Félagsmálaskóli alþýðu
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Frsm. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 909 um frv. til l. um félagsmálaskóla alþýðu frá félmn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna um málið Björn Þórhallsson frá ASÍ og Sigurveigu Sigurðardóttur frá BSRB og mæltu þau bæði með samþykkt frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með brtt. sem flutt er á sérstöku þingskjali. Hér er ekki um efnislega breytingu að ræða heldur er verið að gera 5. gr. frv. skýrari.
    Undir nefndarálitið skrifa allir nefndarmenn og ég tel skylt að skýra frá því líka, það kom fram í máli Sigurveigar Sigurðardóttur frá BSRB, að félagar í BSRB fagna því sérstaklega að eiga aðild að félagsmálaskólanum með þessu frv.