mörgum sviðum úrelt.
    Ástæða er til þess að vekja athygli á samþykkt um aukna atvinnu og vernd gegn atvinnuleysi. Þar er m.a. kveðið á um bótatímabilið í atvinnuleysi og að það megi takmarka fyrsta greiðslutímabil bóta við 26 vikur í hverju tilviki atvinnuleysis eða við 39 vikur á hverju 24 mánaða tímabili.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa skýrslu frá 75. alþjóðavinnumálaþinginu í Genf 1988 og læt máli mínu lokið.