Utanríkismál
Mánudaginn 24. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að allar þessar skýrslur skuli vera teknar til umræðu nú í dag um leið og skýrsla utanrrh. Það er nýbreytni í störfum Alþingis og ég hygg að hún sé mjög til bóta. Það er æskilegt að þingmenn fái yfirsýn á einum og sama fundinum yfir þá alþjóðlegu starfsemi sem Alþingi tekur þátt í.
    Ísland hefur verið í Evrópuráðinu frá árinu 1950. Það var stofnað árið 1949 og er meðal þeirra stofnana sem byggðu á grunni sem fólst í voninni um betri og friðsælli heim eftir að menn höfðu upplifað heimsstyrjöldina síðari og ríkin höfðu barist blóðugum og hroðalegum bardaga í návígi einmitt á þeim stöðum Evrópu þar sem nú standa höfuðstöðvar þessa víðtæka samkomulags. Það var þess vegna með táknrænum hætti sem einmitt Strasbourg var valin sem eins konar höfuðborg Evrópu til að hýsa hið víðtæka samstarf stjórnmálamanna sem þar átti að fara fram.
    Höfuðstofnanir Evrópuráðsins eru þingið, ráðherranefndin og mannréttindadómstóllinn. Þingið hét í fyrstu Ráðgjafarþing Evrópuráðsins, en heitir núna Þingmannasamkoma Evrópuráðsins eða einfaldlega þing Evrópuráðsins Þetta hefur valdið því að menn rugla mjög mikið saman Evrópuþinginu sem er þing Evrópubandalagsins í Brussel og svo aftur á móti þessu sem vinnur með allt öðrum hætti og öðruvísi er til kosið. Þessi ruglingur milli stofnana verður enn þá meiri vegna þess að öðru hvoru heldur þing Evrópubandalagsins, sem heitir Evrópuþingið, sínar ráðstefnur eða þing í Strasbourg líka. Evrópubandalagið hefur tekið upp sama fánann og sama einkennissönginn sem er hvorki meira né minna en stefið úr 9. sinfóníu Beethovens sem við heyrum stundum sunginn við hinn fagra texta Schillers, Óðinn til gleðinnar.
    Þessi atriði nefni ég hér í byrjun til að leggja strax áherslu á það sem við stöndum andspænis núna og er vaxandi tilhneiging til þess að menn rugli saman þessum tveimur stofnunum og þá um leið því sem felur í sér vissa hættu, vil ég segja, fyrir hagkvæmni í vinnubrögðum, en hún felst í tvíverknaði þessara stofnana og raunar fleiri alþjóðlegra stofnana sem ég mun koma nánar að á eftir. Ég hygg að fyrir þessu séu reyndar ástæður sem er ekki þörf á að þegja yfir þegar stjórnmálamenn tala saman, en ég held að hér sé viss hagsmunapólitík embættismanna á ferðinni líka. Við getum ekki horft fram hjá því að á bak við þessar stofnanir er mjög mikið skrifstofuveldi þannig að það eru hundruð manna sem hafa atvinnuhagsmuni af því að verkefni þessara stofnana séu sem mest. Ég sé ekki betur en að þess gæti í vaxandi mæli að slíkir hagsmunir gægist fram á milli þeirra tillagna sem stundum eru til umræðu meðal stjórnmálamanna, en einmitt þetta, að Evrópubandalagið virðist hafa vaxandi tilhneigingu til þess að fara inn á ýmis svið sem eru ekki efnahagssamstarf í venjulegum skilningi, virðist tákna það að þarna sé á ferðinni tilhneiging skrifstofuveldisins til að vaxa og vaxa og treysta sjálft sig í sessi. Það er einmitt þetta sem hefur valdið því

að tilhneigingar hefur orðið vart meðal voldugra þjóða sem eru í því bandalagi til að undirstrika þörf þjóðanna til þess að halda sérkennum sínum og sjálfstæði. Það er einmitt sú þörf sem ég tel og fullyrði að sé algerlega virt í stofnskrá og starfi Evrópuráðsins og það er einmitt það atriði sem gerir að verkum að ríkin geta sótt styrk við eigið sjálfstæði með því að taka með virkum hætti þátt í slíku starfi. Þegar ég segi ,,að taka með virkum hætti þátt í slíku starfi`` kem ég líka að atriði sem ég tel að við þurfum að athuga með nokkurri sjálfsgagnrýni hér á Íslandi. Ég tel að ýmsir þættir Íslands í þessu starfi hafi verið allt of dauflegir og þeim ekki nægilega vel sinnt.
