Sjúkraliðar
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. um breytingu á lögum nr. 58/1984, um sjúkraliða. Eins og fram kemur í frv. sjálfu var í kjarasamningi í apríl 1987 gerður samningur á milli þáv. heilbr.- og trmrh. og sjúkraliða um að sjúkraliðum yrðu tryggð ákveðin réttindi. Eftir því sem mínar upplýsingar ná til voru ákveðnar hugmyndir þar í gangi um hvaða atriði ætti að bæta og breyta í þeim lögum sem þá voru.
    Nú hefur komið í ljós að hér hefur verið lagt fram frv. og það hefur ekki að öllu leyti verið haft samráð við Sjúkraliðafélag Íslands um þessar breytingar og að upp hefur komið mikill ágreiningur á milli Sjúkraliðafélagsins og hjúkrunarfræðinga um hvernig á að haga þessum málum.
    Það er eitt að semja í kjarasamningi um ákveðna skipan og síðan að koma henni í gegnum Alþingi. Ég skal viðurkenna það að þetta er mikið vandamál, en hins vegar ber að hafa gát á því þegar samið er að vita fyrir fram hvernig og hvort þær breytingar nái fram eða ekki.
    Það sem ég hef aðallega á móti frv. eins og því hefur verið breytt er að nú er gert ráð fyrir því að það þurfi að margauglýsa stöður sé ekki hjúkrunarfræðingur til staðar hjá viðkomandi stofnun eða viðkomandi deild. Þetta getur haft í för með sér mikil óþægindi og leiðir líka hugann að því af hverju þarf alltaf að vera að rígbinda störf eftir stöðuheitum og eftir menntun. Af hverju má ekki líta á störfin sem slík? Nú er ekki mikill munur á störfum hjúkrunarfræðinga og störfum sjúkraliða. Eini munurinn á þessum tveimur starfsstéttum er titillinn og hvaða menntun liggur að baki.
    Eins og staðan hefur verið á mörgum sjúkrastofnunum hefur verið mjög erfitt að fá hjúkrunarfræðinga til starfa og því hefur verið notast við sjúkraliða og þeir hafa ekki getað sinnt störfum sínum almennilega og jafnvel ekki fengið stöðu sem nauðsynlegt hefur verið að manna út af því að hjúkrunarfræðingur hefur ekki verið til staðar.
    Ég mun ekki hafa þessi orð mín fleiri að sinni, en ég á seturétt í hv. heilbr.- og trn. og mun ræða þetta mál frekar þar. Ég vona svo sannarlega að þetta frv., sama hvernig það kemur út, verði að lögum á þessu þingi.