Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Á þskj. 915 liggur fyrir nál. frá hv. fjh.- og viðkn. þessarar deildar um frv. til l. um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Þegar nefndin fjallaði um þetta frv. fékk hún á sinn fund Indriða H. Þorláksson frá stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins svo og Benedikt Sigurðsson, Gunnar Egilson og Sæbjörn Jónsson frá Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
    Frv. það sem hér um ræðir felur í sér ýmis atriði til breytinga á lögunum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Einkum er þar verið að gera hluti skýrari og taka af tvímæli og í frv. eru eingöngu þau atriði sem fullkomið samkomulag var um milli fulltrúa stjórnar ríkisins og þeirra starfsmannafulltrúa sem sæti eiga í stjórn sjóðsins. Atriði sem ágreiningur var um voru lögð til hliðar og bíða frekari athugunar.
    Það er megintilgangur þessa frv. að tryggja að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem fram til miðs síðasta árs hafa greitt í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins en hafa hins vegar ekki notið réttinda úr sjóðnum vegna þess að ákvæði um aðild þeirra hafa ekki verið nægilega skýr í lögunum, þannig að þeir sem borga í sjóðinn eins og starfsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar eigi þar líka réttindi. Samkomulag er um að sá tími sem þeirra lífeyrissjóðsgreiðslur hafa farið í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda verði að þessu frv. samþykktu litinn sem óslitinn greiðslutími þannig að þeir missa í engu í sínum réttindum.
    Innan fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar var fullkomin samstaða um að mæla með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk þessu áliti, en fjarstaddur var hv. þm. Halldór Blöndal.