    Þetta eru nokkuð hörð orð, en óneitanlega finnst mér skjóta skökku við þegar smáþjóð sem hefur haft mjög mikla hagsmuni af slíku samstarfi sinnir því þó ekki betur en svo að á sameiginlegum fundum stjórnarnefnda þingsins og ráðherranefndarinnar gerist það hvað eftir annað ráðherramegin við borðið að sæti Íslands er hrópandi autt, úr sæti Íslands er hrópandi þögn. Það eru nokkur önnur ríki sem hafa stundum átt þar autt sæti. Það hefur þó ekki verið nema eitt í senn svo að ég hafi séð og það hefur annaðhvort verið Malta, Kýpur eða Liechtenstein. Ég hygg þó að þau ríki eigi nokkuð hægt um vik oft og tíðum vegna nálægðar, en þar er líka um ríki að ræða sem eru enn minni en við og Kýpur hefur sína pólitísku innbyrðis erfiðleika eins og kunnugt er. Slíku er ekki til að dreifa í þeim mæli sem þar, en þar deila þjóðabrot innbyrðis.
    Ég hygg m.ö.o. að Ísland þurfi af ráðherrahliðinni að bæta þarna mjög þátttöku sína og sjá til þess að málum þeim sem Ísland vill láta fylgja fram sé fylgt eftir í ráðuneytinu. Mér er ljóst að þetta er erfiðara en t.d. er í Norðurlandasamstarfinu vegna þess að ráðherranefndin í Evrópuráðinu hefur þann galla, vil ég segja, að það eru utanríkisráðherrarnir einungis sem eru ráðherranefndin. Í Norðurlandaráðinu er tvenns konar eðli ráðherranefndarinnar, ef svo má segja. Annars vegar samstarfsráðherrarnir og svo hins vegar fagráðherrarnir sem hittast innbyrðis á reglulegum fundum. Þetta veldur því að hið faglega verk nær miklu skjótar fram inn í þjóðþingin.
    Ég leyfi mér að benda á þetta hér ef vera mætti að okkar ráðherra gæti
staðið að tillögugerð um að Evrópuráðið ynni að því að breyta þessu fyrirkomulagi sem ég held að gæti verið mjög til bóta. Jafnvel þó að það væri ekki gert með jafnformlegum hætti og er í Norðurlandaráði held ég að við gætum ýmislegt gert til að ná betur inn á svið fagráðuneytanna. Þessar tillögur og hugmyndir mínar mótast vissulega af því að mér er enn ofarlega í huga starf og kynni af Norðurlandaráði, bæði þingmannahlið þess og ráðherrahlið, og mér virðist sem það sé alveg augljóst að þessar stofnanir, Evrópuráðið annars vegar og Norðurlandaráð hins vegar, geti töluvert lært hvor af annarri og samhæft krafta sína. Það er samt ekki fyrr en á þessu ári sem það verður til fulls hægt að nýta það samstarf sem fer fram innan Norðurlandaráðs aftur í Evrópuráðinu

vegna þess að það er fyrst nú í vor sem Finnland gengur í Evrópuráðið. Finnland hefur talið sér pólitískt mjög örðugt að gerast reglulegur aðili að Evrópuráðinu, en það verður nú og verður það mjög ánægjulegur viðburður, sérstaklega fyrir okkur Norðurlandabúa sem þarna störfum. Þetta er í fyrsta sinn sem öll ríki Norðurlandaráðs eiga fulltrúa í Evrópuráðinu. Ég vonast sannarlega til þess að það verði til að styrkja samstarf Norðurlandanna á þeim vettvangi.
    Í íslensku nefnd Alþingis á þingi Evrópuráðsins eiga samkvæmt reglum ráðsins sæti þrír þingmenn og þrír til vara. Bæði aðal- og varamenn geta þó tekið þátt með fullum réttindum í málefnanefndum ráðsins. Þingmenn í nefndinni eru auk mín Guðmundur G. Þórarinsson og Kjartan Jóhannsson sem aðalmenn og varamenn Ragnar Arnalds, Hreggviður Jónsson og Kristín Halldórsdóttir.
    Þetta árið hefur Ísland átt sæti í stjórnarnefnd ráðsins og átt einn af varaforsetum Evrópuráðsþingsins. Það hefur kallað á meiri vinnu en er e.t.v. þegar við erum utan stjórnar ráðsins. Núna eiga eftir nýjum reglum þrjú Norðurlandanna sæti í stjórnarnefndinni en voru áður tvö þeirra þannig að þetta sæti hefur verið til skiptis á hendi ríkjanna.
    Formenn sendinefnda allra þátttökuríkjanna eiga sæti í svokallaðri fastanefnd, en hún hefur allmikið vald. Hún getur gert samþykktir og afgreitt tillögur í stað þingsins þegar það situr ekki. Hún hefur eins konar bráðabirgðalagavald án þess þó að þau bráðabirgðalög þurfi að taka aftur til umfjöllunar á þinginu þannig að sú heimild er ekki notuð nema þegar nauðsyn ber til á milli þinganna. Þingið kemur saman þrisvar sinnum á ári og starfar 5--6 daga í senn. Auk þess er haldið svonefnt aukaþing einu sinni á ári, en þá er ekki sameinað þing með venjulegum hætti heldur felst það starf í því að allar nefndirnar koma saman á sama tíma og sinna sameiginlegum verkefnum eftir því sem unnt er á milli nefndafunda en ekki með formlegum hætti eins og þingið.
    Þessi aukaþing, sem hafa verið haldin á sumrin, eru yfirleitt haldin utan Strasbourgar. Hins vegar er það svo samkvæmt reglum ráðsins að þingið á að halda í Strasbourg. Nefndirnar eiga líka að halda sína fundi í Frakklandi, en hafa heimild til þess að halda einn fund á ári utan Frakklands. Heimildirnar til þess að halda fundi utan Frakklands eru skiljanlegar. Það er til þess að kynna staðhætti annarra landa og líf annarra þjóða fyrir þingmönnum eftir því sem unnt er með heimsóknum í önnur lönd og líka til þess að hér verði ekki einungis um franska stofnun að ræða heldur fyrst og fremst evrópska stofnun.
    Þingið skiptir með sér verkum í nokkrum nefndum. Þær heita efnahagsnefnd, þar sem sæti eiga Ragnar Arnalds og til vara Guðmundur G. Þórarinsson, laganefnd, Kjartan Jóhannsson og til vara Ragnhildur Helgadóttir, menntamálanefnd, Guðmundur G. Þórarinsson og til vara Ragnar Arnalds, landbúnaðarnefnd, Kjartan Jóhannsson, og það skal tekið fram að landbúnaðarnefnd þingsins er jafnframt

sjávarútvegsnefnd, heilbrigðis- og félagsmálanefnd, Ragnhildur Helgadóttir og til vara Kristín Halldórsdóttir, og nefnd um samskipti við lönd utan Evrópuráðsins, Kristín Halldórsdóttir, nefnd um tengsl þingsins út á við, Hreggviður Jónsson, þingskapa- og fjárlaganefnd, Ragnar Arnalds, og stjórnmálanefnd, Ragnhildur Helgadóttir, vísinda- og tækninefnd, Kjartan Jóhannsson, skipulags- og sveitarstjórnarmálanefnd, Guðmundur G. Þórarinsson, og flóttamannanefnd, Guðmundur G. Þórarinsson.
    Hv. þm. sjá af þessari upptalningu að það er ljóst að við verðum að velja og hafna í þátttöku í störfum í þessum nefndum og einungis af fæð okkar er ljóst að við getum ekki sinnt öllum þessum nefndum sem skyldi, en ég tel að við þurfum að sinna þeim enn betur en við nú gerum. Sannleikurinn er sá að svo mikið starf hvílir á hv. alþm. að þeir hafa e.t.v. ekki sinnt nefndarstörfunum eins vel og skyldi.
    Nú mætti þetta hljóma nokkuð gagnrýnilega í eyrum hv. þm. Í þessu felst þó ekki gagnrýni á þingmenn heldur í raun og veru það að þessi nefnd hefur enga ritaraaðstoð og enga sérfræðiaðstoð. Það segir sig sjálft að það er orðin brýn þörf fyrir Alþingi að við þingið starfi skrifstofa, starfsmaður eða starfsmenn, sem veiti þeim nefndum þingsins sem sinna alþjóðlegu starfi faglega aðstoð. Það er heldur dapurleg aðstaða fyrir okkur að finna að allar þær þjóðir, sem taka þátt í þessum störfum með okkur, hafa unnið vandað málefnastarf fyrir nefndafundina, hafa slíka aðstoð. Ég held að þetta þyki sjálfsagt í öllum þjóðþingum. Nú er spurning hvort unnt væri að skipuleggja
mál með þeim hætti hér í okkar stofnun, hér á Alþingi að við gætum haft slíka aðstoð.
    Til fyrirmyndar er í þessu sambandi að nú hefur verið ráðinn starfsmaður til að aðstoða nefndir þingsins við vissa undirbúningsvinnu sem þar er unnin. Þó að hann sé einn finn ég að þetta er mjög mikill aðstöðumunur. Ef eitthvað slíkt væri gert fyrir þær nefndir sem sinna alþjóðlegu samstarfi tel ég að við stæðum miklu betur að vígi til að nýta okkur það sem fer fram í þeim alþjóðastofnunum sem við erum aðilar að og til þess að geta sjálf staðið betur að því sem við leggjum þar fram.
    Þegar ég lít inn í hliðarherbergið minnist ég þess að t.d. hefur orðið mjög mikil framför í aðstoð við Íslandsdeild Norðurlandaráðs og ég sé það í hillingum að þeir sem sinna Evrópusamtökunum, bæði Evrópuráði og ég geri ráð fyrir eflaust EFTA-þingmannasamtökum, alþjóðaþingmannasamtökunum líka, fengju slíka aðstoð.
    Ég hef kosið, frú forseti, að fara nokkrum orðum um vissa þætti sem standa ekki í þessari skýrslu. Það sem ég hef verið að segja eru meira hugleiðingar sem byggjast á reynslu minni þetta rúma ár sem ég hef starfað í sendinefnd Alþingis á þingi Evrópuráðsins og mér þykir alveg augljóst að við þurfum að standa að vissum breytingum til þess að starf okkar beri meiri árangur og verði að enn meira gagni heima á Íslandi.

Vanmet ég þó ekki á neinn hátt þann árangur sem hefur orðið og birst í ýmsum störfum í stjórnkerfi okkar á liðnum árum.
    Ég vík í örfáum orðum að einstökum málefnum sem borið hafa hæst á liðnu ári. Fram hafa farið mikilvægar umræður um Evrópustefnu í flugmálum, um sjónvarp, sérstaklega á milli samliggjandi landa, notkun sjónvarps í kosningabaráttu, vernd gegn mengun Norðursjávar, tillögur um fjölskyldustefnu, um fræðslu og þjálfun fyrir atvinnulífið og tillögur um menntun og menningu sem byggist á sameiginlegri evrópskri arfleifð.
    Á þessu ári hefur borið hátt umræður um tengsl við lönd utan Evrópuráðsins, einkanlega um vaxandi samskipti við Austur-Evrópu. Það er ljóst að bæði núverandi forseti þings ráðsins, Louis Jung, og framkvæmdastjóri ráðsins, Marcelino Oreja, hafa sýnt þeim samskiptum mjög mikinn áhuga og þann tíma sem ég hef tekið þátt í þessu starfi hefur vaxið skilningur minn á nauðsyn þessara tengsla vegna þess að vaxandi áhersla er á umhverfismálum sérstaklega sem eins og hér hefur verið orðað margsinnis virða engin landamæri eða mismunandi stefnur eða mismunandi hugsjónir heldur er þar um málefni að ræða sem nauðsynlegt er að ná samstarfi við Austur-Evrópuríkin um. Ég hygg að þeir tveir forustumenn sem ég nefndi hafi náð verulegum árangri í því efni jafnframt því sem öll þau samskipti hafa verið mjög til umræðu frá pólitísku sjónarmiði. Menn hvetja jafnframt til árvekni og varfærni í þeim samskiptum en fyllsta raunsæis.
    Málefni Ísraels og palestínskra flóttamanna hafa verið til umræðu í Evrópuráðinu. Mannréttindabrotin í Rúmeníu, sem sumir kalla landbúnaðarstefnu Rúmeníu, trúfrelsi í Austur-Evrópu og griðland fyrir flóttamenn. Það má spyrja: hvers vegna eru samtök, sem þessi lönd eru ekki aðilar að, að ræða um slík mál? Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að ályktanir Evrópuráðs hafa mikil áhrif gagnvart stjórnum þessara landa, einkanlega eftir að viss samskipti hafa verið tekin upp með óformlegum hætti við forustumenn þeirra.
    Ég leyfi mér að vísa til skýrslunnar sjálfrar um greinargerð um einstök málefni að öðru leyti og ég hef vikið að hvernig Evrópuráðsstarfið rekst stundum með nokkrum hætti á starf annarra Evrópustofnana, einkum Evrópubandalagsstarfið, en það eru einmitt samskiptin við það sem þurfa að fara í fastari farveg til þess að hagkvæmni verði sem mest í samskiptum Evrópuríkjanna innbyrðis og verkaskipting greinilegri. Ég hygg að það ætti að verða unnt að ná samkomulagi um það milli þessara ríkja, en það er ekki unnt nema þingmenn og ráðherrar leggist þar á eina sveif og vinni að því. Þess vegna vil ég vekja sérstaka athygli á þeirri hugmynd, sem ég nefni í lok skýrslunnar, að e.t.v. verði framtíðarfyrirkomulagið í samstarfi þessara stofnana, Evrópubandalagsins og Evrópuráðsins, það að Evrópuráð verði eins konar efri deild sem kosið er til á þjóðþingum aðildarríkjanna og sinni þeim störfum sem því er ætlað í reglum

Evrópuráðsins, þ.e. ekki viðskiptasamvinnu með venjulegum hætti og ekki varnarmálum, og hins vegar sé svo neðri deild þessa þings, sem sé Evrópuþingið þar sem kosið er beinum kosningum í aðildarríkjunum.
    Ég nefndi að Evrópuráðið sinnti ekki varnarmálum. Ég vil þó vekja athygli á því að þingmenn Evrópuráðsins frá nokkrum aðildarríkjum mynda Evrópubandalagið sem fjallar um varnarmál Evrópuríkjanna. Þetta er stofnun sem ég veit með vissu að Íslendingar hafa lítið skipt sér af og vissu satt að segja harla lítið um í fyrra ef ég má orða það svo. Ég á þá auðvitað ekki við alla Íslendinga, en það var algerlega ljóst t.d. þegar nefnd kom í fyrra frá Vestur-Evrópubandalaginu, sem er varnarmálasamvinna, að við vorum harla lítið
kunnug þessu starfi og íslenska ríkisstjórnin var ekki í neinu sambandi við þessa stofnun. Ég varpa þeirri hugmynd fram að við óskum eftir áheyrnaraðild að Vestur-Evrópubandalaginu. Það er kannski eðlilegra að fjalla um það í hinum almennu umræðum um skýrslu utanrrh. síðar, en ég nefni þetta atriði í sambandi við Evrópuráðið vegna þess að Vestur-Evrópubandalagið er grein á þess meiði. Það eru eingöngu Evrópuráðsþingmenn sem eru í Evrópusamtökum þessum.
    Að lokum, frú forseti. Evrópuráðið á 40 ára afmæli 5. maí nk. Ég leyfi mér að óska þess að það takist að minnast þess með verðugum hætti hér á landi, ekki með neinum íburði en með þeim hætti að menn skilji hve mikilvæg starfsemi fer fram í Evrópuráðinu til verndar mannréttindum, menningu og félagslegum réttindum manna. Ég vonast til þess að hv. Alþingi, forseti þingsins, sjái sér fært að minnast þess afmælis úr forsetastóli hinn 5. maí ef þingfundur verður þá. Sú nefnd sem hafði með höndum undirbúning þessa afmælis hafði talið að þinginu yrði jafnvel lokið um það leyti, en nú horfa mál svo að þá muni þing enn þá standa og ég vonast til þess að Alþingi minnist þess með viðeigandi hætti.